07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3591 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra. forseti. Þegar frv. þetta kom til fyrstu umr. hér í hv. deild fyrir nokkrum dögum voru liðnir hátt í tveir mánuðir frá því sú gengisfelling var gerð sem þetta frv. er flutt í framhaldi af. Hæstv. ríkisstj. hafði sem sé þurft margar vikur til þess að gera sér grein fyrir því til hvaða ráða hún vildi grípa til að hressa eitthvað upp á útgerðina í landinu eftir afleiðingar þær sem efnahagsstefna ríkisstj. og hinar tíðu gengisfellingar hennar höfðu haft fyrir útveginn. Þessi langi biðtími sannar tvennt: Í fyrsta lagi að ríkisstj. þreifar fyrir sér um úrræði eins og blindur maður og hún veit aldrei í dag hvað hún hyggst gera á morgun. Í annan stað er þessi langi biðtími ljós vottur þess ósamlyndis sem ríkir í stjórnarherbúðunum. Aðgerðir eru dregnar von úr viti meðan deilt er fram og aftur um hvað gera eigi. Fyrirheit eru gefin í dag sem eru tekin aftur til baka á morgun og niðurstaðan verður óhrjálegur hrærigrautur bráðabirgðaráðstafana sem ekkert megna og allir eru óánægðir með. Niðurstaðan er „sorglegt stjórnarfrv.“ þar sem „stór spor eru stigin aftur á bak“ svo að vitnað sé í ummæli annars aðalmálgagns Sjálfstfl. og hæstv. sjútvrh. um frv. það sem hér er til meðferðar. Mér hefur verið sögð sú saga og tek hana fyllilega trúanlega að þeir, sem fyrst komu nálægt samningu þessa frv., hafi ekki þekkt sitt eigið afkvæmi þegar loksins það lá prentað fyrir í þskj. eftir að þeir voru til skiptis búnir að tína og finna aftur ýmis ákvæði sem annað hvort eru í frv. í núv. mynd þess eða voru í því í upphaflegri gerð þess.

Hv. frsm. meiri hl. sjútvn. Nd. vitnaði hér áðan í vestfirska stöku. Ég skal gjarnan koma með aðra slíka tilvitnun, með leyfi hæstv. forseta, sem e. t. v. lýsir þeim vinnubrögðum sem hæstv. ríkisstj. hefur haft við samningu þessa máls, en stakan er svona:

Týndur fannst, en fundinn hvarf,

að fundnum týndur leita þarf,

en týndist þá og fundinn fer

að finna þann sem týndur er.

Þannig hefur hæstv. ríkisstj. haldið á þessum málum. Hún hefur til skiptis týnt og fundið aftur þær greinar sem hún setti upphaflega í frv. og það er vart svo að menn þekki sitt eigið afkvæmi í stjórnarherbúðunum.

Þegar frv. þetta um ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins loks komst til sjútvn. þessarar hv. d. eftir japl, jaml og fuður innan ríkisstj. og stjórnarflokkanna, var farið að hylla undir þinglok. Því var það að nefndinni gafst ekki nægur tími til að skoða það mál sem tekið hafði hæstv. ríkisstj. hart nær tvo mánuði að semja. Nefndinni gafst m. a. ekki tími til þess að óska skriflegra umsagna þeirra hagsmunaaðila sem mál þetta varðar, en varð að láta sér nægja að kalla forsvarsmenn þeirra til stutts spjalls. Hefði þó verið rík ástæða til þess að þingmönnum gæfist kostur á því að kynna sér svart á hvítu umsagnir þeirra aðila sem efni þess frv. varðar því að allir eru þeir sammála um að telja meginefni þess ákaflega varhugavert, með öllu óaðgengilegt og beinlínis hættulegt fyrir eðlilega starfsrækslu í þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Í nál. meiri hl. sjútvn. er reynt að koma sér undan því að geta um þessar umsagnir og hvað þessir menn höfðu til málanna að leggja. En staðreyndin er sú að í sjútvn. kom fram eindregin og áköf andstaða allra þeirra aðila, sem hagsmuna eiga að gæta í sjávarútvegi, við það meginefni þessa frv. að leggja út í vanhugsaðar tilfærslur á hundruðum milljóna króna innan sjávarútvegsins með myndun risavaxins sjóðakerfis. Þetta var samdóma álit allra þeirra oddvita hagsmunahópa sem komu að máli við sjútvn. Nd., hvort heldur þeir töluðu fyrir munn útgerðarmanna, fiskverkenda eða sjómanna. Og það er stórlega varhugavert og raunar mjög ámælisvert af stjórnvöldum að knýja í gegn lausn, ef lausn skyldi kalla, sem allir þeir aðilar, er hagsmuna eiga að gæta, vara eindregið við og taka ákafa afstöðu gegn, ekki hvað síst ef sú leið stangast algjörlega á við raunverulegar skoðanir stjórnarliða sjálfra eins og ég hygg að ýmis meginatriði þessa frv. geri. Verði það samþ., á þessu þingi í núv. mynd, þá verður það gegn betri vitund flestra hv. stjórnarþingmanna og gegn vilja þeirra margra hverra. Fyrir það geta þeir ekki beðið forláts á þeim grundvelli að þeir viti ekki hvað þeir eru að gera.

Eins og fram kemur í nál. minni hl. sjútvn. náðist ekki samstaða í nefndinni um afgreiðslu frv. Ágreiningur er um allar greinar frv., en þó mestur efniságreiningur um 2. gr. þess. Um 1. gr., frv. er það að segja að þar er, eins og venja hefur verið til undir slíkum kringumstæðum, verið að ráðstafa gengismun sem skapaðist á birgðum sjávarafurða í kjölfar síðustu gengisbreytingar hæstv. ríkisstj. Samkv. áætlun Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir að þessi gengismunur nemi 1644 millj. kr. að frádregnum hækkuðum kostnaði, svo sem eins og farmgjöldum og vátryggingum. Með frv. þessu er Alþ. svo ætlað að ráðstafa þessu fjármagni og þá fyrst og fremst til útgerðarinnar af þeim eðlilegu orsökum að gengisbreytingin hafði mjög slæm áhrif á rekstrarstöðu og afkomu útgerðarinnar, m, a. vegna mikilla skulda hennar, ýmist í erlendum gjaldeyri eða í gengistryggðum lánum. Er raunar meira en lítið vafasamt hvort þessar aðgerðir nægja til þess að bæta útgerðinni það tjón sem hún hefur hlotið af völdum gengisfellingarstefnu hæstv. ríkisstj., a. m. k. virðist af útreikningum sem svo muni tæpast vera þótt ég sé vissulega enn þeirrar skoðunar, sem komið hefur fram hjá mér á Alþ. áður, að vafasamt sé að taka of mikið mark á meðaltalstölum um afkomu útgerðar í landinu, m, a. vegna þess að þær tölur eru að verulegu leyti byggðar á grunnupplýsingum atvinnurekendanna sjálfra um eigin hag, en ekki frumgagnasöfnun Þjóðhagsstofnunarinnar eins og á t. d. við um útreikninga hennar á afkomu frystihúsa og annarra fiskverkunarstöðva. Það er a. m. k. fleirum en mér hulin ráðgáta hvernig það getur átt sér stað að hægt sé að reka útgerð árum og jafnvel áratugum saman með sífelldu tapi án þess að atvinnurekendurnir þurfi að segja sig nema rétt mátulega mikið til sveitar. Kannske er þetta unnt með því að gera út á sjóðina í staðinn fyrir á sjóinn, a. m. k. er orðið talsvert veiðilegt þar um að litast þegar millifærslusjóðir útgerðarinnar fara nú að nálgast 7. milljarðinn. Fer þá að láta nærri að útgerðin hirði hálfan afla sinn úr sjó og hálfan afla sinn úr sjóði.

Ég sagði áðan að Alþ. væri með þessu frv. ætlað að ráðstafa gengishagnaðarsjóði að upphæð 1644 millj. kr. Þetta er þó vart nema hálfur sannleikurinn því að samkv. 2. málsgr. b-liðar 1. gr. þessara laga er ætlast til að Alþ. heimili hæstv. sjútvrh. að ráðstafa um fjórðungi af þessu fé til skammtímalánveitinga í sjávarútvegi án nokkurra fyrirmæla frá Alþ. um hvernig með skuli fara. Sama upphæð og sömu ákvæði eru í sambærilegum lögum sem afgreidd voru frá Alþ., fyrir fáeinum mánuðum. Verði þetta ákvæði samþykkt óbreytt mun hæstv. sjútvrh. hafa fengið á þessum vetri alls 800 millj. kr. til ráðstöfunar til lánveitinga í sjávarútvegi. Skyldi hæstv. fjmrh. ekki gjarnan vilja fá slíka heimild við afgreiðslu fjárlaga — að Alþ. heimilaði honum að ráðstafa t. d. þriðjungi af framkvæmdafé fjárlaga eins og hugurinn girnist? Hæstv. sjútvrh, hefur sagt að að vísu hafi hann ekki látið leggja þetta fé inn á tékkareikning hjá sér og deilt svo ávísununum út með jólakertum og nýárskveðjum. Hann hefur lýst því yfir að þeim 400 millj. kr., sem hann fékk til ráðstöfunar í gildandi lögum hafi verið úthlutað af Fiskveiðasjóði að fengnum tillögum viðskiptabanka sjávarútvegsins sem svo ábyrgðust endurgreiðslu á því fé. En það breytti ekki því að samkv. ákvæðum frv. eins og þau eru ber sjútvrh. ekki að hafa þennan háttinn á. Alþ. selur honum sjálfdæmi í málinu. Samþykki það frvgr. óbreytta hefur hann í sínum höndum úrslitavald um ráðstöfun fjárins svo og um einstakar lánveitingar, en ekki þær stofnanir sem eðlilega ættu með að fara. Og hver er kominn til með að segja að ef það fordæmi verður sett sem nú er verið að setja, þá muni sjútvrh., annaðhvort nú eða í framtíðinni, ef slíkar ráðstafanir verði gerðar — og á ég þá ekkert frekar við þann ágæta mann, sem nú gegnir því embætti, en þá aðra sem kunna að setjast í sæti hans, — hver er kominn til með að segja að verði ráðstöfunarvald yfir slíku fjármagni sett óskorað í hendur ráðh., þá muni hann ekki hafa afskipti annaðhvort af einstökum lánveitingum eða heildarráðstöfun fjárins? Í frv. er ekkert sem bannar honum það. Þvert á móti er beinlínis verið að ýta undir að hann geri það með því að fá honum þetta vald í hendur. Ég tel það mjög óhyggilegt, hver sem í hlut á, að pólitískum ráðh., sem á ýmissa hagsmuna að gæta, sé fenginn svo skilmálalaus ráðstöfunarréttur á fjármagni sem hér um ræðir. Verði það gert er nánast hreinn skrípaleikur að vera að hafa það yfirbragð á málinu að Alþ. sé að útdeila fénu. Hvílíkur skrípaleikur það er sést best á því að ógerningur hefur verið að fá nákvæmlega upplýst hér á Alþ. hvernig þessu fé hefur verið ráðstafað til þessa, hverjir hafa notið þess og hvers vegna.

Annað atriði í þessu sambandi vil ég einnig nefna. Sé það slíkur kross á hæstv. ráðh. að eiga að ráðstafa þessu fé eins og heyra mátti í ræðu hans við 1. umr. þessa máls, hvers vegna leggur hann þá slíkt ofurkapp á að fá frv. samþ., einmitt þannig sem það er úr garði gert? Hæstv. ráðh. hefur sagt að þeim 400 millj. kr. sem komu í hans hlut, ef svo má segja samkv. nýlega samþykktum lögum hafi verið úthlutað Fiskveiðasjóði samkv. till. viðskiptabanka sjávarútvegsins og að þann hátt hyggist hann hafa á áfram. Gott og vel. Við hv. þm. Garðar Sigurðsson höfum flutt brtt. við síðari málsgr. b-liðar 1. gr. þessa frv. á þskj. 580, þar sem við leggjum til að einmitt þessi framkvæmdamáti, sem ráðh. segist vilja hafa, verði lögfestur. Og fyrst sá er vilji hæstv. ráðh. um framkvæmdina, er honum þá nokkuð að vanbúnaði að samþ. þá till.? Vilji hann það ekki er ástæðan einfaldlega sú að krossinn er honum ekki jafnþungur á baki og hann vill vera láta. Þá er ástæðan sú að hann vill hvað sem tautar og raular fá einn og sjálfur að hafa síðasta orðið um ráðstöfun fjórðungs gengishagnaðarsjóðsins, Hvers vegna skyldi hæstv. ráðh. endilega vilja hafa það vald ef hann hyggst ekki beita því?

Um önnur atriði 1. gr. þessa frv. mætti einnig ræða. T. d. gæti talist eðlilegt að breyta nokkuð ákvæðum um upphæðir samkv., c- og d-lið gr., t. d. á þann veg að óafturkræft framlag til Fiskveiðasjóðs til að greiða fyrir lánveitingum til tækjakaupa og endurbóta á eldri fiskiskipum yrði lækkað eitthvað, en á móti yrði aukið það fé sem varið er samkv. g-lið til að bæta eigendum fiskiskipa tjón sem þeir verða fyrir séu skip þeirra dæmd ónýt og tjónið ekki bætt með öðrum hætti. Þær 50 millj. kr., sem verja á í þessu skyni, duga harla skammt.

Þá þykir okkur í minni hl. sjútvn. einnig eðlilegt að sjómenn fái í sinn hlut nokkru meira af gengishagnaðarsjóðnum en frv., þetta gerir ráð fyrir, einfaldlega vegna þess að þeir eiga sama tilkall til hans og atvinnurekendur þeirra. Við höfum þó látið okkur nægja að gera þá lítilvægu brtt. við i-lið 1. gr. að framlagið til orlofshúsa sjómannasamtakanna verði hækkað úr 12 millj. kr. í 20 millj., en eftirstöðvar gengismunarsjóðs til síðari tíma ráðstöfunar minnki þá samkv. því.

Þau verðmæti, sem standa á bak við gengishagnaðarsjóðinn, eru sköpuð af öllum þeim aðilum sem starfa við sjávarútveg og fiskvinnslu. Þau eru sköpuð af atvinnurekendum og launþegum í útgerð og þau eru líka sköpuð af atvinnurekendum og launþegum í fiskvinnslu. Þó eru það atvinnurekendurnir fyrst og fremst í útgerðinni, en einnig að nokkru leyti í fiskvinnslunni, sem því nær einir eiga að njóta þeirra verðmæta sem gengishagnaðarsjóðurinn býr yfir samkv. ákvæðum þessa frv. Réttur sjómannsins er að nokkru leyti viðurkenndur í frv., en réttur fiskverkunarfólksins ekki. Ég geri mér auðvitað ljóst að mjög erfitt er að láta eitthvað af fjármunum sjóðsins renna til verkafólks í fiskiðnaði með svipuðum hætti og frv. gerir ráð fyrir gagnvart sjómönnum. Sjómenn eru afmörkuð starfsstétt með sérstök stéttarfélög, sérstakar orlofshúsaframkvæmdir og í flestum tilvikum sérstaka lífeyrissjóði. Verkafólk í fiskiðnaði deilir sínum félagsmálum hins vegar með öðru verkafólki svo að erfitt er að skilja þar á milli. Þó er unnt að ganga talsvert til móts við þetta verkafólk í frv. eins og þessu ef vilji er fyrir hendi. Það er t. d. hægt að gera á þeim grundvelli sem lagt er til í 1. brtt. okkar á þskj. 580, þar sem lagt er til að hluta af því fjármagni, sem til ráðstöfunar er til skammtímalánveitinga, verði varið til lánveitinga til fiskverkunarstöðva til þess að flýta framkvæmdum við að bæta hreinlætisaðstöðu og aðra aðbúð verkafólksins sem mjög víða er ábótavant. Mikið hefur verið gert í þessum málum á undanförnum árum, einkum af ákveðnum aðilum í fiskverkun, en þó er enn langur vegur frá að ástandið sé komið í gott horf. Hér er um talsvert fjárfrekar framkvæmdir að ræða sem þó verður að vinna og fiskvinnslufyrirtæki verða að verja fjármunum til sem þau ella gætu haft til annarra nota. Því kæmi sérstök bráðabirgðalánafyrirgreiðsla í þessu skyni til að flýta slíkum framkvæmdum fiskvinnslufyrirtækjunum ekki verr en önnur lánafyrirgreiðsla til annarra verkefna. Eini munurinn er sá að ef sú leið yrði valin, sem minni hl. sjútvn. leggur til, þá fengi verkafólkið einnig að njóta þess með óbeinum hætti. Þá væri einnig verið að reyna að viðurkenna í verki að það aetti líka tilkall til þeirra fjármuna sem það hefur átt þátt í að skapa og Alþ. er nú að ráðstafa. Ég fæ ekki séð að þessi till. okkar breyti neinu til eða frá um eðli og inntak þeirrar sérstöku lánsfjárfyrirgreiðslu sem síðari málsgr. b-liðar 1. gr. frv. gerir ráð fyrir. Hún getur staðist út af fyrir sig sjálfstæð þótt fyrri málsgr. brtt. okkar verði felld, og ég vona að hún hljóti stuðning hv. alþm.

Ágreiningurinn um 1. gr. er ekki ágreiningur um meginefnisatriði nema að mjög óverulegu leyti, heldur fyrst og fremst um einstök framkvæmdaatriði. Ágreiningurinn, sem í nefndinni er um 2. gr. frv., er hins vegar mjög djúpstæður efniságreiningur. Minni hl. nefndarinnar er algerlega á móti því meginmarkmiði greinarinnar að efla enn um allan helming millifærslusjóðakerfið í sjávarútvegi sem er eðlilegri starfsemi atvinnugreinarinnar fjötur um fót og býður upp á gróflega misnotkun. Minni hl. nefndarinnar finnst eðlilegast að olíuverðshækkunin verði bætt útgerðinni með hækkuðu fiskverði sem vitað er að fiskverkendur geta borgað. Slíkt er eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun sem kemur þeim mest að gagni sem hagkvæmastan reksturinn hafa og gæta vilja eðlilegs sparnaðar í olíunotkun, þar sem hins vegar millifærslu- og niðurgreiðsluleiðin ýtir undir algert hömluleysi, leggur þyngstu útgjöldin tiltölulega á þá sem best standa sig og gerir það að verkum að fela raunverulegt kostnaðarverð þeirra verðmæta, þ. e. a. s, olíunnar, sem menn eru að fara með. Slíkt kerfi hlýtur ávallt að vera óæskilegt og mjög viðsjárvert, enda er það samdóma álit allra þeirra hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem nefndin hafði tal af. Enginn þeirra mælti því kerfi bót sem 2. gr. frv. leggur til. Allir, hvort heldur þeir voru málsvarar sjómanna, málsvarar útgerðarmanna eða málsvarar fiskverkenda, — allir lögðust mjög eindregið gegn því að hún yrði farin, af mjög svo eðlilegum og auðskiljanlegum ástæðum.

Áður en vikið er að efni 2. gr. sem gerir ráð fyrir því hvernig bæta eigi útgerðinni kostnaðarhækkun hennar vegna hækkunar á olíuverði eingöngu, er rétt að reyna að gera sér nokkra grein fyrir stöðu útgerðarinnar í landinu almennt. Að beiðni minni lét Þjóðhagsstofnunin sjútvn, Nd. í té útreikninga á hækkun helstu rekstrarkostnaðarliða útgerðar, annarra en olíu, frá ársbyrjun 1975 til marsverðlags 1975, miðað við heilt ár. Fyrir einstaka stærðarflokka fiskiskipa eru þessar tölur sem hér segir:

Hækkun nokkurra rekstrarliða útgerðar frá ársbyrjun 1975 til marsverðlags 1975 á ársgrundvelli:

Bátar án loðnu, hækkun rekstrarliða 551 millj.

Loðnuveiðar, hækkun rekstrarliða 70 millj. kr.

Minni skuttogarar, hækkun rekstrarliða 184 millj. kr.

Stærri skuttogarar, hækkun rekstrarliða 96 millj. kr.

Samtals hækkun rekstrarliða á ársgrundvelli á öllum flotanum 901 millj. kr.

Þjóðhagsstofnunin gerir m. ö. o. ráð fyrir því að heildarhækkun á öðrum rekstrarliðum útgerðar en ollu verði á ársgrundvelli miðað við marsverðlag 1975 rétt röskar 900 mill. kr. Í aths. með þessu frv., neðst á bls. 2, stendur að skipshluturinn af fiskverðshækkuninni, sem varð í febr. s. l., muni nema á árinu um 900 millj. kr. til útgerðarinnar eða sömu heildarupphæð og hækkun annarra rekstrarliða en olíu á árinu. Fiskverðshækkunin frá 14. febr. mun því nægja til þess að mæta umræddum kostnaðarhækkunum útgerðar í heild, að undanskildum hækkunum vegna olíu þótt hún komi að sjálfsögðu ójafnt niður á einstaka stærðarflokka fiskiskipa eins og kostnaðarhækkun rekstrarliðanna er mismikil. Einkum mun afkoma bátaflotans verða örðug á árinu jafnvel svo að sennilegt er talið að um helmingur flotans verði á Aflatryggingasjóði. Sá furðulegi hlutur getur þó gerst í sambandi við það fyrirkomulag að þótt skip lendi á Aflatryggingasjóði getur útgerð þess þó gengið sæmilega vel og er það eitt út af fyrir sig röksemd fyrir hversu varhugavert þetta sjóðakerfi er og hvernig unnt er að sniðganga það.

Af þeim tölum, sem ég hef að framan rakið, má sjá, að útgerðin hefur nú þegar fengið í fiskverðshækkuninni frá 14. febr. bættar þær kostnaðarhækkanir sem orðið hafa og verða á öðrum rekstrarliðum en olíu, Þess er að vænta að enn kunni fiskverð eitthvað að geta hækkað og ætti sú hækkun a. m. k. að geta nægt fyrir ófyrirséðum hækkunum á rekstrarliðum, sem verða kunna, og jafnvel heldur betur. Samkv. þessu er því hægt að líta á olíudæmið eitt út af fyrir sig.

Um s. l. áramót var verð á gasolíu til íslenskra fiskiskipa kr. 5.80 á hvern lítra. Niðurgreiðslan úr Olíusjóði nam þá kr. 8.50 með hverjum lítra. 11. jan. s. l. hækkaði olíuverð í 8.20 á lítra og 19. febr. í kr. 11.70 á lítra, en niðurgreiðslur úr Olíusjóðnum héldust óbreyttar. Þessi verðhækkun á olíunni er talin nema 1000 millj. kr. útgjaldaauka hjá útgerðinni á einn ári. Það eru sem sé þessar 1000 millj. kr. sem á vantar til þess að afkoma útgerðarinnar í heild geti orðið sú sama á árinu 1975 og hún var á árinu 1974 að öllu öðru óbreyttu. Það er svo önnur saga að liðið hafa ár og dagar áður en ríkisstj. lagði fram till. sínar um ráðstafanir til þess að bregðast við þessum vanda og á meðan hefur útgerðin væntanlega verið skuldfærð fyrir olíuverðshækkuninni.

Með till. ríkisstj. í 2. gr. þessa frv. er ráð fyrir því gert að bregðast við þessum olíuvanda með þeim óeðlilega hætti að greiða alla olíuverðhækkunina niður. Hún ætlar að afla fjár með hækkunum á útflutningsgjöldum í því skyni að halda olíuverðinu til fiskiskipa óbreyttu í 5.80 á lítra, enda þótt hið raunverulega olíuverð sé nú kr. 20.20 á lítra. Niðurgreiðslurnar ættu því að nema alls kr. 14.40 á lítra, hvorki meira né minna, eða um 3/4 hlutum hins raunverulega olíuverðs. Hvaða afleiðingar hefur þetta? Þetta hefur að sjálfsögðu þær afleiðingar að menn eru sér allsendis óvitandi um raunveruleg verðmæti þess sem þeir eru að fara með, í þessu tilviki verðmæti olíunnar. Menn geta sagt sér það sjálfir hvort tilhneiging yrði til þess að reyna að fara sparlega með olíu þegar aðeins þarf að greiða fyrir hana 1/4 raunverulegs verðs, svo að ekki sé talað um þá misbeitingarhættu sem í slíku felst og við íslendingar þekkjum mætavel úr langri og erfiðri niðurgreiðslusögu. Þessi röksemd ein út af fyrir sig ætti því að nægja til þess að hræða menn frá þessari óeðlilegu niðurgreiðsluleið.

Í annan stað er með þessu móti óbeint verið að leggja þyngstu byrðarnar á þá útgerðarmenn sem bestan rekstur hafa og mesta nýtni og gætni sýna, en verið að lyfta undir skussa og óráðsíumenn. Það er sem sé verið að vinna beinlínis á móti eðlilegum og skynsamlegum rekstrarháttum í þeirri atvinnugrein landsmanna sem mest á ríður að sé vel og skynsamlega rekin.

Í þriðja lagi er með þessu móti í reynd verið að velta hluta olíuverðshækkunarinnar yfir á sjómenn. Það liggur auðvitað í augum uppi því að ef fiskverkendur væru ekki skattlagðir með þessum hætti gætu þeir greitt hærra fiskverð sem þá rynni að hluta til sjómanna. Eins og nú standa sakir, koma aðeins um 58% af raunverulegu aflaverðmæti hvers skips til hlutaskipta. Verði frv. þetta samþ. óbreytt er búið með skattlagningu og öðrum sambærilegum ráðstöfunum að taka svo mikið af óskiptu að aðeins 46–48% af raunverulegu aflaverðmæti koma til hlutaskipta, Þessi viðsjárverða þróun, sem beinist að því að hafa umsamið kaup af sjómönnum, hefur leitt til þess að sjómannasamtökin íhuga nú í fyllstu alvöru að hætta að semja á grundvelli hlutaskipta, en semja þess í stað um fast kaup.

Í fjórða lagi er með ákvæðum 2. gr. mjög verið að mismuna einstökum framleiðsluþáttum í sjávarútvegi með því að taka upp mishátt útflutningsgjald á einstökum afurðum. Raunverulega verka þessi ákvæði nákvæmlega eins og mismunandi gengisskráning fyrir mismunandi afurðir. Ég átti sannast sagna von á öðru af hálfu þeirra sjálfstæðismanna en að þeir tækju ábyrgð á því að innleiða í meginatriðum sambærilegt kerfi á við það sem Framsfl. bar höfuðábyrgð á áður fyrr og fyrsta og eitthvert besta verk viðreisnarstj. var að afnema.

Í fimmta lagi er svo með ákvæðum 2. gr. verið að byggja upp risavaxið millifærslu- og sjóðabákn í undirstöðuatvinnugrein landsmanna — bákn sem leggjast mun eins og helsi um háls þessarar atvinnugreinar. Ég veit ekki hvort menn gera sér fulla grein fyrir því hve viðamikið þetta millifærslubákn verður verði frv. samþ. Nefnd hefur verið talan 6 500 millj. kr., sem yrðu bundnar í sjóðakerfi sjávarútvegsins með þessum hætti, en best held ég þó að málið skýrist með því að menn athugi hve hátt útflutningsgjaldið, grundvöllur millifærslukerfisins, verður orðið eftir samþykkt þessa frv. Þjóðhagsstofnunin gaf sjútvn. Nd. einnig upplýsingar um það og ég tel rétt að láta þær koma fram hér og nú. Í skýrslu Þjóðhagsstofnunarinnar segir:

„Að þessu frv. samþykktu verða útflutningsgjöld af nokkrum helstu sjávarafurðum 1975 sem hér segir:

Af frystum fiskflökum 15.1%,

Af frystum humri, rækju og hörpudiski 16.9%.

Af óverkuðum saltfiski 18.3%.

Af skreið 14.9%.

Af fiskmjöli 16.9%.

Af loðnumjöli 17.9%.

Af loðnulýsi 17.9%.“

Einn ókosturinn er þó eftir enn og hann varðar sjálfa framkvæmd málsins. Í 2. gr. frv., er ráð fyrir því gert að útflutningsgjaldið, sem leggja á samkv. ákvæðum gr., verði innheimt af sjávarafurðum sem framleiddar voru eftir 15. febr. s. l., en á tímabilinu frá þeirri dagssetningu og þar til frv. þetta gæti orðið samþ. sem lög hafa liðið 3 mánuðir. Á þeim tíma hafa útflytjendur keppst við að koma frá sér framleiddum sjávarafurðum, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, er ógerningur að ná útflutningsgjaldi af nema hluta þess útflutnings. Enginn veit því hvort útflutningsgjaldið muni skila nægum tekjum til Olíusjóðs fiskiskipa á þessu ári. Um það renna menn algjörlega blint í sjóinn. Verði útflutningsgjaldinu haldið óbreyttu á næsta ári mun það hins vegar skila talsvert meiru fé í Olíusjóð en þá kynni að vanta að óbreyttum ytri aðstæðum og þar með erum við sem sé komnir með varanlegan sjóð upp í hendurnar sem tekur inn meira en hann lætur í té. Þótt hæstv. ríkisstj. keppist við að lýsa þeirri skoðun sinni að hún sé á móti þessu sjóðafargani, milli þess sem hún eykur við það, þá grunar mig að það sé auðveldara fyrir hana að stofna til þess en að afnema það aftur. Hæstv. ráðh. gætu nefnilega tekið sér í munn orð Páls postula: Það góða sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það illa, sem ég ekki vil, það gjöri ég.

Við stjórnarandstæðingar erum algerlega andvígir þeirri stefnu stjórnvalda, sem fram kemur í 2. gr., að mæta olíuverðshækkuninni til fiskiskipa með auknum útflutningsgjöldum, sjóðastofnun og niðurgreiðslu á olíuverði. Við teljum að þann vanda eigi að leysa með nærtækasta hætti, þ. e. a. s. með því að hækka fiskverð. Sú hækkun útflutningsgjalda, sem ráð er fyrir gert í 2. gr. frv. er talin kosta fiskverkendur sama fé og 11% fiskverðshækkun. Sú fiskverðshækkun mundi kosta fiskverkendur um 1450 millj. kr. á ársgrundvelli, en um 1100 mill. kr. sé miðað við sama tíma og útflutningsgjaldið á að gilda. Ef 11% fiskverðshækkun kæmi í stað útflutningsgjaldahækkunarinnar og sú fiskverðshækkun kæmi til skipta eftir skiptareglum, eins og sjálfsagt og eðlilegt er, mundi útgerðin því skorta um það bil 250 millj. kr. til þess að jafna sinn hlut vegna olíuverðshækkunarinnar samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunarinnar.

Nú er það vitað mál að a. m. k. sumir fiskkaupendur telja sig geta greitt meira verð fyrir fisk en það lágmarksverð sem í gildi er og þeir gera það. Því er alls ekki svo fráleitt að áætla að fiskverkendur, væri þeim sleppt við útflutningsgjaldið, gætu greitt a. m. k. 13% hærra verð fyrir bolfisk en það lágmarksverð sem nú er greitt. Þetta er raunar ákaflega líklegt samkv. þeim upplýsingum, sem menn hafa og samkv. þeim dæmum, sem eru á flestra vitorði um aukagreiðslur sem inntar eru af hendi. Því leggjum við í minni hl. sjútvn. til að 2. gr. verði algerlega felld niður í núverandi mynd, en þess í stað samþ. grein sem geri ráð fyrir 13% fiskverðshækkun frá og með 15. febr. s. l. er standi út árið, nema um annað og hærra verð semjist í sambandi við fiskverðsákvarðanir á tímabilinu.

Verði fiskverð hækkað sem þessu nemur mun hlutur útgerðarinnar af því skapa henni auknar tekjur á árinu sem mundi nema um eða yfir 800 millj. kr. Þá mundi vanta milli 100 og 200 millj. kr. til þess að ná þeim 950–1000 millj. kr. sem áætlað er að olíuverðshækkanirnar muni kosta útgerðina. Sjálfsagt væri hægt að vinna þetta upp að einhverju leyti með betri nýtni. Menn færu sparlegar með þegar þeir þyrftu að borga meiri hl. af raunverulegu olíuverði heldur en þeir gera nú. En til þess að gera ekki ráð fyrir frekari byrðum á útgerðina en orðnar eru leggjum við í minni hl. sjútvn. einnig til á þskj. 580 að ríkisstj. verði heimilað að ráðstafa allt að 200 millj. kr. úr ríkissjóði til þess að auka niðurgreiðslur á olíuverði til fiskiskipa fyrir milligöngu Olíusjóðs, sýni það sig að útgerðin geti ekki mætt kostnaðaraukanum af eigin rammleik með tekjum af hækkuðu fiskverði. 200 millj. kr. eru ekki mikið fé í fjárlögum upp á tæplega 50 þús. millj. kr. og þá síst er í hlut á undirstöðuatvinnuvegur landsmanna sem stendur undir rekstri þjóðarbúsins og nýtur engra beinna styrkja úr ríkissjóði þrátt fyrir mjög erfitt árferði. Ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á að það vafðist ekki lengi fyrir mönnum að verja allt að 750 millj. kr. á einu ári til þess að greiða niður verð á innfluttum áburði til landbúnaðarframleiðslu á sama tíma og offramleiðslan í þeirri atvinnugrein mun kosta ríkissjóð um 1300 millj. kr. á ári í útflutningsuppbætur. Sú ákvörðun var tekin því sem næst á einni nóttu. Hækkunin á áburðarverðinu er af nákvæmlega sömu rótum runnin og hækkun á olíuverði til fiskiskipa. Þeir hinir sömu menn, sem ekki horfa í það að verja allt að 700 millj. kr. á heilu ári af almannafé í niðurgreiðslu á verði áburðar, ættu því ekki að láta það hlaupa fyrir hjartað á sér þótt orðað sé að veita ríkisstj. heimild til að greiða 200 millj. kr. úr ríkissjóði, um 0.4% af fjárlögum, til þess að styðja sjálfan undirstöðuatvinnuveg landsmanna í tímabundnum erfiðleikum.

Sú leið, sem við hv. þm. Garðar Sigurðsson leggjum hér til, að snúa af braut hins viðsjárverða millifærslukerfis, en mæta olíuverðshækkuninni til fiskiskipaflotans með hinni eðlilegu ráðstöfun, fiskverðshækkun, sömu ráðstöfun og hækkun á öðrum kostnaðarliðum útgerðarinnar á árinu hefur verið mætt með, — þetta er heilbrigð leið sem nýtur stuðnings allra þeirra aðila sem hér hafa hagsmuna að gæta. Hún er heilbrigð, hún er eðlileg og hún er raunhæf. Hún er í stuttu máli sagt algerlega andstæð þeirri sem 2. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir. Mér er ljóst að sá málstaður, sem við túlkum, á fylgi langt inn í raðir núv. stjórnarliða og þá e. t. v. ekki síst inn í raðir Sjálfstfl., en þm. hans þurfa nú að horfa upp á hver grundvallaratriðin af öðrum í stefnu flokksins um eðlilegan og heilbrigðan rekstur atvinnulífsins þverbrotin.

Ég sagði við 1. umr. þessa máls að svo virtist vera að það væri ekki Framsfl. sem sveiflaðist til í pólitíkinni eftir því með hverjum hann starfaði, heldur Sjálfstfl., því að það fer ekki á milli mála að það bragð, sem er af þessu frv., er hafta- og millifærslubragð Framsfl., bragðið af þeirri stefnu í efnahagsmálum sem flokknum var kennd fyrir 30 árum og hann hefur ekki getað gleymt síðan. Úrslitin í atkvgr„ sem mér skilst að væntanlega fari fram hér á eftir, munu þá leiða í ljós hver það er sem genginn er í húsmennsku hjá hverjum.