30.04.1975
Neðri deild: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3471 í B-deild Alþingistíðinda. (2579)

253. mál, þjóðminjalög

Ingvar Gíslason:

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að fagna því að frv. þetta er fram komið. Eins og sjá má af skjalinu, sem fram er lagt, lætur það ekki mikið yfir sér, en ég vil taka undir það sem kom fram hjá hæstv. ráðh. að hér er um mjög merkilegt verkefni að ræða. Ég held að ef hv. Alþ. samþykkir þetta frv. sé í rauninni um að ræða merk tímamót í byggingarverndarmálum eða húsafriðunarmálum hér á landi.

Hæstv, ráðh. minntist á að það hefði stundum verið skilningur manna að íslendingar ættu ekki merkilega byggingarlistasögu, en hann tók líka fram, sem rétt er, að auðvelt er að hnekkja þeirri skoðun, enda hefur það verið gert. Við höfum átt ágæta fræðimenn sem kannað hafa þessi mál og nú síðast þann mann sem mest og ötulast hefur unnið að þessu, Hörð Ágústsson listmálara, sem hefur safnað mjög merkilegum heimildum um íslenska byggingarlist að fornu og nýju og á mikið efni í bók um það mál. Ég vil taka undir það sem hæstv. ráðh. sagði að það væri mjög æskilegt ef það gæti orðið á næstunni að Herði Ágústssyni ynnist tími til að fullvinna þá bók og koma henni út.

Það hefur vissulega verið unnið mjög merkilegt skref í sambandi við byggingarvernd og húsafriðun á Íslandi þrátt fyrir allt. Við höfum átt í embætti þjóðminjavarðar frá fyrstu tíð mjög ötula menn á þessu sviði og þar er fyrstan að telja Matthías heitinn Þórðarson sem e.t.v. er upphafsmaðurinn að þessu, að því að kynna þjóðinni hver verðmæti liggja í byggingarlist þjóðarinnar og í húsum hennar. Matthías Þórðarson tók við starfi þjóðminjavarðar tiltölulega ungur maður að árum og vann stórmerkilegt starf á því sviði. Eftirmaður hans, dr. Kristján Eldjárn, hélt því starfi áfram og núv. þjóðminjavörður, Þór Magnússon, vil ég meina að sé ekki neinn eftirbátum forvera sinna í starfi um áhuga á þessu efni. Hann hefur á þessum málum mjög góðan skilning og er m. a. formaður í húsafriðunarnefnd sem svo er nefnd.

Mig langar til að minna á það, þó að það þyki kannske af eigingjörnum hvötum gert, að á þinginu 1972–1973 flutti ég ásamt hv. þm. Þórarni Þórarinssyni frv. sem gengur mjög í þá átt sem nú er til umr., og má segja að tekin sé upp sú hugmynd sem við þá hreyfðum. Þó að málið gengi ekki fram þá varð það þó til að kynna þetta nokkuð og vekja áhuga. M. a. vakti það áhuga menntmn. Nd. á þeirri tíð og var þar verulega mikið rætt og þá var það hugmyndin, einkum í fyrra, af hálfu menntmn. að beita sér rækilega fyrir því að sá sjóður kæmist upp sem hér er nú lagt til að stofnaður verði þó að ekki yrði af því þá. En ég fagna því að hæstv. menntmrh. hefur tekið þetta mál upp og að þetta mál er nú komið fram, og ég vil taka undir allt það sem hann hefur sagt um mikilvægi þessa máls. Þó að það kunni kannske ekki að láta mikið yfir sér er ég sannfærður um það, m. a. sem nm. í húsafriðunarnefnd, að þetta mundi gjörbreyta starfsaðstöðu n. og verða mikil hvatning til þess að íslendingar ræktu betur þann menningararf sem felst í húsum og húsagerðarlist þjóðarinnar allt frá upphafi.