30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3458 í B-deild Alþingistíðinda. (2558)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti, Ég get verið mun stuttorðari en ég hugsaði mér vegna þess að síðasti ræðumaður drap á þennan þátt varðandi höfnina sem ég hafði hugsað mér að ræða aðeins.

Þegar maður lítur á rekstraryfirlitið á bls. 8 kemur í ljós að útskipunarkostnaður og vörugjald er reiknað á 6 millj. 189 þús. kr. Í sambandi við hafnarmálin er það upplýst að, að höfnin mun vart kosta undir 200 millj. kr., og þó að ríkið borgi 75% er það líka upplýst að sveitarfélagið á vart nokkrar krónur afgangs til þess að láta í höfnina, þannig að í raun mun ríkisvaldið verða að fjármagna þetta svo til alveg, svo til alveg gjörsamlega, svo að framlag ríkisins varðandi þetta fyrirtæki nálgast þá að vera 100%. En höfnin er ekki skráð neitt á vegum þessa fyrirtækis, heldur á það að borga lítils háttar hafnargjöld sem ekki nálægt því hrökkva fyrir vöxtum. Kannske hefur þetta alltaf átt að vera svona. En ég segi bara: Þegar hafnarfé á lífsnauðsynlega staði er svo skorið við nögl, að lífsnauðsynlegar fiskiskipahafnir eru stórhættulegar fyrir viðkomandi flota, þá verðum við að gá að okkur í þessu efni. Einnig vildi ég varpa fram þeirri spurningu og að ýmsu leyti taka undir orð síðasta ræðumanns: Hvers vegna er þá ekki almennt fjárútboð, hlutafjárútboð? Er það bara kvöð af hálfu ríkisins? Hvað um fyrri eigendur þegar arðsemi er skráð hér 22%? Freistar arðsemin þeirra alls ekki neitt, að fá 22% af sínu hlutafé? Hvað eru mörg fyrirtæki á íslandi sem bjóða það í dag? Þau eru sárafá. Ég þekki ekki eitt einasta — nema umrætt fyrirtæki, ef við eigum að trúa þeim tölum sem liggja hér á borðinu hjá okkur og eru á bls. 3. Mér virðist því að þegar þetta fyrirtæki er í fjármagnsvandræðum eigi að gera annað en að leita til ríkissjóðs. Það á líka að bjóða almenningi að eignast hlut í þessu fyrirtæki og einnig að tilkynna að fyrri eigendur eða hluti af eigendum á móti ríkissjóði ætli nú að leggja í púkkið, fyrst arðsemi er gefin hér upp 22% af framlögðu fjármagni.

Ég held að það sé alveg rétt hjá 2. þm. Norðurl. að hér hafi á sínum tíma ríkt gífurleg bjartsýni, hér hafi verið unnið hratt. Kannske reynist það í lagi. En þegar við sjáum allar þessar hreyfingar, uppbyggingu á rekstraráætlun og kostnaði o. s. frv., fjármögnun, hafnarvandamálið og allt saman, þá kemur í ljós að við hefðum átt að flýta okkur örlítið hægar eða a. m. k. fá betur unnin gögn í hendurnar, hv. þm.