02.05.1975
Sameinað þing: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3503 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

44. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að vera langorður um þetta nál. sem hér liggur fyrir og felur í sér að þessari till. verði vísað til ríkisstj. Ég er búinn að gera grein fyrir áliti allshn. á þeim tveim till. um áfengismál sem til hennar hefur verið vísað. Ég vildi aðeins segja það vegna ummæla hv. 9. landsk. þm. að ég get vel fallist á yfirlýsingar hennar um að Alþ. hafi ekki staðið með nægjanlega myndarlegum hætti að því að styðja við bakið á þeim sem berjast gegn óhóflegri áfengisneyslu. Það verður sjálfsagt aldrei svo að það verði nægjanlega vel gert, og mestu máli skiptir ekki endilega að Alþ. leggi fram ógrynni fjár til þessarar starfsemi, heldur að Alþ. hafi skilning á þessum störfum og veiti þeim einstaklingum og félögum, sem að þessu starfa, svigrúm til þess að nýta þær hugmyndir og færa sér í nyt þann kraft og áhuga sem fyrir hendi er hjá þeim áhugasamtökum sem að þessu vinna.

Ég get ekki upplýst hv. þm. um það hver örlög till. hv. þm. Odds Ólafssonar hafa orðið, en hitt er víst að henni hefur ekki verið vísað til allshn. Sþ. Mér er ekki kunnugt um hvar hún er niður komin. En mergurinn málsins er sá að ýmsar kröfur og hugmyndir um aðgerðir á þessum vettvangi hafa komið fram eins og t. d. till. frá hv. þm. Oddi Ólafssyni, einmitt af þeim sökum er mat allshn. að það þurfi að samræma þessar kröfur, þessar hugmyndir og þessa krafta á þann veg, að þeir falli í einn og sama farveg. Þess vegna er það mín skoðun að það sé skynsamlegt á þessu stigi málsins að þingið skipi þarna sérstaka n., — sem er í sjálfu sér nokkuð óvanalegt, að skipuð sé n. af þingflokkunum til þess að gera till. til þingflokkanna aftur, — það sé skynsamlegt skref til þess að samræma störfin og geti kannske orðið upphaf þess að betri árangur verði af baráttunni gegn áfengisbölinu.