02.05.1975
Neðri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3488 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Frsm. (Stefán Valgeirsson) :

Virðulegi forseti. Þetta frv. var lagt fram á síðasta þingi að beiðni Búnaðarfélags Íslands. Ég held að það hafi verið 1972 sem það kom fram till. á Búnaðarþingi, og hún var samþykkt samhljóða, um að leita eftir því að Alþ. samþ. heimildarl. um að það yrði leyfður innflutningur og eldi sauðnauta. Í fyrra, þegar þetta mál var hjá landbn., óskaði hún umsagnar frá yfirdýralækni um þetta frv., og með leyfi forseta vil ég lesa þetta bréf upp vegna þess að hæstv. landbrh. óskaði þess. Bréfið er dags. 30. mars 1974:

„Ég hefi móttekið bréf, dags. 27. þ. m., varðandi frv. um innflutning og eldi sauðnauta sem lagt hefur verið fram á Alþ. Vegna þess að þér óskið eftir umsögn minni um þetta mál skal ég taka fram eftirfarandi:

Tvisvar sinnum hefur ræktun sauðnauta verið reynd hér á landi.

Í lok ágúst 1929 komu hingað til lands 7 kálfar sem sóttir voru til Austur-Grænlands með svonefndum Gottuleiðangri. 6 af þessum dýrum drápust þegar um haustið og taldi Hannes Jónsson dýralæknir að þau hefðu farið úr bráðapest. Sum voru þó veik allt að 10 dögum áður en þau drápust. Kvígan, sem eftir lifði, var bólusett, en drapst að áliðnum næsta vetri“ — þ. e. a. s. 1930–1931 — „úr sullaveiki.

2 nóv. 1930 keypti ríkisstj. 6 sauðnautskálfa frá Noregi. Um leið voru keyptir 2 kálfar, kvíga og tarfur, af einstaklingum. Kálfar ríkisstj. voru geymdir að Gunnarsholti, þrifust vel um veturinn, lágu við opið, en vorið 1931 voru kálfarnir að drepast og drápust allir um sumarið, sá síðasti í okt. Kálfarnir tveir, sem einstaklingar keyptu voru hafðir á Litlu-Drageyri í Skorradal. Þrifust þeir vel. En tarfurinn fórst af slysförum, féll niður um fönn í gili, lenti á svelli og varð ekki bjargað þó að hann kæmist að lokum til bæja og undir manna hendur. Kvígan var um vorið 1931 flutt austur að Gunnarsholti og hlaut þar sömu örlög og félagar hennar.

Til eru krufningarskýrslur um tvo af þessum norsku sauðnautakálfum, en líffæri voru send til Rannsóknarstofu háskólans. Kálfarnir voru glithoraðir enda þótt þeir hefðu haft hið besta haglendi. Ekki var kveðið á með vissu um dauðaorsök kálfanna, en af krufningarlýsingu tel ég sennilegt að um ormaveiki hafi verið að ræða frekar en vannæringu. Ormagreining mun þó ekki hafa verið gerð. Ekki verður vanrækslu eða hirðuleysi kennt um þessi hörmulegu endalok sauðnautanna því að það mun samdóma álit allra að búið hafi verið eins vel að kálfunum og menn höfðu vit á.

Síðan þetta var hefur áhugi manna aukist nokkuð á sauðnautum og sjúkdómar þeirra nokkuð kannaðir. Vitað er að í sauðnautum finnast lungnaormar og sú tegund leggst einkum á nautgripi og er óþekkt hér á landi. Þá hafa netjusullir og ígulsullir fundist í sauðnautum, en ígulsullurinn, sem veldur sullaveiki í mönnum og jórturdýrum, er nú horfinn að kalla hér á landi eftir langa og stranga baráttu. Þá hefur verið greint frá ýmsum þráðormategundum í sauðnautum sem munu ekki þekktar hér á landi. Fleiri tegundir hafa fundist og vafalaust leynast fleiri ormategundir í sauðnautum í heimkynnum þeirra því að enn er það mjög lítið kannað.

Rétt er að vekja athygli á því að ef t. d. lungnaormurinn næði fótfestu í nautpeningi, sem gengi í sama haglendi og sauðnaut, væri útrýming ormanna óframkvæmanleg. Það má benda á að sauðnaut virðast mjög viðkvæm fyrir ýmsum iðraormum, sem hrjá sauðfé og nautgripi víða um lönd, þegar nautin vegna innflutnings, komast í kynni við þá. Hefur nokkuð borið á þessu í Alaska og Noregi þó að eigi sé mikið um það rætt, og hér á landi hafa iðraormar sennilega orðið sauðnautunum að aldurtila. Ókunnugt er hvaða sýkla- og veirusjúkdómar herja á sauðnaut. Próf gegn smitandi kálfaláti og berklum, sem gerð hafa verið, reyndust neikvæð.

Reynsla hér á landi og annars staðar sýnir að mjög ríður á því að sjúkdómar, sem fyrir eru í landinu, verði sauðnautum, sem inn eru flutt, ekki að fjörtjóni. Með einangrun dýranna um langan tíma og lyfjagjöf má e. t. v. draga allverulega úr þessari hættu, en hvergi nærri girða fyrir hana að fullu og öllu. Yfirleitt mun það skoðun þeirra, sem best þekkja til sauðnauta, að þau þrífist best í köldu og þurrviðrasömu loftslagi.

Um notagildi sauðnauta eru fyrir hendi mjög takmarkaðar upplýsingar og eru sumar þeirra nokkuð skrumkenndar. Ýmsir telja að sauðfé og sauðnaut megi ekki hafa saman í högum. Ekki er því að neita að sauðnaut voru augnayndi hér á landi, en ég óttast að sjúkdómar kunni að verða þeim að bráð nú sem fyrr, loftslag hér á landi sé óheppilegt fyrir þau og e. t. v. geti borist með sauðnautunum sníkjudýr sem valdið gætu þungum búsifjum næðu þau fótfestu hér b landi.

Virðingarfyllst.

Páll A. Pálsson.“

Landbn. athugaði þetta frv., og eins og segir í 1. gr. er landbrh. heimilt að veita Búnaðarfélagi Íslands leyfi til að flytja sauðnaut til landsins með þeim skilyrðum sem sett eru í lögum þessum. Og í 4. gr. segir: „Áður en Búnaðarfélag Íslands hefst handa um innflutning skal það hafa aflað samþykkis yfirdýralæknis sem setur reglur um allt það sem lýtur að sóttvörnum og heilbrigðiseftirliti með dýrunum eftir að ræktun þeirra er hafin hér á landi.“

Við áttum þess kost að lesa bréf, sem eru bæði frá Noregi og Alaska, um reynslu þar af þessum dýrum. Það voru fyrir einum fimm eða sex árum flutt 26 dýr til Norður-Noregs og eru þar á búi og hefur eitt þeirra drepist af slysförum, það fótbrotnaði. Að öðru leyti hefur þessi reynsla þeirra þarna gefið mjög góða raun. Þá var annar hópur fluttur til Noregs og þeim var sleppt í Dofrafjöll og þau virðast dafna þar mjög vel. Það hafa verið sett upp á undanförnum árum bú bæði í Alaska og Kanada, og það hefur líka gefið góða raun, a. m. k. segja það þau bréf sem ég hef fengið að sjá frá mönnum þar vestra. Búnaðarfélagið og búnaðarþing hafa lagt áherslu á að þessi heimildarlög væru samþ. Þetta er í höndum ráðh. og yfirdýralæknis, og ég sé ekki að það sé nokkur hætta á því að þessir menn muni ekki afla sér allra upplýsinga ef menn að athuguðu máli vildu fara í innflutning þessara dýra. Það er bara heimild sem ráðh. er gefin með þessari lagasetningu ef þetta frv. verður að lögum, og það verður ekkert gert öðruvísi en yfirdýralæknir samþ. það. Þess vegna tel ég að það sé allt í lagi þó að þetta frv. verði samþ.