30.04.1975
Neðri deild: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3473 í B-deild Alþingistíðinda. (2588)

221. mál, Þjóðleikhús

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um Þjóðleikhús, en það er stjfrv. Þetta frv. á sér alllanga sögu að baki. Lög um Þjóðleikhús eru frá 1. júní 1947 og þau því tekin að nálgast þrítugsaldurinn. Frv. til nýrra þjóðleikhúslaga var lagt fyrir Alþ. sem stjfrv. árið 1971. Það var þá ekki útrætt. Málið kom svo fyrir næsta þing óbreytt og þá flutt af menntmn. Ed. að beiðni menntmhr. En það fór á sömu leið að frv. var ekki heldur útrætt á því þingi. Frv. kemur nú fyrir Alþ. í þriðja sinn og hefur menntmrn. gert á því nokkrar breyt. en ekki veigamiklar.

Þetta frv. var upphaflega samið af þriggja manna nefnd, en í henni áttu þessir sæti: Birgir Thorlacíus ráðuneytisstjóri, sem var form., Baldvin Tryggvason framkvæmdastjóri og dr. Þórður Eyjólfsson fyrrv. hæstaréttardómari. Þessi nefnd var skipuð 6. febr. 1970 og skilaði áliti 23. mars 1971. Nefndin kappkostaði að kynna sér viðhorf sem flestra þeirra sem gerst eiga að þekkja til leikhúsmála hér á landi. Hún átti m.a. viðræðufundi með þjóðleikhúsráði, þjóðleikhússtjóra, stjórn Félags íslenskra leikara og sérstakri nefnd á vegum þess félags, stjórn Bandalags íslenskra listamanna, stjórn Félags íslenskra listdansara, framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra leikfélaga, stjórn Þjóðleikhúskórsins og stjórn Leikfélags Reykjavíkur o. s. frv. Viðræður við þessa aðila áttu sér stað bæði áður en nefndin hóf störf sín fyrir alvöru eða í byrjun starfs hennar og eins eftir að hún hafði gert drög að frv.

Eins og áður segir er löggjöfin um Þjóðleikhúsið frá árinu 1947. Þjóðleikhúsið hóf sýningar eins og allir vita árið 1950 og hefur nýlega minnst 25 ára afmælis síns. Á þessu tímabili hefur auðvitað fengist mikilsverð reynsla um rekstur þess um leið og hann hefur þróast ár frá ári. Munu flestir ásáttir um að tímabært sé að setja nýja löggjöf um starfsemi leikhússins.

Í frv. þessu felast að sjálfsögðu margvíslegar breytingar frá gildandi löggjöf um Þjóðleikhús, og án þess að fara langt út í einstök atriði vil ég rifja hér upp það sem segir um þetta í aths. með frv.:

Í fyrsta lagi er kveðið skýrar á um það en áður að þótt flutningur leikrita sé aðalhlutverk Þjóðleikhússins beri því einnig að flytja óperur, sýna listdans að staðaldri og að á hverju leikári skuli eitt eða fleiri viðfangsefni sérstaklega ætluð börnum.

2. Skipan þjóðleikhúsráðs er gjörbreytt. Starfstímabil þess er tímabundið og fulltrúum í því fjölgað til þess að það geti orðið vettvangur sem flestra þeirra sem leikhúsreksturinn varðar.

3. Myndað er framkvæmdaráð sem í eiga sæti 4 menn auk þjóðleikhússtjóra.

4. Þjóðleikhússtjóra skal ráða til 4 ára í senn og má eingöngu endurráða sama mann einu sinni, þannig að enginn getur gegnt þessum starfa samfellt lengur en 8 ár.

5. Ráða skal leikhúsinu bókmennta- og leiklistarráðunaut, listdansstjóra og tónlistarráðunaut.

6. Miða skal við að svo margir leikarar, söngvarar og listdansarar starfi við Þjóðleikhúsið að það geti jafnan leyst af hendi þau verkefni sem því ber að sinna.

7. Lögfest sé að blandaður kór starfi við leikhúsið.

8. Leikárið verði framvegis frá 1. september til 31. ágúst, en ekki frá júlíbyrjun til júníloka eins og nú.

9. Þjóðleikhúsi og sjónvarpi er ætlað að koma á fót leikmunasafni er Leikfélag Reykjavíkur og önnur leikfélög geta gerst aðilar að, en safnið leigi búninga, leiktjöld og annan sviðsbúnað til leikfélaga.

10. Lögð er áhersla á aukið samstarf Þjóðleikhússins við leikfélög áhugamanna, t. d. með því að láta þeim í té leikstjóra og gistileikara.

11. Árlega skulu farnar leikferðir um landið á starfstíma Þjóðleikhússins.

Sumar þær breytingar, sem hér er lagt til að gerðar verði á þjóðleikhúslögunum eru þegar komnar til framkvæmda í reynd, en aðrar eru það ekki. Kosta þær að sjálfsögðu nokkra fjármuni. Það fer svo eftir því hve ört breytingarnar koma til framkvæmda og hvernig starfsemi leikhússins er hagað hvað sá kostnaðarauki verður mikill hverju sinni. Þjóðleikhús verður áreiðanlega aldrei rekið nema með allmiklum kostnaði, það vita allir, þótt gætt sé hinnar ítrustu hagsýni í rekstri. Þetta gildir auðvitað alls staðar, en verður enn tilfinnanlegra í okkar fámenna samfélagi. En þessi hefur líka orðið reyndin annars staðar, að það hefur þurft að leggja þjóðleikhúsunum fé af almannasjóði þótt áhorfendahópurinn sé stærri en hann nú er hér. Fjárveitingavaldið verður svo að vega það og meta hverju sinni hversu miklum fjármunum það vill verja til leikhússins og þá m. a. til þeirra nýjunga sem um er fjallað í þessu frv.

Til þess að spara tíma hv. þd. skal ég láta hjá líða að ræða nánar einstök atriði þessa frv., sem nokkru nemur a. m. k. Þau eru og skýrð allítarlega grein fyrir grein í meðfylgjandi aths. Mér er alveg ljóst að mörg ákvæði frv. eru þannig að um þau hljóta að vera skiptar skoðanir, t. d. hér í hv. Nd. Uppbygging þjóðleikhúsráðsins var á sínum tíma gagnrýnd hér á hv. Alþ. eins og hún lá fyrir í frv. áður. Þingmenn sem og aðrir munu þó sammála um það, að ég ætla, að æskilegt sé að hafa jafnan traust tengsl með Alþ. og þar með fjárveitingavaldinu og Þjóðleikhúsinu og svo með Þjóðleikhúsinu og fulltrúum hinna ýmsu listgreina sem það hefur tengst við eða nýtur stuðnings frá. Þetta held ég að menn séu sammála um, en að sjálfsögðu eru svo skoðanir skiptar um það með hverjum hætti þessum tengslum verði best fyrir komið. Það er auðvitað alveg eins með uppbyggingu framkvæmdastjórnarinnar sem gert er ráð fyrir í frv. að setja. Það eru allir sammála um að þeir, sem við Þjóðleikhúsið vinna, skuli hafa þar sterk ítök, en álitamál getur þó verið með hverjum hætti aðild þeirra er fyrir komið. Nýlega hefur verið breytt uppbyggingu félaga þess fólks sem við Þjóðleikhúsið vinnur, og má vel vera að sú breyt. hafi það í för með sér að nauðsynlegt þyki að breyta ákvæðum 8. gr. frv. til samræmis við hana eða sem afleiðing af henni.

Án þess að ég ætli nokkuð að fara að segja hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, eða hv. þd. yfirleitt fyrir verkum, þá vil ég láta koma fram að ég tel sérstaklega æskilegt að Alþ. ígrundi vel ákvæði frv. um fast starfsfólk Þjóðleikhússins. Ég held nú að tæplega sé þar of í lagt, þ. e. a. s. í frv., en þó frekar að það kynni að vera þörf á að auka þar við. Að sjálfsögðu verðum við að leitast við að gæta fyllstu varúðar gagnvart allri slíkri útfærslu, ekki síst á erfiðleikatímum eins og nú

Í frv. er gert ráð fyrir að þjóðleikhússtjóri og fleiri fastir starfsmenn skuli aðeins ráðnir til 4 ára. Þetta atriði er vissulega nokkurt nýmæli að því er kemur til ráðningar opinberra starfsmanna, og. þarf að gefa því sérstakar gætur hversu mörkuð skuli staða og kjör þeirra manna sem þannig eru ráðnir með öðrum hætti en algengast er að skipa, setja eða ráða opinbera starfsmenn.

Það er að sjálfsögðu ekki ætlun mín að þetta frv., svo umfangsmikið sem það er, verði afgr. á þeim tiltölulega fáu vikum sem væntanlega eru eftir af starfstíma þessa þings. Hitt held ég væri til mikilla bóta, ef frv. næði að komast til nefndar, ef hv. n. gerði nokkrar ráðstafanir til að afla t. d. umsagna og á annan hátt að greiða fyrir afgreiðslu málsins á haustþinginu.

Ég vil láta koma fram hér að ég mun kappkosta að leggja þetta frv. fyrir þegar í byrjun næsta þings, þ. e. í haust, með það fyrir augum að takast mætti þá að afgr. málið fyrir lok þessa árs. Mér finnst það færi vel á því að Þjóðleikhúsið fengi frá Alþingi íslendinga nýja löggjöf í afmælisgjöf eftir 25 ára giftudrjúgt starf.

Ég legg svo til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn.