25.11.1974
Neðri deild: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

49. mál, ráðning starfsmanna og húsnæðismál ríkisstofnana

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með l. nr. 48/1958 voru lögfest ákvæði varðandi starfsmannahald ríkisins. Lög þessi segja fyrir um það með hvaða hætti fjalla skuli um ráðningar starfsmanna í þjónustu ríkisins og húsnæðis- og bifreiðakostnað ríkisstofnana. Lög þessi hafa verið þannig framkvæmd að samþykki sérstakra trúnaðarmanna hefur þurft til þess að fjölga fastráðnum starfsmönnum. Hins vegar voru svokallaðar lausráðningar starfsmanna látnar afskiptalausar af hálfu n. Vegna þessarar framkvæmdar hefur gætt vaxandi tilhneigingar til að lausráða starfsmenn og má jafnvel segja að viða hafi verið treyst á slíka starfskrafta án þess að tilskildar fjárveitingar væru fyrir hendi. Það liggur í augum uppi að við slík vinnubrögð er ekki hægt að una. Ráðningar starfsmanna ríkisins verða að vera í föstum skorðum og fjárveiting að vera fyrir hendi.

Megintilgangur þessa frv. er að tryggja að starfsmannahald ríkisins ráðist hverju sinni af fjárveitingum og þar með að Alþ. geti fylgst náið með starfsmannafjölda ríkisins ok umfangi ríkisstofnana. Frv. er ætlað að koma í stað l. nr. 48/1968, um ráðstafanir til að draga úr kostnaði við rekstur ríkisins.

Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á efnislegum atriðum laganna frá 1958, miða fyrst og fremst að því að gera eftirlit með ráðningu starfsmanna virkara, auðveldara og raunhæfara að fenginni reynslu. — Þá eru ákvæði um að ráðningarnefnd, sem er arftaki svokallaðrar bremsunefndar, skuli jafnan úrskurða erindin innan hálfs mánaðar frá móttöku þess, enda hafi n. borist fullnægjandi gögn og upplýsingar um málefnið. Telji ráðningarnefnd eigi augljóst, að erindi rn. skuli ná fram að ganga, skal hún jafnan kveðja fulltrúa þess rn. á sinn fund og kynna sér grg. hans áður en erindið hlýtur afgreiðslu. Þessum ákvæðum er ætlað að tryggja vandaðri og hraðari meðferð mála en verið hefur.

Þá er það nýmæli í frv. að árlega skuli gera skrá yfir starfsmenn ríkisins og hún lögð fram með fjárlagafrv. Má þá sjá á samanburði milli ára hvaða hreyfingar hafa orðið á starfsmannahaldi ríkisins.

Í 3. gr. frv. er að finna skilgreiningar á föstum starfsmönnum og lausráðnum starfsmönnum og ákvæði annarra gr. í samræmi við það, en slík skilgreining er ekki til í lögum. Það er skoðun mín að slíka skilgreiningu beri að hafa í lögum hvernig sem hún annars skal hljóða. Um það má hins vegar deila hvort eðlilegt sé að þetta ákvæði sé í þessu frv. eða í frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eru nú til endurskoðunar og við þá endurskoðun hafa þessi málefni sjálfsagt komið til athugunar.

Árið 1971 var kveðinn upp í hæstarétti dómur varðandi réttindi starfsmanns ríkisins sem kominn var í starf án samþykkis trúnaðarmanna ríkisstj. Þá er að vænta dóms hæstaréttar í næsta mánuði í máli sem telja má fullvíst að hafi verulega þýðingu um túlkun á réttarstöðu þeirra starfsmanna ríkisins sem ráðnir eru með uppsagnarfresti. Forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamenntaðra manna hafa í viðræðum við mig látið í ljós gagnrýni sína á ákvæðum 3. gr. miðað við þær kringumstæður sem hér eru fyrir hendi. Mun ég beita mér fyrir breytingu á frv. við þá þn., sem fær málið til meðferðar, þannig að ekki verði um ágreining að ræða við afgreiðslu málsins milli fjmrn. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamenntaðra manna.

Í grg. frv. er gerð grein fyrir einstökum gr. og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.