07.05.1975
Efri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3574 í B-deild Alþingistíðinda. (2720)

279. mál, sóknargjöld

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það sýnist kannske ástæðulítið fyrir mig að vera að lengja fundartímann um þetta mál þar sem lagt er til að vísa því til þeirrar n. sem ég er form. í. Ég átti satt að segja ekki von á því að það færi þangað þegar ég var að biðja um orðið.

Ég skal, herra forseti, reyna að vera stuttorður, en aðeins vekja athygli á einu atriði sem hægt væri að skilja þannig að það lægi ljóst fyrir hvað væri Reykjavíkurprófastsdæmi.

Það segir í 2. gr. frv.: „Sóknarnefndum er heimilt að ákveða, að fengnu samþykki ráðh. að sóknargjald skuli vera allt að 11/2% af útsvari gjaldanda. Í Reykjavíkurprófastsdæmi tekur safnaðarráð, sbr. 2. gr. laga nr. 35/1970, ákvörðun um þetta efni eftir till. sóknarnefnda í prófastsdæminu og að fengnu samþykki ráðh.“

Um þetta hef ég ekkert að athuga annað en það, að svo þegar kemur að aths. frv. einmitt varðandi þessa umræddu 2. gr., þá er einvörðungu vikið að því að sóknargjöldin geti orðið 11/2% að uppfylltum þessum ákvæðum, sem ég áður drap á, í Reykjavík. Nú eru tveir kaupstaðir í Reykjavíkurprófastsdæmi aðrir en Reykjavíkurborg, þ. e. Kópavogur og Seltjarnarnes. Ég er ekki að segja að það sé vanþörf á því að sóknargjöldin á heim stöðum séu 11/2% af útsvari ef það er nauðsyn í Reykjavík. En ég hygg að það gæti verið nokkuð hliðstæð nauðsyn á sams konar gjöldum á öðrum stöðum þéttbýlis Reykjaneskjördæmis. Það þykir kannske hljóða ólíklega að Vestmannaeyjakaupstaður er í Kjalarnesprófastsdæmi, en Kópavogur og Seltjarnarnes í Reykjavíkurprófastsdæmi. Þess vegna er það sem vikið er hér að útreikningum Þjóðhagsstofnunarinnar í aths. við 2. gr., hver sóknargjöldin hafa verið í Reykjavík, miðað við það sem þau voru í Reykjavíkurprófastsdæmi, — þau voru þau sömu yfir kaupstaðina þrjá, — og hvað þau mundu verða með þessari hugsanlega nýju hámarksálagningu. Þá er það spurningin: Er þar aðeins meint hvað þau væru í Reykjavík, en ekki haft í huga að þarna er um Reykjavíkurprófastsdæmi að ræða. Samkv. heimildinni í 2. málsgr. koma þessir staðir einnig þar undir, Kópavogur og Seltjarnarnes.

Ég skal, herra forseti, þar sem frv. kemur til þeirrar n. sem ég á sæti í, ekki tefja lengur fund, og skal gera mitt til þess að greiða fyrir framgangi málsins. Ég tel fulla nauðsyn á að það nái fram að ganga. Ég þekki það. Ég er safnaðarfulltrúi í annarri sókninni í Kópavogskaupstað.