30.04.1975
Neðri deild: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3476 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

221. mál, Þjóðleikhús

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Það var öldungis rétt sem fram kom í ræðu hæstv. menntmrh, að gildandi lög um Þjóðleikhúsið eru mjög komin til ára sinna og þarfnast endurskoðunar — hafa raunar þarfnast endurskoðunar um mörg undanfarin ár. Svo vill til að ég átti sæti í þeirri nefnd sem samdi núgildandi þjóðleikhúslög á sínum tíma. Þau voru sett á stjórnarárum .stjórnar Stefáns Jóh. Stefánssonar þegar Eysteinn Jónsson gegndi embætti menntmrh. Þrír menn voru skipaðir til þess að semja fyrstu lögin um Þjóðleikhús Íslands nokkrum árum áður en það tók til starfa. Þeir voru Guðlaugur Rósinkranz sem síðar varð þjóðleikhússtjóri, Hörður Bjarnason sem frá upphafi hefur verið og er enn varaform. í þjóðleikhúsmáði og ég. Svo vildi til að um það bil 10 árum síðar tók ég við forstöðu menntmrn. og hafði hana á hendi í 15 ár. Á fyrstu árunum orðaði það enginn að nauðsynlegt væri að endurskoða þessi lög sem þá voru 10–15 ára gömul, en þegar lengra leið fóru að heyrast raddir um að æskilegt væri að endurskoða lög sem þessi, þau bæri að endurskoða ekki sjaldnar en á 10–15 ára fresti, allra lengst mættu þau verða 20 ára gömul, og hefur það sjónarmið vissulega ýmislegt til síns máls. Ég hreyfði því hvað eftir annað í þeim ríkisstj. sem ég átti sæti í á árunum 1956–1970, hvort ekki væri eðlilegt að endurskoða þjóðleikhúslögin, og ræddi það einnig við stjórn Þjóðleikhússins, en ávallt kom í ljós að mönnum, bæði í ríkisstj. og þeim þingfl. sem hana studdu og innan stjórnar Þjóðleikhússins, sýndist nokkuð sitt hverjum um ýmis veigamikil efnisatriði í gildandi lögum um Þjóðleikhúsið sem nú eru orðin næstum 30 ára gömul eins og hæstv. menntmrh. tók fram.

Það voru fyrst og fremst lagaákvæði um stjórn hússins, þ. e. skipun þjóðleikhúsráðs, sem mönnum sýndist sitt hverjum um, stjórnmálamönnum í ríkisstj., mönnum í stjórn Þjóðleikhússins og meðal starfsmanna, sérstaklega leikarar Þjóðleikhússins, sem auðvitað létu málið að verulegu leyti til sín taka. Það voru sérstaklega tvö sjónarmið sem tókust á: Annars vegar að úrslitavald um fjármál leikhússins sérstaklega og raunar alla yfirstjórn þess yrði að vera í nánum tengslum við löggjafarsamkomuna, yrði að vera í nánum tengslum við stjórnmálavaldið á Alþ. Hins vegar var hitt sjónarmiðið, að listræn stofnun eins og Þjóðleikhúsið ætti að vera í höndum starfandi listamanna og eingöngu listræn sjónarmið að hafa nokkuð að segja við stjórn hússins, bæði fjármálastjórn þess og stefnu þess og þá ekki síst stefnu þess í listrænum efnum. Raunar er þessi ágreiningur ekkert einsdæmi varðandi Þjóðleikhúsið. Hann hefur mjög borið á góma varðandi stjórn Ríkisútvarpsins og hann bar á góma varðandi setningu nýrra útvarpslaga sem sett voru á síðustu stjórnarárum næstsíðustu ríkisstj. eða á stjórnarárum Bjarna Benediktssonar.

Vegna þessa grundvallarágreinings, sem uppi var meðal stjórnmálamanna og meðal stjórnenda leikhússins og starfsmanna þess, þó að ég sjálfur hefði ákveðnar skoðanir á málinu og vildi fá því framgengt að ný þjóðleikhúslög yrðu sett, þá varð ekki úr því að efnt væri til endurskoðunar á lögunum fyrr en á síðasta stjórnarári Bjarna Benediktssonar eða meðan á þingi stóð 1969–1970. Þá varð um það samkomulag í ríkisstj. og ég hafði einnig um það samkomulag við stjórn Þjóðleikhússins að skipa nefnd til þess að semja frv. að nýjum þjóðleikhúslögum. Ég taldi rétt, að sú nefnd yrði skipuð þannig, og skipaði hana þannig að form. nefndarinnar var ráðuneytisstjórinn í menntmrn. sem ég gerði ráð fyrir að túlkaði þær skoðanir sem ríkjandi væru í þáv. ríkisstj. Ég skipaði einnig í nefndina Baldvin Tryggvason sem þá var form. stjórnar leikfélags Reykjavíkur og taldi eðlilegt að einnig væri tekið tillit til reynslu Leikfélags Reykjavíkur á þessu sviði. Ráðuneytisstjóri menntmrn. var að sjálfsögðu nákunnugur öllum högum Þjóðleikhússins sem ríkisstofnunar, en Leikfélag Reykjavíkur er frjáls samtök listamanna á þessu sviði og þótti eðlilegt að reynsla formanns stjórnar þess kæmi hér til athugunar. Sem þriðja mann í nefndinni fékk til þess að starfa Þórð Eyjólfsson fyrrv. hæstaréttardómara, sem ég raunar hafði til siðs að biðja um að taka þátt í störfum helstu nefnda sem þurftu að semja vandasöm, frv. frá lögfræðilegu sjónarmiði séð til þess að tryggja að vel og skynsamlega yrði gengið frá málum hvað það snerti.

Þessi nefnd lauk störfum tæplega ári síðar og samdi það frv. sem hér er nú enn fyrir Alþ. 4–5 árum síðar í næstum óbreyttri mynd. Ég lagði það fram á síðasta árinu sem ég gegndi störfum menntmrh., vorið 1971. Ég gat ekki ætlast til þess að málið yrði afgreitt á því þingi sem var mikið annaþing fyrir kosningar sem áttu að fara fram um sumarið. Það var flutt aftur á næsta þingi eftir að stjórnarskipti höfðu orðið, en dagaði uppi á þingi, í raun og veru fyrst og fremst vegna þess grundvallarágreinings sem ég hafði gert mér ljósan öll þau ár sem ég hafði beitt mér fyrir því að reynt yrði að setja ný lög um þjóðleikhúsið.

Þetta ásamt. öðrum atriðum hirði ég ekki um að rekja frekar en hæstv. menntmrh. gerði í ræðu sinni. Það sem hann sagði um efnisatriði málsins, var að sjálfsögðu allt saman satt og rétt og skýrði málið alveg fullkomlega. Hann benti einnig á að það, sem menn hefði fyrst og fremst greint á um, væri það atriði hvernig yfirstjórn leikhússins skyldi háttað og tengslum þess við löggjafarsamkomu þjóðarinnar, þ. e. við fjárveitingavaldið. Það gladdi mig að heyra að hann er þeirrar skoðunar að stofnun eins og Þjóðleikhúsinu sé nauðsynlegt að náin tengsl séu milli fjárveitingavalds, þ. e. löggjafarsamkomunnar, þess þáttar ríkisvaldsins sem fer með fjárveitingavaldið annars vegar og mikilvægrar menningarstofnunar eins og Þjóðleikhússins sem hlýtur og á rétt á því að fá verulegan fjárstuðning af opinberri hálfu. Þetta þarf ekki að jafngilda því að ekki sé tekið fullt tillit til listrænna sjónarmiða þeirra sem starfa við leikhúsið og þeirra sem það flytur verk eftir og allra annarra sem eðlilegra listrænna hagsmuna eiga að gæta í þessu sambandi.

Það er vandi að finna þessu samstarfi fjárveitingavaldsins og þeirra, sem eru fulltrúar listarinnar, eðlilegt og skynsamlegt form. En ég veitti því athygli að hæstv. ráðh. lýsti því yfir að hann væri fylgjandi nánum tengslum fjárveitingavaldsins og listrænnar stofnunar af því tagi sem Þjóðleikhúsið er. Þetta var alla tíð skoðun mín og er enn. Það er álit mitt að frv. í þeirri mynd, sem það fyrst var lagt fram vorið 1971, og í .þeirri mynd, sem það hefur nú, þó að því hafi verið breytt í ýmsum smávægilegum atriðum, tryggi eðlilegt samband fjárveitingavalds og þeirra listrænu sjónarmiða sem sjálfsagt er að taka tillit til. Ég fyrir mitt leyti er því fylgismaður þess að þetta frv. nái sem allra fyrst fram að ganga — og það þarf raunar engan að undra vegna þess að ég var sá sem flutti það í upphafi — en nú tel ég nóg komið af drætti á afgreiðslu málsins. Helst hefði ég kosið að frv. yrði afgr. á þessu þingi — það er alllangt síðan það var lagt fram — þannig að það gæti orðið afgr. á því þingi þegar Þjóðleikhúsið hefur haldið upp á aldarfjórðungsafmæli eitt. Hæstv. ráðh. virðist gera ráð fyrir því að varla yrði tími til þess að afgr. það á þessu þingi og þá verður að hafa það. Ég læt mér nægja yfirlýsingu hans um að hann mundi leggja það fram þegar í upphafi næsta þings og þá beita sér af alvöru fyrir því að það verði afgreitt á því þingi. En meginástæðan til, að mér þótti rétt rekja þessa sögu í nokkrum atriðum, er sú að fá tækifæri til að lýsa fylgi við meginefni frv., eins og það nú liggur fyrir, og láta í ljós mjög eindregna ósk um að frv. hljóti sem fyrst afgreiðslu á hinu háa Alþ.