02.05.1975
Neðri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3497 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Magnús T. Ólafsson:

Herra forseti. Það er ekki rétt hjá hv. 1. þm. Sunnl, að nyrstu byggðir Vestfjarða, sem eru auðar af mannfólki, séu til einskis nýttar. Þetta er friðland, útivistarsvæði landsmanna allra, og það kann að mega hafa tvennar skoðanir á því hvort þær væru betur komnar undir sauðnautabúskap, en það er ekki rétt að þetta land sé til engra nota.

En meginerindi mitt í ræðustól nú var að vekja athygli hv. þm. á því að það er ljóst af síðari ræðu hans að stuðningur hans við sauðnautainnflutninginn byggist á leiðum misskilningi. Hann lýsti því yfir að því aðeins kæmi sá innflutningur til greina að fyllilega væri tryggt að ekki fylgdu sjúkdómar eða sníkjudýr, það yrði að vera tryggt að ekki fylgdi smitun. Jafnframt hefur hv. þm. lýst óskoruðu trausti sínu á yfirdýralækni og dómgreind hans á þessi mál. En kjarninn í umsögn yfirdýralæknis er einmitt sá að það er engin leið að útiloka að smitun fylgi slíkum dýrastofni sem hér er um að ræða, og þar kemur bæði til greina sóttkveikjusmitun og sníkjudýrastofnar sem þeim geta fylgt, Það er því ljóst af þessu að stuðningur hv. þm. við málið byggist á því að hann misskilur kjarna þess og ég vona að hann sjái að sér.