30.04.1975
Neðri deild: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3483 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

133. mál, fjarskipti

Frsm. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Heilbr.og trn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar frv. til 1. um breyt. á l. nr. 30 frá 1941, um fjarskipti. Frv. er stutt, aðeins ein efnisgr. sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Aftan við 12. gr. laganna bætist:

Í reglugerð má ákveða að þeir, sem hljóta uppbót á elli- og örorkulífeyri samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar frá 1971, verði undanþegnir afnotagjöldum fyrir síma.“

Eins og greinin ber með sér, gengur hún út á það að Alþ. veiti ráðh. heimild til að undanþiggja þá elli- og örorkulífeyrisþega, sem hljóta uppbót á lífeyri samkv. 19. gr. laga um almannatryggingar, afnotagjöldum fyrir síma. Ég hygg að um það ríki enginn ágreiningur að æskilegt sé og oft á tíðum nauðsynlegt að þetta fólk, sem er orðið gamalt eða býr við einhver þau örkuml sem gerir það æskilegt og stundum nauðsynlegt að það hafi afnot af síma, að það þurfi ekki að vera án hans af fjárhagsástæðum. Eins og mál þessi standa í dag þá hefur Öryrkjabandalagið heimild til þess að undanþiggja 50 öryrkja afnotagjaldi af síma, en að sjálfsögðu er sá hópur mjög takmarkaður og þeir, sem til þekkja, telja að þarna sé svið sem þyrfti að bæta úr.

Þetta frv. á sér að nokkru leyti hliðstæðu í gildandi útvarpslögum frá 1971 því að í þeim er heimild til ráðh. til þess að undanþiggja elli- og örorkulífeyrisþega afnotagjaldi af útvarpi. Sá hluti n., sem stendur að nál. á þskj. 488, telur eðlilegt að svipuð heimild sé til ráðh. til að undanþiggja ellilífeyrisþega og öryrkja afnotagjöldum fyrir síma.