07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3557 í B-deild Alþingistíðinda. (2698)

238. mál, Byggingarefnaverksmiðja ríkisins

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð til viðbótar. — Hrein byggðasjónarmið voru þau sjónarmið sem hv. þm. Oddur Ólafsson kvaðst ekki finna að baki þessa frv. þar sem ráðgert væri að hafa heimilisfang fyrirhugaðrar byggingarefnaverksmiðju á Akureyri. Þetta sagði hann eftir að ég hafði ítrekað einum þrisvar sinnum þá hugmynd að rekstur þessa fyrirtækis, Byggingarefnaverksmiðju ríkisins, yrði víðar um landið eftir því sem hráefni og markaðir e. t. v. réttlættu. Ég geri ráð fyrir því að það væri kannske erfitt fyrir stöku þm., þrátt fyrir ágætan vilja, að taka inn til úrvinnslu í hugskoti hugmyndir sem varða notkun ódýrrar innlendrar raforku til framleiðslu fyrir innlendan markað. Þessir menn eru svo stórhuga. Þeir hafa ekki sumir hverjir fyrr lokið við samþykkt mjög svo afkastamikillar málmblendiverksmiðju í Hvalfirði hér á Alþ. en þeir eru farnir að tala um enn þá stærri álverksmiðju við Eyjafjörð.

Hugmyndin að baki þessu frv. um Byggingarefnaverksmiðju ríkisins er, eins og ég sagði í upphafi, sú að við höfum raunverulega aflögu raforku til slíkrar framleiðslu til notkunar innanlands og að við hjálpum til að skapa markað fyrir þá raforku innanlands með þessum hætti samtímis. Hvort við kynnum að finna hráefni innan um málmgrýtið, ef við höldum okkur enn þá við málmblönduna þarna efra, veit ég ekki. Ég hygg að ég sé sá eini hv. þm. sem hef unnið í kvartsnámunni sem hv. þm. Oddur Ólafsson nefndi, og hún er þá auðugri eftir því sem neðar dregur í iður jarðar ef við ættum að geta fengið úr henni nokkra tugi þús. tonna á ári.

Þetta er ekki aðalatriði raunverulega, vinnslan úr innlendu hráefni, en það er mjög mikilsvert atriði. Og það er mjög mikilsvert atriði að við miðum framleiðsluna fyrst og fremst við þörfina hér innanlands, ekki bara vegna þess gjaldeyris sem við getum sparað með því að sleppa við að flytja inn plast til einangrunar í hús, heldur vegna þess að hér erum við raunverulega að efla sjálfstæði okkar með því að vera sjálfum okkur nógir um þessi byggingarefni. Það veit þjóð að um aldir háði það því vesalings fólki, sem byggði þetta blauta, og hvassviðrasama og jarðskjálftasama land, að eiga ekki varanlegt byggingarefni í landi sínu. Menn mega kalla það hrakspá ef þeir vilja, en ég þykist sjá fram á þann tíma ekki mjög langt undan að okkur verði það höfuðnauðsyn að vera sjálfum okkur nógir um ýmsan þann varning sem við höfum til skamms tíma flutt inn.