30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3455 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Síðla árs 1973 voru samþ. lög um þörungavinnslu við Breiðafjörð. Var ákveðið að stofna skyldi slíkt fyrirtæki með þátttöku ríkisins. Kostnaðaráætlanir voru byggðar á áætlun sem undirbúningsnefnd þörungavinnslu hafði látið gera í okt. 1973. Framkvæmdir hófust svo við þetta fyrirtæki og er lokið bygginga 1500 fermetra húsnæðis fyrir vélar, verkstæði og skrifstofur fyrirtækisins. Vélar í þurrkstöð eru þegar komnar og ýmis tækjabúnaður að koma til landsins. Það er stefnt að því, að starfræksla fyrirtækisins geti hafist á miðju þessu ári.

En mikil hækkun stofnkostnaðar hefur orðið síðan í okt. 1973 og hefur stjórn Þörungavinnslunnar því sent ríkisstj. beiðni um að tölur verði endurskoðaðar í lögunum í samræmi við það. En frá því í okt. 1975 hefur áætlun um stofnkostnað hækkað úr 212 millj. í 422 millj. Þessi nýja áætlun er dags. 21. mars s. l. Ástæðu þessarar miklu hækkunar telur stjórn verksmiðjunnar vera erlendar og innlendar verðhækkanir og m. a. breytt gengi ísl. kr. Þótt stofnkostnaður hækki svo mjög telur stjórn verksmiðjunnar samt sem áður að horfur hafi ekki versnað, heldur jafnvel batnað um rekstrarafkomu fyrirtækisins og það stafi bæði af verðhækkun erlendis á væntanlegum afurðum þessarar verksmiðju og af breytingum á gengi ísl. kr.

Það, sem stjórn verksmiðjunnar hefur farið fram á, er tvennt: Annars vegar að hlutafé ríkisins verði hækkað úr 60 millj. kr. í 90 millj. kr. og enn fremur að heimildir í l. til lántöku eða ríkisábyrgðar á lánum verði hækkaðar úr 140 millj. í 340 millj. kr. Lánsstofnanir þær, sem gáfu fyrirheit um lánsfé til þessa fyrirtækis, hafa einnig gefið fyrirheit um aukningu þess í samræmi við þessa hækkun stofnkostnaðar, en á þeirri forsendu að hlutafé verði aukið sem hér greinir.

Ríkisstj. hefur ákveðið að flytja þetta frv. eftir beiðni stjórnar Þörungavinnslunnar, og vil ég leggja til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn.