07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3633 í B-deild Alþingistíðinda. (2750)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Sverrir Hermannsson:

Virðulegur forseti. „Við í minni hl.,“ sagði hv. þm. Garðar Sigurðsson. „Við eplin,“ sögðu hrossataðskögglarnir. Ég kannast ekki við þennan starfsmann úr minnihlutahópnum. Hann var að gegna öðru mikilvægu hlutverki, að kaupa ferju til handa Vestmannaeyjum upp á 700 millj. eða svo, og sagt er að það þyrfti að flytja alla bílaeign Vestmannaeyja fram og til baka á klukkutíma fresti til þess að hún borgaði sig sú ferja. „Við í minni hl.,“ segir Garðar Sigurðsson og kom þar hvergi nærri. Hins vegar féllumst við á að hv. þm. Gils Guðmundsson, skilgóður maður, sem flutti hér ræðu skilmerkilega, fengi að fylgjast með. Hann hafði varla nokkrar meiningar aðrar en okkar. Málið er flókið og vandasamt og eftir langa mæðu komumst við að þeirri niðurstöðu, og þeirra brtt. eru mjög lítils virði og skipta næstum því engu máli í sambandi við heildarniðurstöðuna. Uppi var sú skoðun að ekki skyldi farin sjóðaleiðin, en okkur var ljóst að ekki yrði samið um kaup og kjör á bátaflotanum með því að fara fiskverðshækkunarleiðina. Þetta lá alveg ljóst fyrir (Gripið frsm í: Til útgerðarmanna.) Fiskverðshækkunarleiðina 11% til útgerðarmanna utan skipta. Þessa leið vildi ég fara utan sjóðanna, en fyrir lá að hún yrði ekki samþ. af sjómannasamtökunum. Þetta verður að vera alveg skýrt, Þetta skiptir höfuðmáli vegna þess að við stefnum að því að krækja fram hjá sjóðaleiðinni og nú er sagt að við eflum sjóðina eingöngu vegna þess í þessu brumi snöggvast vegna þeirra örðugleika sem við blöstu, að ekki yrði samið án þess að fara þessa leið.

En það er ekki nægjanlegt að taka sjóðaskipulag sjávarútvegsins til endurskoðunar, heldur þarf að taka allt félagslegt skipulag sjávarútvegsins til endurskoðunar. Þar hefur lengi viðgengist furðuleg ringulreið. Það skiptir sköpum hvort togari er 490 tonn eða 510, og það munar í útgerðarkostnaði og mannaflakostnaði 10 millj. á skip. Hvers vegna? Hvernig stendur á því að þessi mál skuli vera með þessum hætti sem ég hef nú nefnt. Það er mjög einföld skýring á þessu. Þeir, sem hafa ráðið hagsmunasamtökum útgerðarinnar, hafa líka átt verkunina í landi og versla jafnan við sjálfan sig úr hægri vasa í vinstri. Þegar útgerðin hefur átt undir högg að sækja hefur það verið jafnað með því að fiskverkunin gæti undir því staðið og LÍÚ, Landssamband ísl. útvegsmanna, sem á að semja um fiskverð til handa skipaflotanum, hefur fyrir framan sig það fiskverð sem hentar fiskverkuninni. Af hverju? Af því að þeir sem eiga flest skipin, ráða öllu í LÍÚ hvort sem er. (GHG: Þetta er ekki rétt hjá hv. þm.) Ég veit nákvæmlega hvað ég er um að tala. Það má kannske ekki upplýsa þetta. Er Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna smeyk við þetta? (GHG: Vill ekki hv. þm. sanna þetta?) Vill ekki hv. þm. Guðm. H. Garðarsson biðja um orðið og koma með mótrök? Ísbjörninn, Einar ríki Sigurðsson og vestmanneyingar, fiskverkunarstöðvarnar stærstu, hafa ákveðið sjálfar jafnan fiskverðið. Og kenningin var sú að það væri hægt að gera út báta með tapi vegna þess að fiskverkunin mundi geta undir henni staðið. (Gripið fram í: Þær eiga enga báta.) Á fiskverkunin enga báta? (Gripið fram í.) Fiskverkunin á svo marga báta að hún á meiri hl. og hún á meiri hl. atkv. í LÍÚ, Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem selur fiskinn sinn. Svo marga báta eiga þeir fiskverkendur að þeir hafa undirtökin í LÍÚ, sem selur fiskinn sinn til þeirra.

Þetta mál, sem við nú erum að afgr., hefur verið vandasamt. Hér er um miklar fjárhæðir að tefla. Ég vil benda á að það er nýtt sem gert var í haust og nú, að anna lífeyrissjóðs- og tryggingaþörf sjómanna eins og gert er hér. Það er líka nýtt í þröngri stöðu Fiskveiðasjóðs að hann skuli fá óafturkræft lán, framlag upp á 300 millj. Þetta er gert. Það hefur verið yfir þessu vakað og reynt á og togast á um þessa hluti, en ég hef ekki orðið var við að minni hl. stjórnarandstaðan í sjútvn., hafi haft sérstakar till. bitastæðar, andstæðar því sem við leggjum til með þessu frv.

Ég vil láta þá skoðun mína í ljós um leið og ég mæli með, eins og fram kemur á þskj., samþykkt þessa frv. að það þurfi að gera meira en að breyta sjóðakerfi sjávarútvegsins. Það þarf líka að breyta félagslegu skipulagi þessa atvinnuvegar, bæði á sjó og í landi. Þar fara ekki saman heilindi. Það fara ekki saman á milli manna þeirra, sem eiga að stjórna, heilindi og heillaverk. Því fer fjarri. Skipulag sjávarútvegsins er brotalöm gersamleg og það er ekkert undarlegt þótt teygist á þeim lopa að semja um kaup og kjör á stóru togurunum vegna þess að á báðar síður eru engir menn fyrir.