07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3575 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

259. mál, skákkennsla

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Hæstv. forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að lengi hefur verið mikill áhugi á skák á Íslandi. Skákkunnátta er mjög útbreidd meðal íslendinga og áhugi á skák hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum. Og svo er nú komið að íslendingar hafa getið sér hinn besta orðstír á erlendum vettvangi á þessu sviði, ekki aðeins á Norðurlöndum, heldur á heimsvettvangi. Íslendingar hafa eignast ýmsa afburðamenn í skák á heimsmælikvarða, stórmeistara og aðra þá sem sæmdir eru verðlaunum og titlum á alþjóðlegum skákmótum.

Það var lengi vel baráttumál launþegasamtaka að auka sem mest tómstundir. Það var talið jafngildi beinna kjarabóta að fá tómstundum fjölgað. Í velmegunarþjóðfélagi nútímans er hins vegar svo komið að sumir telja vaxandi tómstundir færa nokkurn vanda, það sé nokkur vandi á höndum að hagnýta tómstundir til þroska og ánægju. Iðkun skákíþróttar er ein helsta tómstundaiðja bæði fullorðinna og ungra manna hér á Íslandi og á því getur varla leikið nokkur vafi að iðkun skákíþróttarinnar — skáklistarinnar vildi ég mega segja — er hin hollasta tómstundaiðja sem völ er á. Þess vegna er á því enginn vafi að stuðningur við bað að skólafólk iðki skák mundi verða mjög til bóta. Það mundi bæta skólastarfið sjálft og hjálpa ungu fólki til þess að hagnýta tómstundir sínar ekki aðeins sér til heilbrigðrar ánægju, heldur einnig til þroska.

Hið opinbera hefur stutt nokkuð að því að skák sé kennd í skólum og skákmenn tefli við skólafólk. En þetta hefur gerst með óformlegum hætti og hefur því ýmsum þótt rétt að lögbinda slíka starfsemi, og það er markmið þessa einfalda frv., að ráðh. verði heimilað að gera slíkt. Efni þess er það eitt — og getur varla einfaldara verið — að ráðh. sé heimilt að skipa íslenska skákmenn í fast starf við íslenska skóla til kennslu í skák. Þó þykir rétt að takmarka þessa heimild við það að skákmaðurinn hafi hlotið stórmeistaratitil eða annan alþjóðlegan titil í skák, en nokkrir íslendingar hafa getið sér slíks frama á erlendum vettvangi. Laun skulu vera hámarkslaun menntaskólakennara. Ef þessi slík ákvæði yrðu að lögum væru tvær flugur slegnar í einu höggi. Annars vegar væri skólastarf bætt og stutt að því að skólafólk noti tómstundir sínar með heilbrigðum og þroskandi hætti og hins vegar væri hinum stórsnjöllu skákmönnum, sem íslendingar hafa eignast, auðveldað að helga sig skákíþróttinni — skáklistinni — í þeim mæli sem nauðsynlegt er til þess að þeir geti áfram helgað sig skákíþróttinni og bætt eigin skilyrði og annarra til þess að öðlast áframhaldandi og vaxandi frama bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi.

Síðan þetta mál var lagt fram hef ég orðið þess var að efni málsins hefur hlotið stuðning hjá skákmönnum, hjá skólamönnum og hjá skólafólki. Þess vegna vildi ég mega vænta þess að málið fengi vinsamlegar viðtökur í þeirri n., sem ég legg til að málinu verði vísað til, þ. e. menntmn., og það geti hlotið afgreiðslu á þessu þingi. Hér er að sjálfsögðu ekki um pólitískt mál að ræða, hvað þá flokkspólitískt, og vona ég því að sem almennust samstaða geti um það skapast.