07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3565 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Albert Guðmundson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða efnislega tilkomu þessarar verksmiðju, þörungavinnslu við Breiðafjörð, en ég vil þó í upphafi máls míns geta þess, flm. eða formanni hv. iðnn. til upplýsingar, að það þætti lítið og má segja undirkapítalíserað einkafyrirtæki, sem ekki færi af stað með meira en 20% af eigin fé, það er talið af þeim, sem fást við og skilja hvað einkareksturinn verður að þola, að það sé ekki undir 40, helst þar yfir, sem þarf að vera eigið fé til að reksturinn geti borið sig eða til þess að talið sé rétt að fara út í viðkom andi rekstur.

Ég sé á bls. 2 í grg., með leyfi hæstv. forseta, að miðað við núv. ástand rekstrarkostnaðar og verðið, sem gilti fyrir árið 1974, reynist arðsemi fyrirtækisins vera um 17% af áætluðum fjárfestingum, en ef miðað er við umsamið verð 1975 og gert ráð fyrir allnokkrum hækkunum á rekstrarkostnaði á árinu reynist arðsemin um 22% af heildarfjárfestingu eins og hún er áætluð. Ég get ekki séð að arðsemi þessa fyrirtækis komi til með að standa undir eðlilegum bankakostnaði af lánum og fleira, og náttúrlega verður að reikna með að hún gefi einhvern arð líka, miðað við það sem hér stendur.

Einkaaðilar fást ekki til að leggja fé í verksmiðjurekstur í samstarfi við ríkissjóð. Það kom greinilega fram hjá hv. 2. þm. Vestf. og það skyldi engan furða neitt á því. Reynslan af Áburðarverksmiðjunni var slæm, þar sem einkaaðilar voru þvingaðir til á lokastigi að láta af hendi hlutafé sitt vegna þess að verksmiðjan þurfti á auknu lánsfé að halda til þess að fjárfesta frekar og rekstrarlán líka. Þar þurfti auðvitað ríkisábyrgð að koma til, og mig minnir að ég hafi lesið á þeim tíma — að vísu var ég þá staddur erlendis, en las blöð sem ég fékk hér að heiman — að það væri ekki talið eðlilegt að einkaaðilar nytu góðs af því að ríkisábyrgð yrði notuð til að auka fjármagn í verksmiðjunni. Og þá segir það sig sjálft að reynslan af samstarfi við ríkið er þessi, og þá náttúrlega segir það sig sjálft að menn brenna sig ekki tvisvar á sama eldinum. Ríkið hefur ekki verið samstarfshæft við einstaklingana. En skattlagning á atvinnurekstur einstaklinga hefur gengið svo nærri fólkinu að ekkert er afgangs til að leggja í arðbær fyrirtæki, hvorki í samstarfi við ríkið né án þess. Það er því ekkert að undra að atvinnurekendur hlaupi til „stóru mömmu“, eins og Magnús Kjartansson var að ræða í Nd. nú fyrir nokkrum dögum. „Stóra mamma“ eða ríkið, eins og hann átti við, hefur mergsogið allan atvinnurekstur með íþengjandi álagningu á atvinnuvegina, bæði framleiðslu- og þjónustugreinar. Og það er ekkert fé afgangs lengur hjá einstaklingum til að leggja í svona lagað, því miður. Ef hér væri um eðlilegan rekstur að ræða bæði á ríkisbúskapnum og hjá einkaaðilum þá væru ekki allir á hausnum eins og raun ber vitni.

Þó að þessi verksmiðja gæti orðið arðbær, þá vil ég taka undir með hv. 2. þm. Norðurl. e. að það er spursmál hvað við getum fjárfest lengi og haldið áfram lengi á þessari sömu braut þrátt fyrir það að við vitum að það sé rétt að gera það. Ég gerði fsp. í hv. fjh.- og viðskn. um daginn og óskaði eftir að það kæmi skriflegt svar við henni um það hvort við þyldum að halda svona áfram. Fram kom í grg. með efnahagsráðstöfunum ríkisstj., að skuldaaukning erlendis, bara erlendis, — það var ekkert talað um þau lán sem við eigum eftir að taka innanlands og þvinga ríkisbankana til að leggja fram, en voru um 700 millj., — hún er núna komin upp í 13 þús. millj. Ég tók það fram úr þessum ræðustól að það svaraði til um 30–40 millj. kr. skuldaaukning í fjárfestingar á dag fram yfir fjárlög.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri, en mig langar til að spyrja hér og fá þá svar sem gæti orðið afdrifaríkt ef það reynist rétt skilið hjá mér. Það er spurning til hv. form. iðnn. og gæti orðið til þess, eins og ég segi, að einkaaðilar opnuðu nú sínar buddur, eins og virðist vera æskilegt, en hefur ekki orðið þrátt fyrir auglýsingar. Er það skilyrði fyrir hlutafjárframlagi hins erlenda aðila að stjórnaraðild fylgi þeirra framlagi? Þá er líka spurning um leið: Er nokkur fengur í að fá þennan aðila sem hlutafjáreiganda? Ef svarið er jákvætt, þá vildi ég leggja aðra spurningu fram og hún er sú, hvort hægt sé að reikna með því að framlag frá innlendum aðilum að sama marki veiti einnig stjórnaraðild, að hvert 15 millj. kr. framlag í hlutafé veiti þá einnig stjórnaraðild þeim einkaaðilum innlendum, sem hugsanlega gætu hópað sig saman og kannske smalað þá saman þrisvar sinnum 15 millj. og þar með verið með meiri hl. í stjórn þessa fyrirtækis. Ef aftur á móti þetta er skilyrt framlag frá þessum erlenda aðila, þá vil ég mælast til þess að hans ágæta boði verði ekki tekið.