07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3540 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

115. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Albert Guðmundsson:

Forseti. Ég er nú ekki undir það búinn að gera till. um að fella lögin frá 1963 niður, en það gæti vel komið að því. Sem almennum borgara áður en ég kom á Alþ. fannst mér mest þörf á því að á Alþ. kæmu menn sem endurskoðuðu hvaða lög og hvaða skatta og hvaða gjöld á fólkið og þjóðina ætti að leggja niður og vefja svolítið ofan af því mikla kerfi sem þm. allra tíma hefur tekist að koma á með því að telja það skyldu sína fyrst og fremst að setja kvaðir á þjóðina á allan hátt. Það getur vel verið að það sé komið að því og ég reikna með því að hv. 2. þm. Vestf. yrði þá sammála mér og hjálpaði til í þeim hreinsunaraðgerðum, en ég ætla ekki að gera það núna.

Ég sagði áðan að það væri kominn tími til þess að lækka frekar þau opinberu gjöld sem renna til ríkisins í þeim tollum og sköttum sem lagðir eru á vörur sem flytjast til landsins og þ. á m. flugvélabensín og bensín almennt, þannig að það þyrfti ekki að vera að hækka á íbúum Reykjavíkursvæðisins eða þéttbýliskjarnans hérna í hvert skipti sem talin er þörf á því að gera eitthvað sérstakt átak fyrir fólk úti á landi. Ég er ekki þar með að segja að fólk annars staðar í landinu eigi að borga meira en greitt er fyrir vöru og þjónustu í Reykjavík, en það er hægt að jafna það öðruvísi en að bæta alltaf á. Það hlýtur að vera hægt að taka af líka og þar á ég við ríkisbáknið sjálft sem er orðið allt of kostnaðarsamt og allir tala um, bæði hér innan veggja og utan.

En hvað varðar það að flytja nauðsynjavörur í gegnum Reykjavíkurhöfn, — Reykjavíkurhöfn er í augum margra, sem ekki þekkja til, eitthvert stórgróðafyrirtæki. Ég ætla að upplýsa hv. 2. þm. Vestf. að á næst síðasta fundi hafnarstjórnar í Reykjavík, sem ég á sæti í, kom upp úr kafinu að áður en síðustu launahækkanir komu inn í reikninga hafnarinnar var 18 millj. rekstrarhagnaður, 18 millj. af mörg þús. millj. kr. fjárfestingu. Þessar 18 millj. nægja alls ekki til þess að standa undir þeim verðhækkunum sem síðast voru settar á, hvað þá væntanlegum hækkunum sem koma kannske til viðbótar núna 1. júní, svo að Reykjavíkurhöfn er ekkert gróðafyrirtæki.

Ég get sagt það sem borgarfulltrúi Reykvíkinga að það er í mörgum tilfellum sem þeir væru guðs lifandi fegnir að losna við ýmislegt sem Reykjavík verður að taka á síg sem höfuðborgarskyldur, kostnaðarsamar fyrir reykvíkinga, en ekki sem borgarbúa í höfuðborg. Allir eru orðnir löngu þreyttir á því að Reykjavík sé alltaf að gera eitthvað gegn íbúum annarra staða. Ég reikna með að sá hugsunarháttur, sem hér speglast hjá mér, hann speglist ekki bara hjá mér einum heldur almennt í borgarbúum.