07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (2675)

226. mál, hússtjórnarskólar

Frsm. (Axel Jónsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til meðferðar, var lagt fyrir hv. Alþ. á s. l. vetri. Varð það þá útrætt hér við 2. umr. í Ed., en náði ekki lengra í það sinn. Í aths. við frv. þá segir að það hafi verið lagt fyrir Alþ. 1973 í þinglok til kynningar. Það var samið af nefnd sem menntmrn. skipaði 29. nóv. 1971 til að endurskoða lög um húsmæðrafræðslu og lög um Húsmæðrakennaraskóla Íslands. Í n. áttu sæti Steinunn Ingimundardóttir skólastjóri, skipuð samkv. tilnefningu skólastjóra húsmæðraskólanna og var hún jafnframt skipuð formaður nefndarinnar, Björn Halldórsson skrifstofustjóri, skipaður samkv. tilnefningu sambands íslenskra sveitarfélaga, Halldóra Eggertsdóttir formaður Kennarafélagsins Hússtjórnar, skipuð samkv. tilnefningu félagsins, Sigríður Haraldsdóttir kennari, skipuð samkv. tilnefningu Kvenfélagasambanda Íslands og Vigdís Jónsdóttir skólastjóri Húsmæðrakennaraskóla Íslands, skipuð án tilnefningar. Nefndin sendi rn. með bréfi 7. mars 1973 tvö lagafrv., um heimilisfræðaskóla og um hússtjórnarkennaraskóla.

Ástæðan til þess, að þessi nefnd var sett á laggirnar og henni falið þetta hlutverk, var fyrst og fremst sú að nú um nokkurt skeið hefur verið mjög dræm aðsókn víða að húsmæðraskólum og kvennaskólum. Sums staðar hefur verið gripið til þess ráðs að halda uppi í þessum menntastofnunum tímabundnum námsskeiðum og hefur fengist góð aðsókn að þeim víða, en sums staðar hefur þess ekki þótt kostur og þá hafa þessir skólar starfað með mjög fámennum nemendahópum. Húsmæðraskólarnir eru reknir í samvinnu af ríki og héruðum, og þegar það blasir við að aðsókn er mun minni en kennaralið gæti annað verður að sjálfsögðu fjárhagslegur grundvöllur lítill og oft um fjárhagslega tilfinnanlegan bagga að ræða, sér í lagi fyrir heimaaðilana sem víðast eru sýslusjóðir sem eru, eins og kunnugt er, allfjárvana til að mæta þeim verkefnum sem á þá eru lögð.

Það er megintilgangur þeirra nýmæla sem frv. felur í sér að gerð verði tilraun til að laga skólana eftir þörfum tímans. Lögð er til sú meginbreyting að skólarnir verði ríkisskólar að fullu, bæði vegna þess hlutverks, sem þeim er ætlað, og vegna fjárhagsörðugleika í sambandi við núverandi rekstrarform þeirra. Reynslan ein getur sannað hvort hér er verið að leggja til réttar leiðir. — Ég vil einnig alveg sérstaklega láta þess getið að hér er um mjög viðkvæmt og vandasamt mál að ræða. Á ýmsum stöðum hafa húsmæðraskólar starfað með langan og merkan feril að baki.

Menntmn. þessarar hv. d., sem hafði málið til meðferðar á síðasta ári, sendi það eftirtöldum aðilum til umsagnar: Kvenfélagasambandi Íslands, Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, Félagi íslenskra vefnaðarkennara, stjórn Kennarafélagsins Hússtjórnar. Umsagnir bárust frá þessum aðilum og mæltu þeir eindregið með samþykkt frv. og komu með nokkrar ábendingar sem þáv. menntmn. þessarar hv. d. tók til greina, og flutti nefndin sameiginlega brtt. við frv. sem allar voru samþykktar við 2. umr. Þar að auki fluttu tveir nm. till. um breytt heiti á skólanum og var sú till. einnig samþykkt.

Núv. nefnd hefur athugað frv. og þær umsagnir sem fyrir lágu, þær brtt. sem samþ. voru hér við 2. umr. úr þessari hv. d. á s. l. vetri og flytur brtt. eins og fram kemur á þskj. 567 þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess með þeim breytingum er hún flytur á sérstöku þskj.

Fjarstaddir við afgreiðslu málsins voru Ragnar Arnalds, Jón Árm. Héðinsson og Ingi Tryggvason.“

Nefndin flytur brtt. á þskj. 566:

Það er í fyrsta lagi við 1. gr. frv. að í stað orðsins „heimilisfræðaskóli“ í greininni og öðrum greinum frv. komi: hússtjórnarskóli.

Í öðru lagi við 2. gr. frv. að í stað „36 vikur“ komi: 28–36 vikur samkv. nánari ákvörðun menntmrn. — Þessi brtt. er fyrst og fremst til þess gerð að setja það einnig á þessu stigi alfarið bundið í lög að þessir skólar skuli starfa minnst 36 vikur.

3. brtt. nefndarinnar er við 4. gr. sem varðar inntökuskilyrði, námsgreinar og próf. Greinin hljóðar svo samkv. till. nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Inntökuskilyrði skulu vera þessi:

a) Að nemandinn hafi lokið skyldunámi grunngrunnskóla“ — en að niður falli það sem í frv. er: „lágmarkseinkunn sem ákveðin er í reglugerð“. N. þótti rétt að það eitt stæði þarna að nemandinn hafi lokið námi grunnskóla. B-liður þessarar greinar orðist svo: „Að nemandinn sýni læknisvottorð um að hann sé eigi haldinn neinum andlegum eða líkamlegum kvilla eða annmarka er hamli honum í námi eða starfi að dómi skólastjóra og skólanefndar. Skólarnir eru bæði fyrir stúlkur og pilta“. — Þarna er einnig sams konar breyt. og var lögð fyrir í sambandi við Hússtjórnarkennaraskólann, að nemandi skyldi sýna læknisvottorð þannig að það væri ekki alfarið lagt á herðar skólastjóra og skólanefndar að kveða upp úr með það mat sem þarna skal fram fara, nema því aðeins að þeir hinir sömu aðilar hefðu í höndum læknisvottorð varðandi viðkomandi nemendur.

Í fimmta lagi er brtt. við 7. gr. um að greinin orðist eins og þar segir:

Menntmrn. fer með yfirstjórn hússtjórnarskóla. Menntmrh. skipar skólastjóra að fengnum tillögum skólanefndar. Hann skipar einnig fasta kennara að fengnum tillögum skólastjóra og skólanefndar. Til þess að verða settur eða skipaður skólastjóri eða kennari við hússtjórnarskóla þarf kennarapróf frá Húsmæðrakennaraskóla Íslands, Hússtjórnarkennaraskóla Íslands, Kennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands eða hliðstæðri menntastofnun erlendis, og einnig má setja eða skipa þá sem kennara er lokið hafa prófi frá vefnaðarkennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þá eina má setja skólastjóra er gegnt hafa kennslu í a. m. k, eitt ár.“ — Aðalbreytingin, sem í þessu felst frá því sem er í frv., er að gera greinina rýmri varðandi möguleika til þess að setja kennara og er þar fyrst og fremst átt við vefnaðarkennara og/eða handíðakennara eins og þar kemur fram.

Í sjötta lagi er breyting við 8. gr. um að greinin orðist svo:

„Við hússtjórnarskóla skal starfa skólanefnd sem menntmrn. skipar og starfar hún samkvæmt erindisbréfi er rn. setur. Formann skal skipa án tilnefningar, en 2 nefndarmanna skal skipa samkvæmt tilnefningu héraðssambands kvenfélaga í byggðarlagi skólans, tvo tilnefnda af viðkomandi landshlutasamtökum og tvo tilnefnda af nemendum úr hópi reglulegra nemenda skólans. Tilnefning nemendafulltrúa gildir til eins árs en annarra nefndarmanna til fjögurra ára. Sjö varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Skólastjóri á rétt til setu á fundum skólanefndar með tillögurétti og málfrelsi, nema þegar fjallað er um mál er varða hann persónulega.“ — Breyt., sem í þessu felst frá því sem er í 8. gr. frv., er fyrst og fremst um að fulltrúar nemenda verði tveir í stað eins eins og þar er kveðið á um.

Í sjöunda lagi er breyting við 15. gr. um að greinin orðist svo:

„Stofna skal 36 vikna handíðaskóla þegar fé er til þess veitt í fjárlögum.

Námsefni skal í meginatriðum vera hliðstætt því sem er í öðrum hússtjórnarskólum, sbr. 5. gr., en þó skal sérstök áhersla lögð á handíða- og textílgreinar.

Heimilt er að ráða kennara við skólann sem sérstaklega eru þjálfaðir til handíða- og teiknikennslu án þess að þeir uppfylli skilyrði 7. gr.

Í reglugerð skal ákveða nánar um fjölda námsgreina og hvað kenna skal í hverri grein.

Að öðru leyti gilda sömu ákvæði um handíðaskólann og aðra hússtjórnarskóla.“

Og í áttunda lagi að fyrirsögn frv. verði: Frv. til l. um hússtjórnarskóla.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu til þess að skýra þær brtt. sem menntmn. flytur við frv. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.