30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3453 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

210. mál, landgræðsla

Frsm. (Steinþór Gestsson) :

Herra forseti, Frv. það, sem hér er til 2. umr., er eitt þeirra frv. sem landgræðslu- og landnýtingarnefnd samdi og er þetta eins konar fylgifiskur þeirrar landgræðsluáætlunar sem samþ. var á hátíðarfundi Alþ. á Þingvöllum á s. l. sumri. Landbn. hefur rætt frv. og fengið umsagnir frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda um það. Þá komu landgræðslustjóri og fulltrúi hans á fund n. Að athuguðu máli taldi n. rétt, að gera á frv. nokkrar breyt. sem finna má á þskj. 516 og vil ég aðeins koma að þeim og skýra efni þeirra.

Fyrsta brtt. er við 6. gr. Þar er aðeins um smávægilega leiðréttingu að ræða. N. sýndist að þar væri ofaukið í gr. nokkrum orðum sem hún leggur til að verði felld niður. Í frv. er sá málsliður þannig: „Hver sem verður þess var að girðing skemmist svo að hætta sé á að hún haldi ekki sauðfé skal, ef við verður komið, skýra hreppstjóra eða eftirlitsmanni frá því hið fyrsta .“ Það sýnist vera óeðlilegt að hafa þessi orð þarna inni í setningunni: „ef við verður komið“ því að gr. endar á því að það skuli skýra eftirlitsmanni frá hið fyrsta. Það er því fyrsta till. n. að þetta verði fellt niður.

2. till. n. er við 7. gr. Þar er gert ráð fyrir að í hverri sýslu skuli starfa þriggja manna gróðurverndarnefnd. Það var ekki fortakslaust áður að svo skyldi vera, en er nú gert að skyldu með þessu frv. Það stendur óbreytt í þessu frv. það sem er í eldri lögum að sýslunefnd skuli kjósa nefndina til 4ra ára í senn, að fengnum till. frá viðkomandi búnaðarsambandi, og nefndin kjósi sér formann. Hins vegar er í frv. ákvæði um að funda- og ferðakostnaður gróðurverndarnefndarinnar skuli greiðast af fé Landgræðslunnar. N. þótti það ekki eðlilegt, þar sem Landgræðslan hefði ekki ákvörðunarrétt um það hverjir væru í nefndinni, að hún skyldi fortakslaust greiða allan kostnað við nefndina og taldi eðlilegt að fara inn á svipaða eða sömu braut og er í gildandi lögum, að sýslusjóður, sem kýs nefndina og ræður hverjir í henni eru, greiði nokkurn hluta kostnaðarins við nefndarstörfin. Landbn. leggur því til að störf gróðurverndarnefndar greiðist af fé Landgræðslunnar að 2/3 hlutum og af viðkomandi sýslusjóði að 1/3 hluta. Er það nokkurn veginn í samræmi við þau kostnaðarskipti sem t. d. eru á launum héraðsráðunauta hjá búnaðarsamböndum í landinu.

3. liður brtt. er við 8. gr. Þetta virðist ekki mjög mikil breyting, en þó álit ég að hún sé nokkuð þýðingarmikil. Í landnýtingaráætluninni eða landgræðsluáætluninni, sem samþ. var í sumar, er gert ráð fyrir að skipaður verði við Búnaðarfélag Íslands landnýtingarráðunautur og kostnaður við störf hans er innifalinn í þeirri þjóðargjöf sem ákveðin var í sumar. Landbn. þótti eðlilegt, og fékk reyndar ábendingar um það frá Búnaðarfélagi íslands, að gróðurverndarnefndirnar hefðu samstarf við landnýtingarráðunautinn einmitt á þessum árum þegar við væntum þess að meira verði starfað í landnýtingar- og landgræðslumálum heldur en ella hefði verið. Breytingin, sem við leggjum til að gerð verði á 8. gr., er eingöngu í því fólgin að gróðurverndarnefndirnar skuli hafa samráð við landnýtingarráðunaut og að þær skuli vera skyldar til að skila til hans árlegum skýrslum um störf sin. Ég hygg að fleirum sýnist þegar þeir skoða málið í þessu ljósi að þessi breyting sé eðlileg.

4. brtt. á þskj. 5l6 er einungis um það að þyngja sektarákvæði gildandi laga. Landgræðslulögin eru orðin 10 ára gömul og þar er gert ráð fyrir því í 43. gr. að sektarákvæðin séu frá 1–20 þús. kr. En landþn. leggur til að þessar upphæðir verði hækkaðar um 100% og að í staðinn fyrir 1–20 þús. komi 2–40 þús.

Þetta eru þær breyt. sem landbn. leggur til að gerðar verði á frv. Hún telur að þær breytingar, sem felast í frv. á þskj. 403, með þeim breytingum, sem n. leggur til að gerðar verði á því, muni stuðla að því að landgræðsluáætlunin, sem samþ. var á Alþ. 28. júlí s. l., komi að þeim notum fyrir land og lýð sem vonir manna standa til. Þótt ekki séu gerðar neinar skipulagsbreytingar á starfsemi Landgræðslunnar með setningu þeirra ákvæða, sem hér er lagt til að lögfesta, þá munu þau verða til þess að tryggja árangur þeirrar starfsemi sem Landgræðslan hefur með höndum og var aukin mjög við samþykkt landgræðslu- og gróðurverndaráætlunarinnar.

Við 1. umr. um þetta frv. gerði hæstv. landbrh. glögga grein fyrir frv. og nauðsyn þess að það verði að lögum á þessu þingi. Landbn. tekur undir þau ummæli hæstv. ráðh, og er sammála um að leggja til við hv. þd. að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem hún flytur till. nm á þskj. 516.