26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

303. mál, vistunarrými fyrir langlegusjúklinga

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það sem kemur mér til að standa upp eru þau ummæli hæstv. heilbrrh. sem ég álít gefa ranga mynd af þörf fyrir sjúkrarými og þá sérstaklega fyrir aldraða og langlegusjúklinga. Hann minntist á að miðað við heildartölu á landinu, ef ég skyldi það rétt, vanti 59 — við skulum segja 60 legurými. Ég vil upplýsa það að hér í Rvík er talin vera vöntun á sem svarar 200–00 leguplássum. Ég tel það alvarlegt mál ef ekki liggja fyrir betri upplýsingar í heilbrrn. um þessi mál, því að eins og þm. geta kynnt sér, þá hefur Reykjavíkurborg gert þetta verkefni að forgangsverkefni í sinni framkvæmdastefnuskrá með því að samþykkja að 10% af útsvörum hverju sinni, sem er nokkuð stór upphæð, fari í að byggja yfir þessa sjúklinga. Ég vil taka fram að þetta vandamál er svo víðtækt að það bindur bæði unga og aldna á heimilum þannig að ungt fólk eyðir stórum hluta af ævi sinni í að gæta þessa gamla fólks. Ég veit um vandamál sem ég hef sjálfur þurft að leysa úr sem borgarfulltrúi, þess eðlis að gamalt fólk hefur hreinlega verið tekið úr kjallaraholum, má segja, og sett á ganga sjúkrahúsanna hérna og þar með þurft að bíða eftir því að rými losnaði á sjúkrahúsi.

Ég segi þetta til að leggja áherslu á hvað þetta er mikið vandamál og brýn nauðsyn að hæstv. heilbrrh. beiti sér fyrir því að lausn verði fundin á þessum vanda sem allra fyrst og fjvn. leggi myndarlega til í álmu Borgarsjúkrahússins nú þegar.