26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

303. mál, vistunarrými fyrir langlegusjúklinga

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi sagði að ég hefði sagt að það vantaði ekki nema 59 vistrými, en þá þarf hv. fyrirspyrjandi að taka með í reikninginn þau orð sem ég sagði. Ég vitnaði í skýrslu, sem heilbrrn. hefur gefið út og látið gera, og bætti því við að þessi skýrsla byggðist ekki nema að litlu leyti á sjálfstæðum athugunum hérlendis, heldur á könnunum á því hvað aðrar þjóðir telja sig þurfa og geti gert á þessum og næsta áratug. Þetta er allt annað en ég hafi sagt að vantaði 59 vistrými. Þetta bið ég hv. fyrirspyrjanda að taka til vinsamlegrar athugunar.

Það sem skiptir auðvitað höfuðmáli í þessu er hvað er verið að gera, hvaða úrbætur eru á leiðinni. Það sem skiptir höfuðmáli er það að snemma á næsta ári verða teknar í notkun þrjár endurhæfingar- og hjúkrunardeildir í Hátúni 10 á vegum Landspítalans með 70–75 rúmum. Það er staðreynd að þetta er að koma, og svo er það komið undir hv. þm. hvað þeir vilja ganga langt í þessum efnum. Ég lýsti því hér áðan, hvað væri í hönnun, hverju væri fulllokið könnun á, og það er alveg komið undir fjárveitingum. Þá sjáum við, þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga, hvað menn vilja ganga langt í þeim efnum. Ég skal hugga alla þá, sem hafa talað hér, með því að heilbrrh. mun ekki setja sig upp á móti því að hækka fjárveitingar, síður en svo.