26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

303. mál, vistunarrými fyrir langlegusjúklinga

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 41 hef ég leyft mér að bera fram svofellda fyrirspurn til hæstv. heilbrrh.:

„1. Hve mörg sjúkrarúm vantar til að fullnægja þörf langlegusjúklinga?

— 2. Má vænta úrbóta á næstunni?“

Öllum er kunnugt hve geysilegur skortur er á sjúkrarými fyrir langlegusjúklinga. Þetta hefur verið mörg undanfarin ár margrætt og margir læknar telja það há starfsemi sinni mjög hve erfitt er að vista þetta fólk. Milli 60 og 70% af þessu fólki eru 67 ára eða eldri og þetta fellur því saman við þau vandkvæði sem eru yfirleitt á því að koma öldruðu fólki fyrir. En fleira kemur til. Allmargir af langlegusjúklingum eru svonefndir heilarýrnunarsjúklingar sem geta verið á öllum aldri. Þetta fólk hefur í raun og veru hvergi skjól hér og mjög erfitt að vista það. Ýmist dvelur það tímabundið í stofnunum sem gjarnan vilja losna við það aftur, eða þá að það dvelur í heimahúsum við algerlega ófullnægjandi skilyrði.

Á undanförnum árum hefur þetta verið margrætt, en litlar úrbætur komið. Það er talið að okkur vanti nokkur hundruð, a.m.k. á annað hundrað, rými fyrir langlegusjúklinga og ég sé ekki fram á að úr þessu verði bætt nema með stærri aðgerðum.

Undanfarin ár hefur verið í undirbúningi stærsta átakið í þessum efnum, sem er bygging B-álmu Borgarsjúkrahússins, en það mál virðist standa fast og því vil ég nú spyrja hæstv. heilbrrh. í fyrsta lagi hvað vanti af plássum fyrir langlegusjúklinga og í öðru lagi hvaða úrbóta megi vænta.