02.05.1975
Neðri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3491 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það, sem landbn. gerði í þessu máli, var einungis að fara eftir ósk stjórnar Búnaðarfélags Íslands, og stjórn Búnaðarfélags Íslands skrifaði landbn. vegna þess að Búnaðarþing hafði samþ. þessa till. shlj. á Búnaðarþingi 1972.

Í sambandi við nautastöðina í Hrísey og þetta mál er þar ólíku saman að jafna. Það er verið að flytja þarna dýr sem ganga úti og þarf minna um þau að hugsa. Það getur vel verið að þau þyrftu að hafa einhvers staðar skjól, t. d. ef þau væru sett í Flatey eða Grímsey eins og sumum mun hafa dottið í hug. En þarna er alveg ólíku saman að jafna og er ég raunar dálítið hissa á hæstv. ráðh. að líkja þessu tvennu saman. En ég vil bara endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að þetta eru heimildarlög og ég geri ráð fyrir því að allir hv. þm., sem þekkja Pál Agnar Pálsson, viti að hann muni ekki gefa leyfi nema hann telji að það sé óhætt að veita slík leyfi (Gripið fram í.) Það stendur í 4. gr. að það sé ekki hægt að flytja þessi dýr inn öðruvísi en að það liggi leyfi frá yfirdýralækni. Það er skýrt tekið fram. Meira að segja ráðh., þó að hann vildi það, mundi ekki geta gefið slíkt leyfi eftir lögunum nema leyfi yfirdýralæknis lægi fyrir. Og mér finnst að það væri hörmuleg niðurstaða með þetta frv., þar sem liggja fyrir óskir frá Búnaðarþingi þar sem búið er að samþ. það og þetta er frv. sem þeir hafa sent og við flytjum fyrir þá, ef ráðh. yrði svo til þess að fella þetta frv.