09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3644 í B-deild Alþingistíðinda. (2763)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðum hæstv. sjútvrh. hefur þetta frv. verið lengi í þinginu, en svo undarlega bregður nú við, að sá háttur er viðhafður, sem oft er á hafður í þingstörfum þegar mikið liggur við, að að ósk hæstv, ríkisstj. ern n. beggja deilda kallaðar til fundar sameiginlega til að flýta afgreiðslu mála. Hefði ekki verið óeðlilegt að við hefðum notið þess heiðurs hér í Ed. að mæta á einum fundi, þótt ekki hefði meira verið, fyrst málið er svona mikilvægt eins og hæstv. ráðh. vill vera láta. En við njótum ekki slíks heiðurs hér í Ed. og við það verður að sætta sig. Hins vegar mun ég ekki sætta mig við það að hér verði kallaðir saman skyndifundir í miðjum klíðum uppí í gangherbergjum, eins og oft hefur tíðkast, í svona stórmáli. Vona ég að við njótum þess réttar að hafa eðlilegan fund með smáfyrirvara og getum rætt málið og fengið um það upplýsingar, þrátt fyrir það að málið hafi verið lengi í þinginu.

Ástæðan til þess af hverju málið er svona seint á ferðinni ná í endanlegri mynd mun vera innbyrðis átök í stjórnarflokkunum, og hæstv. ráðh. drap á það lítils háttar að með þetta mál væri eiginlega enginn ánægður og í því fælist ágæti frv. Það er ágæt að hugga sig við að það sé ágætt ef allir landsmenn eru óánægðir með það, sérstaklega þegar það hefur verið gert í þágu ákveðinna aðila, og allir lýsa andstöðu sinni við þetta. En tilfellið er að þjóðin er orðin þreytt á gengisfellingum. Ég held að það sé kjarni málsins. Og menn sjá að gengisfellingar eins og þær hafa verið framkvæmdar undanfarin ár, því miður, af öllum flokkum í hv. Alþ., eru ekki sú allsherjarlausn sem tæknilega getur litið út fyrir að sé. Þegar slíkar óhemjumillifærslur eiga sér stað eins og tvær s. l. gengisfellingar leiða af sér, þá er von að menn séu óánægðir. Hér er verið með tveimur gengisfellingum að færa á milli innbyrðis í sjávarútvegi nærri því fjóra milljarða, og það er ekkert undarlegt að um það séu deildar meiningar hvernig ráðstafa eigi slíku fjármagni, sérstaklega þegar það kemur fram, eins og í þessu frv., að sett eru á ný gjöld eftir að menn hafa tekið ákvörðun um hvernig þeir ætla að standa að sínum rekstri og verka sinn fisk. Það er rétt hjá hæstv. ráðh. að útflutningsgjöld hafa verið löngum mjög mismunandi eftir verkunaraðferðum, en ég held — ég verð þá leiðréttur ef það er rangt — að í flestum eða öllum tilfellum, sennilega öllum tilfellum, hafi menn vitað um þetta fyrir fram og taki þess vegna ákvörðun samkv. því og reikni út sína arðsemi, sem er heilbrigt og er grundvallaratriði í kenningum hans flokks, að menn reki sitt fyrirtæki á heilbrigðan hátt, eða það hefur verið túlkað svo, og beri gæfu til þess að meta aðstæður rétt og velja og hafna. Þess vegna er óánægja þegar komið er aftan að mönnum og það, sem menn töldu skynsamlegt og rétt, er með einu pennastriki rifið niður og eyðilagt. Það getur vel verið að þörfin sé knýjandi í vissum þáttum sjávarútvegsins, ég dreg það ekki í efa, og því miður er yfirstandandi togaraverkfall vísbending um það að einhvers staðar er mjög þröngt fyrir og hart deilt því að það er búið að standa svo vikum skiptir og er komið á annan mánuð og virðist lítil von um lausn á næstu dögum. En einmitt gengisfellingin stuðlar að vandamáli hjá togaraútgerðinni vegna þess hvernig hún var uppbyggð á stuttum tíma á miklum erlendum lánum, og þess vegna er hún ekkert neitt allsherjar bjargráð fyrir þá og þeir voru hvað harðastir að mótmæla þessum aðferðum, að fella gengið svona ótt og títt.

Við í stjórnarandstöðunni munum ekki eiga nokkra minnstu möguleika, miðað við framgang mála og orð manna úr stjórnarliðinu, að hafa hér nokkur áhrif á til breytinga. Hitt hef ég fyrir satt, að á sínum tíma, þótt hæstv. ráðh. kæmi ekki beint inn á það, hafi verið um það munnleg loforð a. m. k. að hér skyldi nóg að gert í þá átt að auka sjóði á vegum sjávarútvegsins sem, eins og hann drap á, öllum þætti vera nóg um. Og að staðfestu þessu frv. held ég að það sé rétt að nálægt 61/2 milljarður sé millifærður undir eins í sjávarútveginum, þegar þetta er orðið að lögum. Það er ekki langt frá því, þetta getur auðvitað sveiflast upp og niður eftir verðmæti útflutningsins, en alls munu millifærslur í einu eða öðru formi vera mikið á sjöunda milljarð. Til þess að framkvæma þetta allt saman þarf þúsundir skýrslna, það skiptir þúsundum eyðublaða sem þarf að fylla út og ganga frá svo að þetta sé framkvæmanlegt, og við þetta vinna tugir manna hér á höfuðborgarsvæðinu fyrst og fremst og síðan úti um allt land. Þetta kostar ótalda tugi milljóna í ónýtu vinnuafli eða lítt gildu vinnuafli vildi ég segja a. m. k. Það er því ósköp eðlilegt að mönnum ógni þetta fargan, þetta vaxandi skriffinnsku- og millifærslufargan, og því hefði það verið gleðilegt — ég segi gleðilegt — að sjá að spyrnt væri við fótum í aukningu og útþenslu þessa millifærslukerfis og reynt að finna aðra lausn, en frá því hefur verið horfið, og það m. a. gerir að verkum að forsvarsmenn bátaflotans eru afar óánægðir, svo að ekki sé meira sagt. Væri hægt að vitna í því efni í grein í Morgunblaðinu, viðtal við formann þessara samtaka, en ég ætla að sleppa því að þessu sinni að lesa hana upp, en hún tekur af öll tvímæli um það hver þeirra afstaða er í þessu máli.

Það hefur verið gömul venja að ef eitthvað bjátar á hjá einum þætti í sjávarútveginum, þá hefur oftast verið farin sú leið að bjarga til skamms tíma með smásjóðamyndun, smámillifærslu, en fæstum eða engum í ríkisstj. hefur tekist þegar lengra sækir á að afnema það sem átti að vera lítil ögn til að byrja með, heldur hefur hún hlaðið utan á sig og orðið að stórum bolta svo að vel má merkja innan alls kerfisins.

Hæstv. ráðh. kom inn á það að ef ætti að afnema sjóðakerfið þyrfti að breyta hlutaskiptunum. Er ekki hæstv. ríkisstj. að breyta hlutaskiptum með svona löggjöf? Ég fæ ekki betur séð, ég lít bara einfaldlega á staðreyndir, að þegar maður fær minna og minna í sinn hlut sem skipverji af aflaverðmæti upp úr sjó, þá er verið að breyta hlutaskiptum með ákveðnum hætti þó að ekki sé það gert beint í samningi. Það gagnar lítið að í samningi standi að hann skuli hafa ákveðna prósentutölu, eða öll skipshöfnin skuli hafa 48%, þegar verðmætið er svo skert og þegar upp er gert í heild kemur í ljós að hann hefur aðeins af helmingi þess verðmætis, sem skipið aflar, til skipta. Og nú mun vera svo komið að í staðinn fyrir að hafa til skipta um 60% af því verðmæti sem hann hafði, áður en þetta frv. kom fram, þá lítur út fyrir að það fari niður fyrir helming. Hér er þess vegna í raun, hvað sem sagt er, verið að breyta hlutaskiptum. Hitt er svo annað mál hvort menn sætta sig við það, þ. e. sjómannasamtökin, vegna þess að þeir hafa náð fram öðrum samningum sem draga í land gagnvart þessum áhrifum og þessum breyt. Það er allt annar þáttur. En í raun er verið að minnka hlutaskiptin og þótt ekki sé tekið beint, þótt ekki sé gengið beint framan að hlutunum, þá er verið í raun að minnka hlutaskiptin varðandi afla upp úr sjó. Þó eru gildandi lög um það að sjómaður skuli njóta þess verðs er útgerð nýtur, en það virðist ekki vera annað en dauður bókstafur í mjög mörgum tilfellum.

Hæstv. ráðh. segir að olían sé stór þáttur í þessari þróun og vel má það vera að hún kosti mikið. En ekki hvetja þessi vinnubrögð til sparnaðar eða þess að menn gæti að sér í útgjöldum, þegar þessi þáttur er gerður mun ódýrari en efni standa til, þótt í gegnum millifærslukerfi sé að ræða. Ég held að það væri miklu hreinna að fá þessa hluti beint fram lagða, hvað allt kostar í kringum þetta og hverju menn standa frammi fyrir, alveg hiklaust, því að áfram á þessari braut verður ekki endalaust haldið.

Það kom greinilega fram af orðum hæstv. ráðh. að hann hefur beyg í brjósti yfir þessari þróun, sem vonlegt er. Þetta kerfi vindur sífellt upp á sig nema menn byrji að spyrna við fótum. Það er ekki hægt að komast hjá því. Spurningin er bara hvenær menn hafa kjark til þess að draga úr þessari þróun og raunverulega snúa henni við. En til þess að leysa tímabundinn vanda út af olíunni er gripið til þess ráðs, eins og segir í 2. gr. frv., að leggja á ný gjöld eftir á og koma þannig aftan að mönnum og meta það, eftir því hvernig atvík standa í dag um söluhorfur. Nú höfum við áður heyrt hvað menn hafa verið bjartsýnir við ýmsar sjávarafurðir í gegnum árin og breytt útflutningsgjöldum. Það var gert í tíð viðreisnarstjórnarinnar, það var gert í tíð vinstri stjórnarinnar og það var gert nú, og því miður í mjög mörgum tilfellum hafa þessar forsendur brostið og brostið fyrirvaralaust, svo að það hefur orðið að gefa út brbl. að sumarlagi til að bjarga hlutunum við. Þetta er óheilbrigt og óeðlilegt og þetta hefur aldrei getað staðið nema stutt í einu og sífelld ný og ný frv. og ný og ný lög eru sett um þetta kerfi af öllum ríkisstj. á mörgum undanförnum árum, svo að menn ættu að sjá það að þetta er ekkert til frambúðar og tími til kominn að hamla hér á móti og hafa hlutina á hreinu eins og hægt er. Það er reiknað með því að 4% megi setja á allar almennar sjávarafurðir. Þó eru nokkrar undantekningar frá þessu í a-lið 2. gr. Síðan er gert ráð fyrir í b-lið 6% af fob.- verði útflutnings á saltfiski. Nú skeði það í meðförum Nd. að opnuð var heimild til þess að endurgreiða útflutningsgjald samkv. b-lið 2. gr. að öllu leyti af þurrkuðum saltfiski, þ. á m. af þurrkuðum saltufsa. Nú ætti öllum að vera það kunnugt og hæstv. sjútvrh. hvað best að vandamálið við fiskþurrkun er mjög mikið og á vissu svæði á landinu eru margir tugir fyrirtækja sem hafa engan minnsta möguleika til að halda áfram starfsemi sinni, þó að mjög mikilvæg sé, ef þetta ákvæði verður ekki hagnýtt að fullu, þ. e. a. s. þessi nýja viðbót, sem frv. gerir ráð fyrir, verði að fullu lögð niður. Á ég þar við að allur verkaður fiskur verði fullkomlega laus við þessar álögur, hann er þegar í mjög miklum vandræðum, og verkun á ufsa, sem er mjög mikil frá Vestmannaeyjum alveg vestur á Snæfellsnes, verkun og þurrkun á þessari vöru, er slíkum erfiðleikum bundin að það er ekki nokkur minnsti möguleiki að leggja á hana nýjar kvaðir, miklu fremur þyrfti að veita henni beina, sérstaka aðstoð, eins og þegar hefur verið sent bréf um til hæstv. ráðh., en það var afgr. á mjög snaggaralegan hátt og sagt að vandamálið skyldi leysast innbyrðis hjá fiskverkun, patentlausn sem gæti þá gilt um æðimarga þætti í þjóðfélaginu ef á að framfylgja því þar og mjög víða.

Síðan er reiknað með því að komandi vertíð á loðnu geti tekið á sig nokkur gjöld og er lagt til að það verði 2%. Því miður höfum við ekki fengið í hendur neina grg. um hvað þetta þýðir, það getur vel verið að okkur takist það á nefndarfundi svo að ég vil ekki eyða tíma í að vera með vangaveltur um hvað þetta þýðir á hverja grein fyrir sig, en augljóst er að ef frv. heldur svo áfram, eins og ætla má, miðað við viðbrögð hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihl., þá liggur fyrir að útflutningsgjöld eru orðin 14, l5, 16 og upp í rúm 18% gjald á það að búa til verðmæti, búa til dollara. Þetta er alveg óhuggulegt, alveg ótrúlegt, að menn skuli stefna í þessa átt. En þetta mun verða staðreynd ef frv., verður að lögum óbreytt. Víða annars staðar í nágrenni við okkur, ég held í öllum öðrum löndum, hefur þurft að veita sjávarútveginum margvísleg lánakjör, jafnvel styrki, og norðmenn hafa orðið að styrkja sinn sjávarútveg svo að nemur mörgum milljörðum, 5–6 milljörðum. Síðan eigum við að keppa við þessa aðila á sama markaði með sömu vörutegundir og ná svo hagkvæmu verði að það þoli allt yfir 18% sérstaka skattlagningu. Svo undrar menn að eitthvað skuli ganga hér úrskeiðis og vandamál skapist og stundum verði erfiðleikar í sölu. Þetta er svo ólíku saman að jafna að það nær ekki nokkurri átt. Það hafa verið gerðar kröfur til þess að sjávarútvegur okkar sé afkastamikill, og hann er það, og sé rekinn sómasamlega og vel, og í flestum tilfellum er hann það. En þegar aftan að mönnum er komið með slíku gjaldaofforsi og gjaldaálögum sem þetta er er vonlaust að vel fari þegar til lengdar lætur.

Þetta frv. er afleiðing af gengisfellingu og ráðstöfun á gengishagnaði og er talið upp í mörgum liðum hvernig ráðstafa á þeim mismun sem fram kemur. Á einum stað undir b-lið segir að 400 millj. kr. heildarfjárhæð samkvæmt þessum lið skuli ráðstafað á sérstakan hátt. Hæstv. ráðh. talaði um að hann mundi ekki hafa ein eða nein áhrif í sambandi við þessar 400 millj. kr., ekki ætlaði hann að stunda lánastarfsemi og þar fram eftir götunum. Ég held að enginn væni hann um það að hann fari að standa í þessu persónulega. En vegna ýmissa atvika, sem ég hef heyrt í kringum ráðstafanir á þessu fjármagni eða hliðstæðu fjármagni í fyrra skiptið, þá setti ég fram fsp. um hvernig þetta gengi og hvernig því hefði verið skipt á landshlutana miðað við 15. apríl s. l. Því miður hefur ekki skapast tækifæri til að svara þessari fsp., en fróðlegt væri að vita hvernig hefði gengið að ganga frá þessum málum í fyrra tilfellinu, því að um það ganga nokkuð mismunandi sögusagnir og mörg svæði telja sig hafa fengið þunglamalegar undirtektir í því efni þó að fullan rétt hafi átt til þess að fá afgreiðslu.

Ég óskaði því eftir því að nefndinni a. m. k. gæfust tök á því að fá um þetta nokkra vitneskju, og sérstaklega vil ég minna á það að í umr. um þá gengisfellingu og umskipti á þeim gengismun, sem þá var til meðferðar, tókum við í stjórnarandstöðunni sérstaklega fram að við óskuðum eftir því að fá samtímis upplýsingar um ráðstafanir á þessu fjármagni. Það var ekki gefið beinlínis loforð í því efni, en það var gefin ábending um það, eins og sjá má í þskj., að a. m. k. formaður sjútvn. fengi að fylgjast með. Mér skilst að það hafi ekki reynst svo í framkvæmd og harma ég það.

Ég tel að þegar Alþ. er að úthluta svona miklum upphæðum nokkuð frjálst, þá eigi viðkomandi nefnd a. m. k. að fá það sem trúnaðarmál að sjá hvernig til tekst. Þó að bankastofnanir heimti eðlilegar tryggingar og þar fram eftir götunum, eins og þeim ber skylda til, þá er það allt annað mál. En þegar við samþykkjum svona stórar upphæðir ótilteknar og þær skulu dreifast á mismunandi staði á landinu, þá er það eðlileg þjónusta við þingnefnd að gefa um þetta glöggt yfirlit þegar um það er beðið, og ég veit að hæstv. ráðh. mun hlutast til um að það verði gert, En ég vil aðeins nota þetta tækifæri nú við þessa umr. og minna á þetta.

Það væri í sjálfu sér hægt að tala mun meira um þetta mál, svo stórt sem það er, en ég verð að vona að okkur verði gefinn kostur á því í n. að fá um þetta ýmsar upplýsingar og get þess vegna sparað tímann með því að vera ekki að spyrja mikið um það nú á þessu stigi. Ég vænti þess að okkur gefist sæmilegt svigrúm, þrátt fyrir nauðsyn þess að flýta málinu verulega, til þess að fjalla um málið í n. og jafnvel að kanna viðhorf manna eftir þær breyt. sem frv. hefur tekið í Nd. og einnig hvort nokkur ný viðhorf hafi komið fram í sölumálum sem geri það að verkum að fyrri mótmæli það varðandi, sérstaklega 2. gr., séu ekki eins hörð, eða öfugt, að þan hafi gildi til að vera enn harðari. Ég mun þess vegna ekki á þessu stigi tala meira nú, en ég vænti þess að formaður sjútvn. gefi okkur færi á því að fjalla um þetta mál með eðlilegum hætti, þrátt fyrir það að það ber hér seint að. Ósk ráðh. er eðlileg, að málið þurfi fljóta afgreiðslu í gegnum d., en þá verður með engu móti sakast við okkur um það að málið er svona seint á ferðinni, enda gerði hæstv. ráðh. það alls ekki. En ég harma að sjútvn. Ed, skyldi ekki vera sýndur sá sómi, að við værum metnir það, að kalla mætti okkur í eitt einasta skipti til sameiginlegs fundar. Með öðrum hætti hefur formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. unnið. Hann hefur til að flýta fyrir afgreiðslu annarra mála boðað til sameiginlegra funda nefnda æ ofan í æ, og þó að þeir fundir geti verið þungir stundum og mikið rætt, þá eru það sannarlega vinnubrögð sem eru lofsverð og flýta fyrir afgreiðslu mála fyrir hæstv. ríkisstj. þegar um það er beðið.