02.05.1975
Neðri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3492 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er vegna þess að hæstv. landbrh. varaði hv. d. við því að samþ. þetta frv. að ég stend upp. Ég hef á þskj. 467 mælt með því að frv. verði samþ. og vegna þess að hæstv. ráðh. varar hv. Alþ. við því að fara að ráðum mínum og annarra sem hafa skrifað undir þetta nál., þá kemst ég ekki hjá að taka til máls og gera grein fyrir því hvers vegna ég skrifaði undir þetta nál.

Það er náttúrlega gott að hæstv. ráðh. vill vara hv. Alþ. við hættum og allt skyldum við varast sem getur reynst hættulegt. En mér finnst hæstv. ráðh. taka sér nokkuð stór orð í munn þegar hann vill vara þingheim við því að samþ. heimildarlög hæstv. ráðh. til handa. Hvaða hætta getur falist í því? Og hæstv. ráðh. var svo óheppinn áðan að vitna í lög, sem hafa verið í gildi í mörg ár, frá 1963, heimildarlög til þess að flytja inn holdanaut, en það mátti ekki gera nema að fengnu samþykki yfirdýralæknis og forstöðumanns tilraunastöðvarinnar á Keldum. Af því að þessir ágætu menn vildu ekki mæla með innflutningi, gat landbrh. vitanlega ekki gert nokkrar ráðstafanir til innflutnings á holdanautum. Hér er aðeins um heimild að ræða.

Ég skal ekkert fullyrða um hvort sauðnautin gætu orðið okkur til hagsbóta ef við flytjum þau inn, en ég vil benda á það að þótt innflutningur hafi misheppnast hér á árunum, þá þyrfti hann ekki að gera það aftur. Nú eru dýralæknar fleiri og nú eru ýmis lyf þekkt, sem menn höfðu þá ekki ráð á, til þess að koma í veg fyrir ýmsa dýrasjúkdóma. T. d. mætti það teljast nokkuð öruggt, að ormaveiki yrði ekki þessum dýrum að bana eins og talið er að áður hafi verið. Og bólusetningar fara nú fram við ýmsum kvillum. Mér finnst að það gæti verið dálítið hættulegt fyrir þjóðina ef alþm. færu að verða lokaðir og segja: ja, vegna þess að þetta var nú svona einu sinni, þá skal það ekki reynt, aftur. Ég held að með vísindunum, sem alltaf fleygir fram, gæti vel verið að það mætti hafa dýrin hér heilbrigð, og spurningin er hvort við getum gert annað betra við ýmis landssvæði hér en að hafa sauðnaut þar, t. d. nokkur svæði á Vestfjörðum og kannske víðar. Víst er það að ullin af sauðnautunum er verðmæt, hún er mjög verðmæt. Enginn af þeim, sem skrifuðu undir nál. á þskj. 467, ætlast til að það verði flanað að neinu þó að þetta frv. verði samþ. Við hv. þm., sem skrifuðum undir þetta nál., Stefán Valgeimsson, Friðjón Þórðarson með fyrirvara, Pálmi Jónsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Ingólfur Jónsson, eigum allir sammerkt að við viljum fara varlega í þessu efni. Og við erum ekkert að mæla með því að það verði farið að ráðast í mikinn kostnað nú þegar þótt þetta frv. verði samþ. Það er á valdi Alþ. hvort það vill ráðast í kostnað sem innflutningi fylgir. Það er ekki hægt fyrir ráðh. að sjá um innflutning á þessu þótt hann fengi meðmæli yfirdýralæknis, Búnaðarfélagsins og Náttúruverndarráðs nema samþykki Alþ. komi til að greiða þann kostnað sem af innflutningnum leiðir.

Ég veit að ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég veit að hv. þm. vita að það stafar engin hætta af því að samþ. þetta frv. Og ég vil vara hæstv, ráðh. við því að nota það orðbragð hér í hv. Alþ. eins og hann sé að tala við einhverja viðvaninga eða óvita. Hv. alþm. vita alveg hvað í þessu frv. stendur. Þeir gera sér fyllilega grein fyrir því hvað af því leiðir að samþ. þetta frv. Og við, sem styðjum núv. hæstv. ríkisstj., berum ekki það vantraust til núv. hæstv. ráðh. að hann fari ekki með gát að öllu. Ég ber fyllsta traust til yfirdýralæknis. (Gripið fram í.) Ég geri það. Ef hann mælir ekki með innflutningi dýranna verða lögin ekki framkvæmd.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri.