07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3545 í B-deild Alþingistíðinda. (2691)

213. mál, framsal sakamanna

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. nr. 7 frá 1962. Þar er um að ræða samnorræn lög að stofni til sem byggð eru á samningi á milli Norðurlandanna. Að fenginni reynslu og að undangengnum viðræðum milli þessara landa hefur orðið samkomulag um að gera þyrfti á þeim nokkrar breyt. sem miða að því að gera þau einfaldari í framkvæmd. Það eru þær breyt., sem samkomulag hefur orðið um, sem hér er lagt til að lögfestar séu.

Þetta frv. hefur gengið í gegnum hv. Nd. og verið samb. þar og ég sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum, enda er gerð frekari grein fyrir því í aths. En ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn. og er von mín að hægt verði að afgreiða þetta mál á næstunni.