07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3635 í B-deild Alþingistíðinda. (2751)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson) :

Herra forseti. Við höfum heyrt erkibiskupsboðskap um það að á báðar síður séu engir menn fyrir í samningum, og sá, sem mælti hin vísu orð, er einn af frumkvöðlum einstaklingsstórútgerðar hér á Reykjavíkursvæðinu. Ég skal fúslega taka undir þessi orð hans og þó sérstaklega tala um það frá hans kollegum, útgerðarmönnum, að það séu fáir menn þar fyrir.

En það voru ekki þau orð sem ég ætlaði mér að leggja út af, heldur þau sem komu fram í ræðum manna áðan, komu fram frá hv. ræðumönnum stjórnarandstöðunnar og fullyrðingar nm að sjómenn hefðu ekkert fengið. Svona fullyrðingar ítrekaðar, þegar búið er að segja þeim frá því hvað gerst hafi og þeim er fullkunnugt um þetta, að þeir skuli þá koma hér upp og lemja höfðinu utan í míkrafóna fyrir framan sig og segja: „Allt er tóm lygi og ekkert hefur verið gert“, — ég skil ekki svona framkomu. Það er búið að skýra frá því í sambandi við bátakjarasamningana að þá var hækkaður brúttófrádráttur sjómanna á fiskiskipum úr 8% í 10%. Það var lækkaður sá tími sem þeir þurftu og þurfa að vera lögskráðir á skip til þess að fá frádrátt sem mun hafa stórkostlega mikið að segja fyrir þá sem eru á minni skipunum, að ég tala nú ekki um á opnu bátunum víðs vegar í kringum land. Ég gat líka um fleiri hluti sem komið hafa til greina skv. yfirlýsingum hæstv. fjmrh. og nú eru til afgreiðslu hjá honum. Þá njóta þeir auðvitað hins sama og aðrir aðilar í sambandi við skattkerfisbreytingar, sem gerðar hafa verið hér á hæstv, þingi. Þetta er auðvitað alveg út í hött og ég bendi hv. þm. Garðari Sigurðssyni á það að hann sagði ekki orð við því gerræði þáv. stjórnvalda þegar þeir bönnuðu hækkanir fiskverðs um margra mánaða skeið í tíð fyrrv. ríkisstj. um leið og þeir tóku vísitöluna úr sambandi. En það var þó eitt af því fyrsta, sem núv. ríkisstj. gerði, að hækka fiskverðið um 1l%.

Það er önnur fullyrðing sem ég vildi aðeins koma inn á líka, og það er að það hefði verið hægt að láta gengislækkunina ganga til þeirra, sem hlutaskipta njóta, án þess að það hefði haft áhrif annars staðar meðal launþega. Ég bendi á þá almennu skoðun sem var uppi meðal forustumanna launþegasamtakanna 1969, þegar einmitt var talað um að þetta hefði a. m. k. haft mjög alvarleg áhrif á þá samninga, sem gera þurfti og gerðir voru við hin almenna launþegasamtök. Ef hlutaskiptasamningarnir hefðu bókstaflega átt að gilda í orði og á borði við þær tvær gengisfellingar sem nú hafa verið gerðar í tíð þessarar ríkisstj. á nokkrum mánuðum, þá tel ég að það hefði ekki verið nokkurt viðlit að tala um samninga, þótt til skamms tíma séu, eins og gerðir voru við hin almennu launþegasamtök, ef það hefði komið upp úr dúrnum að með gengisfellingunni hefði verið hægt að hækka um kannske 70–80% fiskverð til hlutaskiptasjómanna. Og allir sjá gagnvart því fólki sem enn þá vann og vinnur í fiskverkuninni, að þetta hefði ekki verið á borð leggjandi fyrir það.

Ég skal fúslega viðurkenna það að ég hef haft skökk orð um það sem hv. þm. Karvel Pálmason leiðrétti mig um hér áðan í sambandi við lífeyrissjóð þeirra á Vestfjörðum. En það breytir ekki því sem ég vildi hafa sagt, því að stærri togararnir búa við allt önnur kjör í lífeyrisgreiðslum en hinir smærri togarar. Það er að sjálfsögðu það sem ég vildi koma orðum að, rekstrarmismunurinn, sem var þarna að ræða um. Að sjálfsögðu hafa vestfirskir sjómenn aldrei þurft að sækja á annarra mið um eitt eða neitt.

Ég skal svo taka undir orð síðasta ræðumanns um það, sem hann sagði, að við erum ekki að efla sjóðina. Við erum að halda áfram um stundarsakir því sem fyrir var. Ég þóttist hafa skýrt þetta ákaflega vel í minni framsöguræðu, eins og ég þóttist hafa fundið hjá n., að hún var sammála um og reyndar fleiri, að það var ekki hægt að fara þessa leið, sem um var rætt, að láta koma einhliða fiskverðshækkun 11% til útgerðarmanna einna. Það var að bæta nýrri bót á bót ofan. En þótt við framlengjum sjóðakerfið um nokkurra mánaða skeið eða um mánaðarskeið, hafandi það í huga að það er samróma ósk samninganefndar útgerðarmanna og sjómanna að sjóðakerfið verði tekið til endurskoðunar, þá tel ég að það hafi verið heillavænlegasta leiðin sem valin var, þótt ég geti tekið undir það með öðrum mönnum, sem hér hafa talað, að hin leiðin hefði kannske verið heilbrigðari fyrir alla aðila og þá sérstaklega með það í huga, að sjóðakerfi eins og við búum við í sjávarátveginum getur boðið og býður spillingunni heim. En við eigum þá frekar að taka höndum saman um það, bæði stjórnarfl. og stjórnarandstöðufl., að reyna að mæla með og ýta eftir viðkomandi hagsmunaaðilum að þeir fari alvarlega í þessa endurskoðun, og við eigum þá að vera menn til þess að standa við bakið á þeim og segja: Við skulum hjálpa ykkur við það. Komið þið ykkur saman nm einhverjar nýjar grundvallarreglur, og við skulum þá hér á Alþ. Íslendinga standa með ykkur í að lögfesta þær ef á þarf að halda.