07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3618 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Í sjálfu sér er ekki nein ástæða fyrir mig sem frsm. hv. sjútvn. að halda hér langa tölu. Mér þykir þó rétt að þakka meðnm. mínum og reyndar öðrum ræðumönnum, sem hafa hér rætt efnislega um það vandamál sem við höfum haft til meðferðar, sérstaklega þó nm., þátt nokkuð hafi svo slegið út í fyrir ekki aðeins einstaka meðlim úr þeirri ágætu n., heldur og þó sérstaklega hv. síðasta ræðumanni. Það er í sjálfu sér ekki nýtt þótt það hendi þann hinn stóra og mikla bolvíking að slá út í fyrir honum þegar hann tekur til máls hér á hv. Alþ. En ég held að við verðum að fara til þess sem útgerðarmenn halda oft á tíðum fram og óneitanlega á við nokkur rök að styðjast, að kostnaðarhækkun útgerðar á ekki endilega að leiða til launahækkunar. En það er það sem hefur oft á tíðum komið fram hjá okkur sjómönnum í sambandi við gengislækkanir. Hinu skulum við ekki gleyma, að ég minnist þess aldrei að um leið og útgerðarmenn hafa haldið þessu fram hafi þeir viljað viðurkenna að kostnaðarhækkanir í heimilisrekstri sjómannsins yrðu teknar til greina á einn eða annan hátt, og m. a. vegna þess eru komnar fram, að sumum þykir, óbilgjarnar kröfur þeirra. Og þetta auðvitað á ekki við sjómanninn einan, heldur og aðra launþega sem hlut eiga að máli.

Við getum sjálfsagt ráðið fram úr vissu vandamáli í sambandi við yfirborganir á fiskverði með einni lausn sem hefur reyndar oft á tíðum komið fram opinberlega og er líklega ekki frambærileg nema í stærstu útgerðarstöðum landsins. Ég á þá við lausn gagnvart þeim aðilum í fiskverkun sem yfirborga í fiskverði. Það er auðvitað hreinn misskilningur, sem hefur komið fram hér hjá ræðumönnum að ég hafi haldið því fram að þetta þekktist í öllum rekstri útgerðar, hjá öllum aðilum sem fisk kaupa og verka. Það hafa aldrei verið mín orð, og ég held að gagnvart, þeim sem koma á fund n. bæði frá frystihúsum bæði Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og frá Sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga og öðrum aðilum sem þar voru til viðræðna, hafi engin gagnrýni komið um að slíkt ætti sér stað. Þessi gagnrýni á séreingöngu stað gagnvart þeim aðilum sem verka saltfisk og það virðist vera svæðisbundið hér við Suðvesturlandið, og sú gagnrýni hefur réttilega verið stutt ýmsum rökum sem mér finnst enn að þurfi að mótmæla frá þessum sömu samtökum sem þarna eiga hlut að máli.

Auk þess held ég því skilyrðislaust fram, eins og ég sagði í minni framsöguræðu hér í kvöld, að það virðist svo vera að einstaka sölusamtök, sem fara með sölu á afurðum, að vísu fyrir marga hópa, marga einstaklinga, geti komist hjá því eftir því sem þau vilja að gefa upp það verð sem á svo að miða við í verðlagningu hér heima. Þetta er óþolandi, það stend ég við. Ég hef aldrei nokkurn tíma látið mér það um munn fara að þar ætti ég við hraðfrystihúsaiðnaðinn eða neina aðra en þá sem hafa látið þetta fara frá sér sjálfir vegna þess að kannske hafa þeir álitið að þegar þeir kæmu næst til Portúgal yrðu þeir sjálfir hengdir þar. En alla vega getur þetta ekki gengið til lengdar fyrir viðsemjendur þeirra sem fisk kaupa, bæði útgerðarmenn og sjómenn. Þarna verður að setja einhverjar hömlur á. Og ég vil skora á hæstv. Sjútvrh. að beita sér fyrir því að það verði gert áður en upp verði staðið á þessu þingi eða þá alla vega á milli þinga.

Við ræðum hér margoft, eins og ég kom að áðan, um minnkandi hlut sjómanna. Vissulega erum við að tala um minnkandi hlut sjómanna um leið og slíkar ráðstafanir eru gerðar. Og ég gat um það fyrr í kvöld að á nokkrum árum erum við komnir frá því að hafa hundrað prósent skipti eftir hlutaskiptareglum sjómanna og útgerðarmanna og komnir niður í það að um það bil 50% koma til skipta. Við vitum af hverju þetta hefur verið gert. Ein ástæðan er sú, sem ég hef ekki heyrt einn einasta mann minnast á í kvöld, að ef við hefðum átt að fylgja hlutaskiptareglunum á þann veg að sjómenn hefðu fengið samkv. þeim hækkun á sínum launum við hverja gengisfellingu, sem framkvæmd hefur verið á undanförnum árum, hefði það þýtt að þeir hefðu verið um það bil komnir 200% fram úr launum verkamanna áður en nokkurn varði. Dettur nokkrum manni í hug, að verkamenn, hafnarverkamenn og fiskvinnslufólk, hefðu setið á sínum rassi og sagt: Við skulum taka þátt í bágum kjörum þjóðarinnar — dettur nokkrum í hug að þeir hefðu setið og látið það afskiptalaust ef þessi hópur hefði tekið þetta einfaldlega með gengislækkuninni. Ég bið þá, sem hér hafa talað eins og börn, að vera ekki eins og börn í allri framkvæmd þegar þeir horfa til slíkra hluta. Og þetta ætti auðvitað bolvíkingurinn fyrst og fremst að vita og hafa í huga því að hann þarf að semja fyrir fleiri en sjómenn. Hann þarf líka að semja fyrir verkafólk sem í landi vinnur.

Hann minntist m. a. á það að e. t. v. séum við að fremja hér helgispjöll með því að vinna nokkuð fram yfir miðnætti og fram á uppstigningardag. Ég vænti þess að jafn trúaður maður og hann geti þá bara farið fram á gang og sungið sinn sálm sem hann syngur stundum hér í þingsal. Við munum ekki lá honum það. En hins vegar er ég alveg á því og mun eindregið styðja það að við afgreiðum málið hér í nótt. Við erum búnir að vera með þetta mál nú til meðferðar töluvert á annan mánuð. (Gripið fram í.) Já, við erum búnir að vera með það í 8 daga með stjórnarandstöðunni, sem er nákvæmlega sá tími sem þeir eiga hlutfallslega miðað við stjórnarliðið, þeir eru ekki fleiri. Hver sólarhringur sem líður áður en búið er að ákveða það sem verið er að gera, þýðir milljónatuga tap fyrir ríkissjóð og fyrir þá sjóði og atvinnufyrirtæki sem við erum að leitast við að uppfylla í sambandi við það frv. sem hér liggur fyrir. Og ef við ætlum að fara að tyggja á þessu enn lengri tíma vegna þess að fulltrúar úr stóru flokkunum, hv. þm. Karvel Pálmason og aðrir slíkir, ætla að fara að reyna að tefja það, þá munum við hreinlega ekki láta það viðgangast. Við skulum hins vegar hlusta á allt sem þeir hafa að segja, eins og við höfum gert í hv. n. og mun verða gert í n. hv. Ed.

Ég sé enga ástæðu til þess að fara að tefja þetta mál með efnislegum umr. við aðra aðila utan þings úr þessu. Það er búið að tala við alla og þeir hafa allir tjáð sig.

Hv. þm. Karvel Pálmason hafði nokkurn efa á því að þetta frv. mundi fyrirbyggja atvinnuleysi, um leið og hann talaði um stórfellda kjaraskerðingu fyrir sjómannastéttina, sem ég er ekki enn þá farinn að heyra í hverju sé fólgin og sé stórfelld í sjálfu sér. Þetta er kjaraskerðing miðað við gildandi hlutaskiptareglur, það er rétt. En þá kemur aftur hin spurningin á móti: Á kostnaðarhækkun útgerðar að valda launahækkun hjá viðsemjendum? Þetta er spurning, sem við verðum einhvern tíma að standa frammi fyrir og svara. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hjá sjómönnum og kannske sérstaklega þeim, sem eru í verkfalli í dag sem hann kom nokkuð inn á og ræddi um, þar er lagfæringar þörf og þar þurfa góðmenni að taka höndum saman til þess að leysa það vandamál. Það þýðir ekki fyrir þennan hv. þm. að segja um leið að það hafi ekkert verið gert af hendi ríkisstj. til þess að leysa vandamálið. Það hefur verið komið einmitt til móts við sjómenn í bátakjarasamningunum með aðgerðum sem einnig munu gilda fyrir togarasjómenn og alla sjómenn, fiskimenn: Sérstakar aðgerðir í skattamálum þess efnis að hækka brúttófrádráttinn úr 8% í 10%. Einnig það að stytta það viðmiðunarmark, sem menn þurfa að vera lögskráðir til þess að fá þennan frádrátt, úr 6 mánuðum í 4 mánuði, sem mun auðvitað hafa stórkostleg áhrif fyrir aðila eins og skólapilta sem koma til stutts tíma dvalar á skipum og t. d. þá sem stunda útgerð og sjómennsku á hinum smærri skipum víðs vegar í kringum land, eins og á Austurlandi, Norðurlandi og jafnvel Vestfjörðum. Þetta tel ég að beri vott um það að ríkisstj. hafi strax sýnt vilja til þess að koma þarna á móti. Auk þess sem þessir sjómenn auðvitað munu njóta þeirra kjarabóta sem koma í gegnum skattkerfisbreytingarnar sem við samþykktum fyrir nokkrum dögum hér á hæstv. Alþ. Auk þess hafa komið fram yfirlýsingar frá hæstv. fjmrh. um að bættur verði hlutur hjá þeim sjómönnum sem eru lengi fjarverandi og þar er m. a. átt við þá fiskimenn sem eru fjarverandi á fjarlægum miðum um lengri tíma og þá sérstaklega átt við þá sem dvelja í Norðursjó og reyndar aðra sem koma heim eftir langa dvöl. Það verður nokkuð horft til þess að endurskoða megi það kerfi sem hefur gilt frá 1968 í sambandi við innflutning fyrir gjaldeyri sem sjómenn fá við vinnu sína erlendis.

Það verður því ekki sagt að ekki hafi verið komið nokkuð á móti og reyndar hef ég ekki heyrt einn einasta ráðh. halda því fram eða tala um að ekki væri sjálfsagt af hendi ríkisstj. að koma á móti til þess að leysa vandamál sjómannanna á skipunum. En það er ekki vandamálið í sambandi við stóru togarana. Vandamálið er útgerðarkostnaður skipanna, og ef við ekki tökum höndum saman um það að koma okkur sjálfum þar niður á einhvern skaplegan grundvöll, þá skulum við láta þá halda áfram að vera í höfn hér í Reykjavík, Akureyri, Hafnarfirði og Akranesi. En ég vil benda hv. þm. Karvel Pálmasyni á að það, sem stundum er talið vera fjötur um fót stærri togaranna hér í Reykjavík, Hafnafirði og Akureyri, er að það hefur m. a. verið brotið niður af honum sjálfum og öðrum sjómannafélögum úti um land sem gera út hina svokölluðu smærri togara og hreinlega hafa leyft sér að semja af sér íslensk lög, vökulögin, og segja: Þau gilda ekki fyrir togara sem eru undir 500 tonnum. — En meðan við erum að reyna að halda í þessi lög sem voru baráttulög íslenskrar sjómannastéttar undir forustu reykvískra sjómanna, þá leyfa aðrir sér, sem úti um land starfa með slíka togara, að brjóta þau og hafa kannske góða afkomu vegna þess. Og ekki er nóg með það, heldur hafa þeir líka samið upp á það í sambandi við lífeyrisssjóði að meðan lífeyrissjóður, sem greiddur er af hinum stærri togurum, áhöfnum stærri togaranna og farskipum, heldur uppi lífeyrissjóðsgreiðslum í lífeyrissjóði sjómanna og reyndar fleirum, þá er samið upp á næsta óraunverulegar greiðslur frá bæði bátum og hinum minni skuttogurum. Væri ástæða til fyrir þennan hv. verkalýðsleiðtoga að líta nokkuð í kringum sig áður en hann fer að gagnrýna okkur sem hér erum í Reykjavík og annars staðar og höfum verið að leita að lausn á þessu vandamáli stærri togaranna.

Ég skal ekki hafa mörg orð fleiri um þetta. En hv. þm. Gils Guðmundsson og reyndar Garðar Sigurðsson einnig voru með nokkrar fullyrðingar sem ég í reynd legg ekki mikið upp úr. Það er ákaflega auðvelt að segja: Við skulum ekki gera neitt innan atvinnuvegarins. Við skulum fara að eins og gert var við bændur, við skulum bara taka þetta úr ríkissjóði og borga það sem á vantar. — Nú vita allir, guð og menn, að það er ekki til króna þar til neins sem heitir, fram yfir það sem þarf að gera frá degi til dags, og ef ég hef ekki rétt orð þar um, þá væntanlega leiðrétta hæstv. ráðh. það hjá mér. En ég ætla samt að svo sé ástatt þar, og því tel ég það út í hött þó það hafi verið gripið til þessara örvæntingarráðstafana á sínum tíma til þess að halda niðri verðlagsvísitölu, að borga þetta niður sem ég persónulega álít að hefði ekki átt að gera, en varð að gera þó eins og ég tók fram í sambandi við þetta mál. Við erum með neyðarráðstafanir ítrekað í efnahagsmálum, og a. m. k. við, sem ætlum okkur að styðja þessa ríkisstj. til þess að ráða fram úr vandamálunum, ætlum að standa við bak hennar til að gera það. Þá álít ég að það sé ekki hægt í dag í sambandi við það vandamál sem við glímum við, þegar við vitum að við getum tekið það frá öðrum hluta sjávarútvegsins, þá getum við ekki sagt: Við skulum bara afgreiða þetta úr ríkissjóði.

Hitt skal ég allt taka undir, að auðvitað á það ekki að þekkjast að það sé hægt í ákveðnum greinum sjávarútvegsins að stela undan — og ég vil undirstrika þetta orð mitt — að stela undan því sem á að koma til heilbrigðra skipta samkv. löggiltum og lögformlegum samningum sjómanna og útvegsmanna. En það er kannske heldur stórt í tekið að fullyrða að svo hafi verið gert. Ég held samt sem áður að við höfum fulla ástæðu til þess að gæta mikillar varúðar að svo verði ekki gert í framtíðinni.

Það er ein hugmynd, sem auðvitað getur komið þarna til hjálpar ef við komum henni í framkvæmd og að sjálfsögðu mundi Reykjavík og kannske hinir stærri löndunarstaðir fiskafla geta komið þar til hjálpar. Það er að aðstoða með fé frá hinu opinbera til þess að koma á frjálsum fiskmarkaði. Það hefur margoft verið rætt um þetta hér í Reykjavík. Þetta mætti gera í Hafnarfirði, Keflavík, Grindavík, Þorlákshöfn og víðar. En hví er þetta ekki gert þá? Það mun koma í ljós hverjir vilja bjóða í þann afla. Þá munum við ákveða lágmarksverðið í gegnum Verðlagsráð sjávarútvegsins. Ef einhver telur sig geta hagnast á því að verka þennan fisk, þá má hann kaupa hann á viðkomandi markaði. Ég held að það væri fyllilega til athugunar fyrir alla aðila, sem um þetta tala, einmitt að hugsa til þessarar lausnar, sem hefur auðvitað verið notuð árum saman í nágrannalöndum okkar,

Ég vil taka undir þau orð sem hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, viðhafði hér í kvöld og það er auðvitað sú áskorun á alla aðila sem hlut eiga að máli, ekki aðeins útvegsmenn, heldur og sjómenn og kannske ekki síst, að þeir taki þátt í þessari nauðsynlegu endurskoðun, sem loksins hefur fengist samstaða um á nokkurn hátt á meðal þessara aðila og þeir eiga að vita að nauðsynleg er fyrir þá sérstaklega, og þar á ég við sjómennina. Og ég held að það væri ákaflega illa farið ef einhver hluti þeirra neitaði að gangast undir það að taka þátt í slíkri endurskoðun því að fyrst og fremst mun hún vera þeim til góðs,

Ég vil svo, virðulegi forseti, aðeins benda þeim ræðumönnum sem hér hafa talað um lánamálin, enn einu sinni á það sem hæstv. sjútvrh. sagði við 1. umr. málsins þegar hann leiðrétti vitleysur, sem komu fram hjá ræðumönnum við 1. umr,, um það að hann væri með ávísanahefti og mundi ávísa til útgerðarmanna og fyrirtækja. Ég hélt satt að segja að þetta hefði komist inn í þykka kolla sumra, en ég heyri það nú við 2. umr. málsins að það hefur ekki verið svo. Og ég vil aðeins undirstrika það sem hann sagði, að þær lánveitingar, sem eru fyrirhugaðar samkv. 1. gr. frv., munu fara fram í gegnum hið opinbera lánakerfi, í gegnum bankana, viðskiptabanka fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækjanna. Þótt að ég geti vel hugsað mér að hæstv. ráðh, hefði þetta tékkhefti í vasanum og nýtti það — ég veit að hann mundi gera það drengilega og vel — þá er það því miður ekki þannig. Það gengur í gegnum hið opinbera lánakerfi.

Ég vil endurtaka þakkir mínar til nm, sjútvn. fyrir gott samstarf og málefnalegar umr.