07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3576 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

259. mál, skákkennsla

Sverrir Bergmann:

Virðulegi forseti. Ég er eingöngu hingað kominn nú til þess að lýsa yfir mjög eindregnum stuðningi mínum við það frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil þakka flm. þess, hv. 9. þm. Reykv., fyrir framlagningu þess og glögga grg. og ég vil mega vænta þess að frv. fái þrátt fyrir setu margra varamanna fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.

Skákáhugi hefur jafnan verið ríkur meðal íslendinga þótt hann hafi kannske aldrei verið meiri en nú, og íslendingar hafa eignast afburðamenn á sviði þessarar íþróttar — á sviði þessarar listar sem ég vildi líka svo nefna — þó að auðvitað beri þar hæst stórmeistara okkar þá Friðrik Ólafsson og Guðmund Sigurjónsson. En það eru margir aðrir sem hafa náð mjög glæstum árangri bæði fyrr og síðar. Það er enginn vafi á því að aukin fræðsla og aukin þjálfun er öruggasta leiðin til betri árangurs. Sá árangur leiðir svo aftur til vaxandi áhuga og kallar þar með beinlínis á aukna fræðslu og aukna þjálfun. Þessa hringrás tel ég vera mjög heppilega. En til þess að ná glæstum og raunar alveg nauðsynlegum alþjóðaárangri dugir ekki meðfædd skákgáfa ein saman. Þar verður að koma til þjálfun og svo keppni við fremstu meistara. Af þessu leiðir nánast óhjákvæmilega atvinnumennsku og hún verður hinum allra fremstu nauðsynleg, en tekjur af slíkri atvinnumennsku eru afar óvissar, afar ótryggar, og með frv. þessu er í senn stefnt að tekjustofni handa okkar fremstu meisturum á sviði skáklistarinnar, jafnframt því sem kennslan gæti verið þjálfunarþáttur þeim sjálfum, þótt auðvitað væri með nokkrum öðrum hætti en hjá hinum er menntunarinnar munu njóta. Auðvitað yrði skák — býst ég við — að vera valgrein, en ekki skyldugrein og kennslufyrirkomulag skipulagt í samráði við samtök skákmanna og skákkvenna annars vegar og fræðsluyfirvalda hins vegar. Ég býst hins vegar við því að hv. flm., hv. 9. þm. Reykv., hafi, áður en hann lagði þetta frv. fram, nokkuð kynnt sér að þeir skákmanna okkar, sem náð hafa alþjóðlegri viðurkenningu, mundu fúsir til að taka að sér skákkennslu svo að af framkvæmdum megi verða ef frv. nær fram að ganga, sem við báðir einlæglega vonum,

Fyrir mörgum árum var ég í stjórn Friðrikssjóðs. Þessi sjóður var til þess stofnaður að gefa Friðrik Ólafssyni kost á því að stunda íþrótt sína meira en ella hefði kannske orðið. Það voru fyrirtæki og einstaklingar sem gáfu í þennan sjóð, að mig minnir, 500 kr. á ári í 5 ár. Þetta var mikið fé í þá tíð og það dugði allnokkuð, og það var einmitt á þessum árum sem Friðrík Ólafsson vann sín glæstu afrek á sviði skákíþróttarinnar, og ég hygg að þau hafi yljað mörgum íslendingum um hjartarætur, a. m. k. einlægum skákáhugamönnum eins og mér og fleirum, og þá hygg ég að mörgum hafi fundist vera aukið yndi að því að vera íslendingur. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um það hvað bætt aðstaða, þótt kannske í smáu sé eins og þarna var, stuðlaði að glæstari og betri árangri en ella hefði e: t. v. orðið.

Ég vil aðeins segja það að lokum að ég tel að skákáhugi íslendinga verðskuldi að hlúð sé að honum og hann efldur, og ég tel að skákmenn okkar verðskuldi að þeir hafi til þess aðstöðu að stunda íþrótt sína og þessa list. Og með því að það frv., sem hér liggur fyrir, stuðlar að þessu hvoru tveggja, lýsi ég aftur yfir eindregnum stuðningi mínum við það, þakka hv. flm. og vil mega vona enn að það nái fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi.