02.05.1975
Neðri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3490 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Norðurl. e. fyrir að lesa grg. yfirdýralæknis í þessu máli, hún var nokkuð í þeim anda, sem ég gerði ráð fyrir. Nú skal ég ekki fara út í þá slysasögu, sem þar er greint frá, en á hinu vil ég vekja athygli, að fyrir nokkrum árum var samþ. hér á hv. Alþ. frv. að l. um að koma hér upp eldisstöð fyrir holdanaut. Til þess að það megi gera er eingöngu ætlast til að flutt sé inn djúpfryst sæði, en til að fá það leyfi yfirvalda í heilbrigðismálum á sviði búfjársjúkdóma varð að setja upp sérstaka einangrunarstöð. Það verður með þó nokkrum kostnaði að koma henni upp og það verður að nota þetta sæði frá stöðinni í nokkur ár áður en nokkuð af þeim afkvæmum, sem þar fæðast og alast upp, má fara út úr einangrunarstöðinni. Það er verið að koma þessari stöð upp í Hrísey.

Það hefur verið rætt við mig um að hugsanlegt væri að þessi sauðnaut færu á Flatey á Skjálfanda. Hér á að flytja inn lifandi dýr, en í hinu tilfellinu aðeins djúpfryst sæði. Þau mega ganga frjáls þarna, það er engin sérstök einangrun og í þessu frv. er gert ráð fyrir því að það megi síðan dreifa þeim um landið eftir ákveðinn tíma, en auðvitað með samþykki yfirdýralæknis og ráðh. En ég fæ ekki skilið samhengið í því hjá löggjafanum ef hann samþ. þetta frv. þar sem flutt eru inn lifandi dýr úr öðrum löndum og það má síðan dreifa þeim um landið án takmarkana, en í hinu tilfellinu er flutt inn djúpfryst sæði sem verður að vera í mörg ár í einangrunarstöð og kosta ærnu til að mega síðar nota þetta hér á landi.

Mér finnst að hér sé um svo mikið ósamræmi að ræða að það sé óhugsandi að Alþ. geti afgr. þetta sem lög. Hver ráðh. sem með þetta mál færi, yrði að líta á þetta sem yfirlýsingu Alþ. um að þetta væri framkvæmanlegt, að öðrum kosti væri Alþ. ekki að gefa ráðh. og yfirdýralækni þessa heimild.

Ég vil taka það skýrt fram að ég tel með öllu óhugsandi að leggja í slíkan kostnað sem er verið að leggja í í sambandi við holdanautastöðina í Hrísey, en samþ. svo frv. sem þetta. Jafnvel þó að það hafi verið samþ. af Búnaðarfélagi Íslands og ég hafi sem landbrh. fylgt þeirri stefnu að vera í takt við Búnaðarfélag Íslands með mínar ákvarðanir, þá get ég það ekki í þessu máli og mun greiða atkv. gegn því og ég vara hv. d. við því að afgr. þetta frv. með þeim hætti sem hér er lagt til á sama tíma og stofnað er til þess kostnaðar sem gert er í hinu tilfellinu.

Þetta vildi ég segja hér áður en þetta mál fer til atkv. hér í hv. deild.