02.05.1975
Neðri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3494 í B-deild Alþingistíðinda. (2619)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Ég var víst annar af tveim dm. sem greiddu mótatkv. í þessu máli þegar það var hér til 2. umr. og það gerði ég ekki síst með tilliti til vitneskju minnar um þá umsögn yfirdýralæknis sem hér var lesin. Mergur þessa máls er auðvitað sá hvort íslendingar hafa eitthvað lært af þeirri reynslu sem þeir urðu fyrir á liðnum áratugum af innflutningi búpenings erlendis frá sem engin leið var að varna að flytti með sér sjúkdóma sem hér ganga eins og logi yfir akur og höfðu nær eytt heilar sveitir eða landshluta og kostaði offjár að halda í skefjum eða vinna bug á. Það gegnir furðu að mínum dómi að með þessa reynslu í huga skuli það vera mjög auðsótt fyrir einhverja áhugamenn að koma því fram á Búnaðarþingi að stofnað sé til dýrainnflutnings sem leiða má að sterkar líkur að leiði yfir sama háska og fylgdi á sínum tíma karakúlfénu.

Lögin um innflutning holdanautasæðis voru þannig úr garði gerð að þar var fyllsta öryggis gætt og tekið fyllsta tillit til hinnar dýrkeyptu reynslu af karakúlhrútunum. En þegar svo er komist að orði hér úr ræðustól í hv. d., eins og hv. 1. þm. Sunnl. gerði, að spurning sé hvort nokkuð annað betra sé við að gera landshluta eins og t. a. m. Vestfirði en að leggja þá undir sauðnaut, þá fæ ég ekki orða bundist.

Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur kynnt sér sumt af því prentaða máli sem í grg. fylgir þessu frv. Þar er t. d. gert ráð fyrir því að sauðnaut, sem komin séu segjum á Vestfirði, þurfi ekki aldeilis mikla smölun, það sé auðvelt að líta eftir dýrunum úr lofti, og þá líklega frekar úr loftbelgjum en vélknúnum flugförum. Ef á það ber að líta að alls konar norræn dýr geti þrifist á Íslandi, þá eru mörg önnur til en sauðnaut. Það eru til hreysikettir, það eru til gaupur, en ég veit ekki hvort bændur yrðu hrifnir af því að fá þessa dýrastofna inn í landið, kannske veiðimenn yrðu það og skinnaframleiðendur. Það er til elgur vestur í Kanada og karibúhreindýr. Þetta kvikfé gæti vafalaust þrifist hér og það eru af því nytjar þar sem það á sín náttúrulegu heimkynni. En það eru engu meiri rök fyrir því að flytja inn sauðnautin heldur en þessi önnur klaufdýr, sem ég nefndi hér, jafnvel enn meiri rök á móti sauðnautunum því að þau eru mannygasta skepna sem lifir í norðlægum löndum, drepa fleiri eða færri grænlendinga á hverju ári. Nytjarnar af þessu eru ekki stórmerkilegar. Það er talið að fullvaxið sauðnaut gefi af sér 1 kg. af hári sem verður að safna saman úti um hagann sem hagalögðum, og þá máske úr loftbelgjum þeim sem á að nota til smalamennskunnar.

Það stendur í grg. að margir einstaklingar hafi brennandi áhuga á þessu máli. Hvenær hefur það verið ástæða fyrir Búnaðarþing, svo að ekki sé nefnt Alþ.,samþ. eitthvert mál vegna þess að einhverjir menn gangs með grillur og fá brennandi áhuga á einhverri vitleysu? Hvað verður það annað kallað að fá brennandi áhuga á því að fara að tína hagalagða á Vestfjörðum, og þessir hagalagðar eru ekki stórir, því að ekki er það mikið birkikjarr á Vestfjörðum að ullin geti loðað þar í svona hálfum og heilum reifum. Eða hafa þessir menn kannske áhuga á aðgerðum sem geta stuðlað að því að hér komi þau sníkjudýr sem yfirdýralæknir nefnir í sínu bréfi? Hafa þeir virkilega áhuga á því að fá hingað fleiri lungnaormategundir en þegar hafast við í búfé okkar eða ígulsulli og nokkrar tegundir af þráðormum?