25.11.1974
Neðri deild: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

48. mál, lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Við 1. umr. fjárl. í Sþ. var gerð grein fyrir flutningi tveggja frv. af hálfu ríkisstj. og eru þau nú til umr. í þessari hv. deild.

Frv. til l. um lántökur ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja er nánari skýring á ákvæðum 40. gr. stjórnarskrárinnar sem gerir ráð fyrir því að ekki megi taka lán sem skuldbindi ríkið nema samkv. lagaheimild. Í samræmi við ákvæði þessi hefur yfirleitt verið leitað fjárlagaheimildar til töku fjárfestingarlána innanlands, en hins vegar sérstakrar lagaheimildar til lántöku erlendis. Þó hafa fasteignakaup ríkisins iðulega veríð þannig gerð að ríkissjóður hefur tekið við áhvílandi lánum án þess að til slíks væri bein heimild í lögum.

Um nokkurra ára skeið hefur þeirri reglu verið fylgt að fjmrn. taki öll lán vegna ríkissjóðs og stofnana sem getið er um í A-hluta ríkisreikningsins, en eins og kunnugt er er ríkisreikningnum skipt í tvo hluta. Í A-hluta er ríkissjóður og svokallaðar stofnanir, en í B-hluta eru ríkisfyrirtæki og sjóðir sem flestir hafa einhvern rekstur með höndum. Frv. þetta gerir ráð fyrir óbreyttri reglu hvað snertir A-hlutafyrirtæki, að fjmrn. taki fyrir hönd ríkissjóðs öll lán vegna þeirra stofnana sem þar eru, en fyrirtækjum í B-hluta sé því aðeins heimilt að taka lán, stofna til skulda eða taka ábyrgð á skuld að fyrir liggi heimild í sérstökum l. eða fjárl. eða fyrir liggi sérstakt samþykki viðkomandi rn. og fjmrn., en skort hefur á að slíkar heimildir hafi verið fyrir hendi þegar fyrirtæki í B-hluta hafa tekið lán.

Frv. þetta er gagngert flutt til þess að koma í veg fyrir að einstök fyrirtæki ríkisins geti hlaðið upp skuldum án þess að viðkomandi rn. sé það kunnugt fyrr en í hreint óefni er komið. Veruleg skuldasöfnun fyrirtækja ríkisins án skýrra heimilda getur ekki heldur talist í samræmi við heilbrigða fjármálastjórn. Jafnframt verður með þessum hætti betur tryggt að stjórnvöld sinni vandamálum þessara fyrirtækja fyrr en raun hefur orðið á að undanförnu. Ákvæði frv. ættu því að tryggja að jafnan liggi fyrir yfirlit um heildarlántökur ríkisins og fyrirtækja þess, svo og að ekki séu teknar ríkisskuldbindingar án þess að fjármálayfirvöld hafi um það fjallað. 1 grg. frv. er nánari grein gerð fyrir því og enn fremur í aths. við einstakar gr. frv.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um málið meir, en legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv.fjh.- og viðskn.