26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

296. mál, verð á rafmagni til húshitunar

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 1. þm. Sunnl. vil ég taka þetta fram:

Hjá Rafmagnsveitum ríkisins, Sambandi ísl. rafveitna og hjá Landsvirkjun er unnið að athugun á þessum málum, þ.e. samanburði á húshitunarkostnaði með rafmagni og olíu. Þessi samanburður er flókið mál. Hann er erfiður eftir að upp kom sú niðurgreiðsla á olíu eða réttara sagt olíustyrkur miðað við fjölskyldustærð sem upp hefur verið tekinn. En vonir standa til að þessar athuganir leiði í ljós leiðir til þess að fá því framgengt sem fsp. hv. þm. beinist að, en það er að húshitun með rafmagni verði ekki dýrari en upphitun með olíu.