26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

303. mál, vistunarrými fyrir langlegusjúklinga

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þarfir þjóðfélaga fyrir heilbrigðisstofnanir af ýmsu tagi hafa verið mjög á dagskrá síðustu áratugi. Þær þjóðir, sem lengst eru komnar í áætlanagerðum, hafa gefið þessum málum mjög mikinn gaum og reynt að gera sér grein fyrir þörfum hinna ýmsu sjúkrastofnana og gert spár um framtíðina. Reynslan hefur sýnt að enn hafa ekki fundist fullkomnar leiðir til að meta þessar þarfir og kemur þar fjöldamargt til, svo sem mismunandi kröfur neytenda, mismunandi aldursskipting þjóðanna, mismunandi þjóðfélagsleg þjónusta við aldraða og fatlaða, svo sem heimilishjálp, hjúkrunardagheimili o.s.frv.

Í lögum nr. 56/1973, um heilbrigðisþjónustu, segir í 26. gr., 4. lið: „Hjúkrunar- og endurhæfingarheimili er vistheimili fyrir sjúklinga sem búið er að sjúkdómsgreina, en þarfnast meðferðar sem hægt er að veita utan almennra og sérhæfðra sjúkrahúsa.“ Í 26. gr. 3. segir: „Almennt sjúkrahús er sjúkrahús sem ekki hefur sérdeildir, en hefur á að skipa sérfræðingum eða almennum læknum og tekur við sjúklingum til rannsóknar og meðferðar, en hefur einnig aðstöðu til vistunar langlegusjúklinga.“

Í skýrslu, sem heilbr.- og trmrn. lét vinna og út kom á s.l. ári, er gerð áætlun um vistunarrýmisþörf heilbrigðisstofnana. Þessi skýrsla byggist ekki nema að litlu leyti á sjálfstæðum athugunum hérlendis, heldur á könnunum á því hvað aðrar þjóðir telja sig þurfa og geta gert í þessu og næsta áratug. Skv. þessari skýrslu er áætlað að á hverja 100 000 íbúa þurfi 350 legurými í almennum hjúkrunarheimilum og 30 í sérstökum endurhæfingardeildum, eða samtals 380 vistrými á hverja 100 000 íbúa. Miðað við um 215 000 íbúa er áætluð þörf um 817 rúm. Tiltækt vistrými skv. sömu skýrslu er: Hjúkrunardeildir: Grund 256, Hrafnista 148, Kristnes 81, Sólvangur 114, auk þess hjúkrunar- og endurhæfingardeild Borgarspítalans, Grensásdeild 60, Heilsuverndarstöð 30, eða samtals 689 vistrými. Inn í fyrrgreinda tölu koma ekki rými fyrir langlegusjúklinga í sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum, sem tók til starfa í s.l. viku, með 40 rúma hjúkrunar- og endurhæfingarheimili þar. Snemma á næsta ári verða teknar í notkun 3 endurhæfingar- og hjúkrunardeildir í Hátúni 10 á vegum Landsspítalans með 70–75 rúmum. Verða þá tiltæk um 758 vistrými, en áætluð þörf, eins og fyrr greinir, er 817. Mismunurinn er því 59 vistrými.

Sagan er þó ekki öll sögð með þessu því að vitað er að á almennum sjúkrahúsum úti á landi er verulegur fjöldi hjúkrunarsjúklinga og einnig nokkuð á deildaskiptum sjúkrahúsum í Rvík og nágrenni. Enn fremur þarf að fækka nokkuð þeim rúmum sem nú eru á Grund og Hrafnistu því að þar eru þrengsli mikil og hjúkrunaraðstæður allar erfiðar. Þörfin er því meiri en þessar tölur gefa til kynna.

Á hinn bóginn leikur ekki vafi á að á hjúkrunardeildum og almennum sjúkrahúsum er nokkuð af fólki af félagslegum ástæðum sem gæti verið á dvalarheimilum eða í heimahúsum ef það nyti heimilishjálpar eða hjúkrunar þar.

Undanfarið hefur verið unnið að því að leita leiða til að kanna raunverulegar þarfir fyrir vistrými og nýtingu þess vistrýmis sem nú er tiltækt. Þessi könnun verður gerð á vegum rn. og landlæknisembættisins. Þær framkvæmdir til úrbóta, sem þegar eru fyrirhugaðar, eru þessar:

Í byggingu er viðbót við Dvalarheimili aldraðra á Akureyri, Borgarnesi og Akranesi og sjúkrahúsið í Neskaupstað. Fulllokið er hönnun á Ólafsfirði. Í hönnun eru á Dalvík, á Vopnafirði, Höfn í Hornafirði, þar sem bráðabirgðahúsnæði hefur þegar verið opnað, Blönduósi og á Ísafirði. Þá er fulllokið á vegum Reykjavíkurborgar hönnun B-álmu Borgarspítalans sem hjúkrunarheimilis, en fé hefur enn ekki verið veitt úr ríkissjóði til þeirrar framkvæmdar. Þegar allt er talið munu vera í hönnun, tilbúin til byggingar og í byggingu stofnanir fyrir um 400–450 vistmenn á hjúkrunarheimilum og dvalarheimilum fyrir aldraða. Hve hratt gengur að koma fyrirhuguðum byggingum í not fer að sjálfsögðu eftir ákvörðun Alþ. um fjárveitingar og getu sveitarfélaga, einkum þar sem um er að ræða byggingar dvalarheimilis aldraðra.