30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3456 í B-deild Alþingistíðinda. (2557)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Jón G. Só1nes:

Herra forseti. Það er nú ekki meining mín að fara að setja fæturna fyrir samþykkt þessa frv. sem hér hefur verið borið fram. En við lestur þess get ég ekki varist því að það kemur upp í huga minn að hér sé á ferðinni málefni sem sé dæmigert fyrir það hvernig að minn mati er fljótfærnislega farið út í framkvæmdir á vegum ríkisins án þess að málin séu krufin nauðsynlega til mergjar og skoðuð gaumgæfilega frá hagkvæmnissjónarmiði. Hér er á ferðinni eitt af þeim málum sem stofnað er til af áhugamönnum sem ég efast ekki á nokkurn hátt um að meini allt vel með þeim tilgangi sem felst í því að hafa forgöngu um að hefja starf. sem sem þessa sem hér er verið að ræða um og þessu væntanlega fyrirtæki er ætluð. En hér kemur á daginn eins og svo oft áður að það er stuðst við áætlanir sem venjulega í tilfellum sem þessum eru samdar af mikilli bjartsýni og miðaðar við hagstæðustu forsendur. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það kemur fyrir að við rekum okkur svo óþyrmilega á þegar til framkvæmdanna á að koma. Ég minnist þess að þegar þetta mál var til umr. hér í þinginu átti ég hér stutta setu sem varaþm. Ég hafði engin tök þá á því að setja mig inn í þetta mál eða fylgjast með því. En einhvern veginn fannst mér þá af því litla sem ég gat kynnt mér meðferð málsins að ég yrði var við að þar væri bjartsýnin og óskhyggjan algjörlega í fyrirrúmi. Enda er það komið í ljós að þegar á að fara að hefja framkvæmdir standast engar áætlanir og þetta fer gjörsamlega úr skorðum miðað við það, sem upphaflega var ráð fyrir gert, að það er ekki einu sinni að það sé hægt að segja að muni einhverju verulega litlu heldur umturnast þetta allt saman. Og þetta er afgr. með grg. í tveimur línum, að upphafleg kostnaðaráætlun, sem er miðuð við 212 millj., tvöfaldast. Og það er vegna þess að aukning stofnkostnaðar stafar að mestu leyti af breyttu gengi íslensku krónunnar, en að nokkru leyti af öðrum erlendum og innlendum verðhækkunum, vegna launasamninga í febr. 1974. En þrátt fyrir þetta hefur þetta bara orðið til hins betra því að þegar þetta frv. var fyrst borið fram var arðsemin, að mig minnir, miklum mun minni en hér er tilgreint á bls. 3. Því meira sem þessi kostnaður eykst og því meira sem það kostar að koma fyrirtækinu upp, því meiri verður arðsemin. Það er sett hér upp þannig að samkv. þessu er um að gera að umturna öllu þessu kerfi sem mest — því meiri verður arðsemin. Ég er ósköp hræddur um það að á þessari endurskoðuðu kostnaðaráætlun, sem er nú miðuð við 21. mars 1975, muni eiga eftir að verða einhverjar breytingar áður en framkvæmdum er þarna lokið.

Eitt vil ég benda á í sambandi við meðferð þessa máls sem ég tel ekki hvað þýðingarminnst, en það er sú geigvænlega breyting eða hækkun sem orðið hefur á áætlunum um hafnargerð á þessu svæði. Fyrstu áætlanir, sem þarna voru birtar, voru, ef ég fer rétt með, eitthvað um 83 millj. Nú verð ég að segja það að með tilliti til þess að höfn eins og þarna var ráðgert að reisa þjónar eiginlega engum öðrum tilgangi en að vera þjónustuhöfn fyrir þetta væntanlega fyrirtæki, þá hefði alls ekki verið óeðlilegt að stofnkostnaður við slíka höfn hafði verið tekinn inn í stofnkostnað þessa fyrirtækis. Það sjá allir, að fátækum og fámennum sveitarfélögum, sem þarna eiga að vera aðilar að væntanlegri hafnargerð og eiga að standa straum að sínum hluta eins og ráðgert er í lögum um byggingu hafnarmannvirkja, er gjörsamlega fyrirmunað að geta á nokkurn hátt tekið þátt að neinu leyti í þeim kostnaði sem fellur í hlut slíkra sveitarfélaga í sambandi við jafnháar tölur eins og þarna er um að ræða. Og sem dæmi um það við hvaða erfiðleika er að eiga þarna talnalega, þá var ég á fundi nú nýlega uppi í Framkvæmdastofnun og þá upplýstist, að mig minnir, varðandi tölur, sem hefðu legið fyrir um væntanlegan kostnað við hafnargerð á þessu svæði í lok febr. eða byrjun mars, að þá hafði verið talað um að stofnkostnaður væri 150 og eitthvað millj. En þegar við vorum á þessum fundi í stjórn Framkvæmdastofnunarinnar þennan dag, fyrir rúmri viku, var okkur tjáð að ekki mætti reikna með lægri upphæð en 180 og eitthvað millj. kr. Og þá er einhverju brugðið ef þessi upphæð á ekki eftir að hækka verulega þegar svo þessi höfn verður fullgerð og tekin til starfa. Ég held því, ef nokkur grundvöllur á að verða fyrir því að hægt verði að reka þá höfn og borga nokkurn tíma niður þá framkvæmd, að þurfi að reikna með meiri tekjum handa höfninni frá þessu væntanlega fyrirtæki, og ber ég þá þann ugg í brjósti að arðsemisútreikningurinn verði eitthvað öðruvísi en tilgreint er í frv.

Eitt dæmi get ég enn nefnt sem er nokkur sönnun um það hve mikil óskhyggja hefur ráðið ferðinni í sambandi við allar ráðagerðir og áætlanagerðir þessu máli viðvíkjandi. Þegar er verið að áætla hvað til að mynda þurfi marga þangskurðarpramma, þá gera þessir aðilar ráð fyrir því að það þurfi 5 eða 6 pramma. En nýlega var ég á fundi þar sem það upplýstist — þ. e. áður en farið er að framleiða nokkuð í þessari verksmiðju, að þessar tölur eru rangar. Það þarf 11 eða 12 pramma, og þessu eru menn að komast að og þetta eykur stofnkostnaðinn um mikla upphæð. Hvað þarf svo marga pramma þegar loksins verður farið að vinna?

Allt ber þetta að sama ósi. Ekki er hægt að framkvæma neitt svona nema gera það á vegum ríkisins. Ég segi fyrir mitt leyti. Ég er ekki á móti fjárfestingu, ég er ekki á móti framkvæmdum í þessu þjóðfélagi og að troðnar séu nýjar slóðir og reynt að breikka okkar athafnasvið, en að einblína stöðugt á þá lausn í þeim efnum að slíkt sé gert á vegum hins opinbera, það kann ég hálfilla við. Og í sambandi við það fyrirtæki, sem hér er verið að ræða um, verð ég að segja það að það vekur líka dálítinn ugg í mínum huga, jafnmikill fylgismaður fjármagnsflutnings og ég er, að mér finnst þetta fyrirtæki of skuldbundið einum erlendum aðila. Ég er fylgjandi frjálsri samkeppni og ég vil hafa þá aðstöðu í sambandi bæði við framleiðslu og sölu á því, sem verið er að framleiða, að maður sé ekki skuldbundinn einum aðila getur sett manni stólinn fyrir dyrnar hvenær sem honum líkar. Einhvern veginn minnist ég þess að þegar þetta frv. var hér til umr. á sínum tíma, var ákaflega mikið miðað við það að verða að öllu leyti við kröfum þessa erlenda fyrirtækis. Það var að mínum dómi látið ráða of mikið ferðinni.

Þessi orð, sem ég hef sagt hér, eru ekki hugsuð til þess að stöðva framgang þessa frv., heldur vil ég að á þau sé litið sem almenna aðvörun um það hvernig hv. alþm. eiga að halda á málum og hvort ekki sé kominn tími til þess að sýna meiri gjörhygli og láta kryfja mál meira til mergjar áður en þan eru afgr. á þann hátt, eins og til að mynda þetta mál hefur verið afgr. á þingi, — hvort er ekki kominn tími til að stinga svolítið við fótum um að það sé ómögulegt að stofna til neins fyrirtækis, sem á að valda einhverju verulegu verkefni í efnahagsmálum þjóðarinnar, standa fyrir nýjum aðgerðum og marka ný mið í sambandi við breytta framleiðsluhætti, án þess að allt sé gert á vegum hins opinbera. Ég segi fyrir mitt leyti: Ég held að sá flokkur, sem ég er fulltrúi fyrir hér á þingi, hefði það ekki á stefnuskrá sinni, og ég vildi gjarnan fara að reyna að hafa áhrif á það að hann og ráðamenn hans færu að spyrna hér við fótum gagnvart þessari stefnu, sem að mínu mati hefur ráðið of miklu hjá okkur að undanförnu.