09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3650 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 1. landsk. þm. kvartaði undan því að sjútvn. hefðu ekki starfað saman. Ég ætlaðist til þess að það yrði gert og ég harma að svo var ekki, því að við svona mál er miklu skynsamlegra allra hluta vegna að n. úr báðum d. komi saman og ræði mál, hlusti á þær upplýsingar, sem menn hafa fram að færa. Ég taldi að það mundi verða gert og ætlaðist til þess. En hins vegar er auðvitað til ein afsökun, ef það má afsaka þetta á nokkurn veg, og hún er sú að allir fulltrúar í sjútvn. þessarar hv. d. eiga samflokksmenn í sjútvn. Nd., og nú vitum við allir jafnvel að í þingflokkunum eru mál rædd og það fer auðvitað ekki á milli mála að fulltrúar úr n. skýra öðrum þm. þingflokkanna frá því hvað þar er að gerast. Ef við lítum út frá því að það hafi verið gert í öllum flokkum, þá held ég að það verði ekki ekki annað séð en að allir eigi að vera sæmilega upplýstir um þetta mál.

Mér finnst að 1. gr. þessa frv. liggi nú það hrein fyrir og ákveðin að það fari ekki á milli mála. Það getur verið matsatriði hvernig eigi að skipta, og ég hygg að þm. fái ekki neinar frekari upplýsingar um það þó að sérfræðingar séu kallaðir á fund sjútvn. Það eru uppi þau sjónarmið í Landssambandi ísl. útvegsmanna að jafna ekki gengistapið af erlendu lánunum, heldur greiða í raun og veru til stofnfjársjóðsins eftir afla hvers skips fyrir síg. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig. Ég vil láta það koma hér fram að ég er andvígur þessu sjónarmiði. Þá fá þeir fyrst og fremst mest sem best afla og best hafa það og þurfa síst á því að halda. Hins vegar vil ég koma inn á það, og hef komið mjög til móts við bátaflotann, að ég gekk inn á það í mörgum umr. áður en þetta frv. varð til á prenti að gengistryggðu lánin, innlendu lánin sem eru gengistryggð að 3/6 hjá Fiskveiðasjóði, kæmu þar inn í. Þannig minnkaði bilið á milli báta og togara. Það fannst mér eðlilegt. Því til viðbótar féllst ég greiðlega á að 300 millj. kr. kæmu til þess að endurlána bátaflotanum vegna endurbóta og til tækjakaupa í bátaflotann. Og ég verð að segja það að mér finnst sjálfum að hér hafi náðst mjög viðunandi málalok sem við allir sanngjarnir menn eigum að geta sæst á.

Ég hef eiginlega ekki heyrt neinar deilur um aðra liði í þessu máli. Það má segja að hvort eigi að hækka þennan lið um nokkra milljarða eða lækka hinn er matsatriði. Frv. fór í gegnum Nd. með yfirgnæfandi meiri hl, atkv. En svo komum við að þessu stóra máli, þ. e. öflun til sjóða sjávarútvegsins. Að vissu leyti er rétt að það er verið að taka af óskiptu, en það er ekki verið að raska kjarasamningum. Það er ekki komið aftan að neinum. Það sjá það allir, hver og einn, hvað verið er að gera. Vinir mínir í LÍÚ hefðu orðið töluvert glaðir, a. m. k. farið af þeim fýlusvipurinn, ef ég hefði gengið inn á 11% fiskverðshækkun fram hjá skiptum. En ég er ansi hræddur um að óánægjusvipurinn, sem er á sjómönnum, hefði orðið að megnri reiði. Hv. síðasti ræðumaður talaði um að þetta væri kjánalegt frv. Ef hann á við að það sé kjánalegt að ríkisstj. hafi ekki reitt sjómennina til reiði, þá get ég tekið undir það að þetta atriði frv. er kjánalegt. En hann má líta aftur á hitt, að ríkisstj. og þá ég, sem ber fyrst og fremst ábyrgð á þessu frv., við erum til þess að lægja þessa óánægjuöldu að fara inn á þetta svið. Við getum því sitt á hvað talað um hvað er kjánalegt og hvað ekki.

Hv. 1. landsk. talar um að það væri komið í bakið á mönnum, þeir sæju hvernig gengi í útveginum. Ég held að þótt menn hafi peninga og telji sig eiga afgang, þá eigi menn að hætta að spila alltaf öllu út á stundinni og reyna þá að halda heldur í. En hvaða maður var það sem kom nálægt sjávarútvegi sem bjóst við því og vissi að til þess að greiða fyrir lausn á fiskverðsmálunum í vetur átti að færa til útgerðarinnar frá vinnsluaðilum til þess að greiða niður olíu? Þetta vissi hver einasti maður í sjávarútvegi. Það, sem menn vissu ekki, var: Átti að leggja á ca. 11% gjöld ofan á fiskverðið fram hjá skiptum eða verður farið yfir í að taka það á síðasta stigi í útflutningi? Ég spyr hv. 1. landsk. þm. Hann þarf ekki að svara mér núna. Hvað ætli hann segði ef við stöðvuðum þetta frv., ef ríkisstj. notaði sér nú í allt annað þessar 1644 millj. — Það eru skal ég segja ykkur nógar holur til þess að koma þessu í — og hætti við að skipta sér nokkuð af sjávarútvegi? Og hvað ætli útgerðin segði ef ekki yrði greidd niður olía og við hyrfum frá því að leggja þetta útflutningagjald á? Þeir sem eru óánægðir núna og komu á fundina og sumir með því hugarfari, ég er hræddur um að það yrði ófrýnilegur svipurinn á þeim þá. Og þó að þeir séu óánægðir núna, þá hvílir auðvitað sú ábyrgð á stjórnvöldum og ríkisstj. að koma þessu frv. í lag. Þetta veit ég að hv. stjórnarandstæðingar báðir skilja mætavel því að þeir eru báðir vel inni í þessum málum.

Í sambandi við það sem hv. 1. landsk. þm. spurði um varðandi þessar 400 millj. frá því í vetur, þá hef ég ekki sundurliðun á því, en svar við fyrirspurn hans er löngu tilbúið frá minni hendi. Hún hefur aðeins ekki komist að af þeim ástæðum sem við þekkjum allir. En mér er ánægja að svara þessari fsp. núna. Fsp. er ekki um skiptingu á 400 millj., heldur um skiptingu á lánsfé til breytingar lausaskulda og vanskilaskulda í sjávarútvegi í föst lán til nokkurra ára og þá hvernig það skiptist eftir kjördæmum.

25. apríl var búið að breyta lausaskuldum og vanskilaskuldum viðskiptaaðila Landsbankans, samtals 67 aðila, og heildarupphæðin, sem breytt var í lán til nokkurra ára, var 715 millj. kr. Útvegsbankafyrirtækin voru 37 og heildarupphæðin 378 millj. kr. Samtals var hér um að ræða 1093 millj. kr. Auk þess var áætlaður greiðslufrestur á gjaldföllnum afborgunum fjárfestingarlánasjóða samtals 106,6 millj. kr. Það er því búið að breyta vanskilaskuldum og lausaskuldum í sjávarútvegi þennan dag upp á hvorki meira né minna en 1199.6 millj. kr. Síðan hefur einn verið afgreiddur, en þær tölur hef ég ekki. Nú er kominn verulegur skriður á ákveðna staði þar sem stóð töluvert á. Það eru hagdeildir bankanna sem vinna þessi mál í hendur nefndar. N, er samstarfsnefnd bankanna, beggja viðskiptabankanna og Seðlabankans, og þessa fundi situr aðstoðarmaður minn sem áheyrnarfulltrúi og með tillögurétti. Hins vegar hefur hann ekki úrslitavald á neinu í sambandi við það sem lýtur að innri ákvörðun bankanna, en ég sem sjútvrh. get fengið þessar upplýsingar hvenær sem er, enda hefur verið góð samvinna á milli Seðlabankans og viðskiptabankanna beggja. Hins vegar var ýmislegt að í byrjun, það tók marga fundi. Átti ég mjög marga fundi með bankastjórum margra þessara banka í byrjun, á meðan var verið að yfirstíga ýmsar samstarfsaðferðir, því að ég hygg að hún sé erfið og leiðigjörn baráttan við kerfið.

Ég held að ég verði líka að svara því sem hv. 1. landsk. þm. sagði í þessari fyrirspurn. Hann spurði hvernig þetta skiptist eftir kjördæmum. Ég hef ekki skiptingu á greiðslufrestum á gjaldföllnum afborgunum fjárfestingarlánasjóðanna, enda skiptir það ekki máli því að það fá allir hvar sem þeir eru á landinu. En þessi 104 lán, sem þá var búið að úthluta, skiptust þannig: Vesturland 16 lán, fjárhæð 224.2 millj., Vestfirðir 1l lán, 170.4 millj., Norðurl. v. 9 lán, 7 millj., Norðurl. e. 9 lán, 97.4 millj., Austurland 13 lán, 190.3 millj., Suðurland 12 lán, 120.2 millj., Reykjanes 33 lán, 192.2 millj. og Reykjavík 7 lán, 91.4 millj. Skiptingin á milli fer töluvert eftir aðstæðum í bönkunum. Annar viðskiptabankinn var nokkuð á eftir hinum, eins og glöggt má sjá á heildarlánveitingunum, en úr því er nú að rætast, og þá kemur það niður á mjög stórri verstöð eða stórum útgerðarstað sem er núna að fara í afgreiðslu. Nú skiptast, eins og alþm. vita, viðskipti afar mikið eftir stöðum, t. d. í Vestmannaeyjum er Útvegsbankinn með öll viðskiptin. Og nú er verið að fara í það, hvers vegna Landsbankinn er kominn þarna töluvert á undan.

Ég hef áður tekið það fram að ætlun mín var að þetta yrði að verulegu leyti búið um áramót. En það var ekki sök bankanna, Seðlabankans eða viðskiptabankanna. Það var ekki síður sök sjávarútvegsins sjálfs sem lét bíða eftir sér, fjölmargir aðilar, hátt á þriðja mánuð. Og svo er takmarkaður vinnukraftur í bönkunum. En það mega báðir viðskiptabankarnir eiga og ég er þeim mjög þakklátur fyrir að þegar ég kvartaði undan því hvað þetta gengi seint, þá létu þeir fara fram aukavinnu viku eftir viku í hagdeildunum á sinn kostnað og urðu á þann hátt við þeim óskum sem sjútvrn. fór fram á.

Ég sagði á fundi fyrir held ég hálfum öðrum mánuði að ég teldi ekki ólíklegt að breyting á lausafjárstöðu útgerðarinnar mundi nema um 3 milljörðum kr. Ég sagði að vísu þessa tölu meira út í bláinn heldur en að hafa á því fullkomið vald og þekkingu. En miðað við þann lánafjölda, sem búið er að afgreiða, og þá upphæð, sem þegar er komin í 1.2 milljarða, þá hugsa ég að þetta verði ekkert mjög fjarri sanni þó að hvorki ég né aðrir geti sagt um það fyrr en allt er búið.

Fyrirspurnir eins og þessar, sem koma fram hjá hv. 1. landsk. þm., eru eðlilegar og það er alveg sjálfsagt að gefa allar slíkar upplýsingar. Það er ekkert það til sem við viljum ekki gefa upplýsingar um. En við vitum það í okkar þjóðfélagi, að þá viljum við ekki birta og bankar birta ekki nöfn fyrirtækja eða einstaklinga, hvað þeim er lánað. Það er regla og þá reglu vil ég sem sjútvrh. hafa í sambandi við ráðstöfun gengishagnaðarins. Í sambandi við ráðstöfun á 600 millj., þar sem 400 millj. eru nú teknar og ráðstafað í bili, þá er hér ákveðin lánaprósenta á öll erlend lán sem er umreiknuð af starfsmönnum Fiskveiðasjóðs og skrá yfir það og þannig koma 600 millj. út, þannig að það fær hver einasti maður, sem skuldar erlent fjármagn, þetta sama hlutfall og engin breyting á því. Fjármagnið, sem fór til útgerðarinnar og var miðað við úthaldsdaga, er algjörlega hið sama og engin breyting þar frá. Reglur um hinar 100 millj., sem fóru í bátaflotann eftir öðrum leiðum, mynduðu starfsmaður í sjútvrn. eða réttara sagt tveir starfsmenn þar og forstjóri Aflatryggingasjóðs. Mér voru sýndar þessar reglur. Ég leit á þær. Þær eru ekki fullkomnar frekar en önnur mannanna verk. Ég bar þær undir ríkisstj., sendi öllum ráðh. þær og ég bað aðstoðarmann minn að bera allar reglurnar undir formenn sjútvn. í báðum d. (StJ: Hvað fóru þeir langt niður í tonnafjölda?) Það var farið niður fyrir 20 tonn, en hins vegar voru loðnubátarnir teknir út úr vegna afkomu þeirra. Um það má deila. Rækjubátarnir voru teknir út úr. Ég vildi ekki standa að því að láta rækjubát, sem er 21 tonn, fá bætur en rækjubát, sem er 16 tonn eða 19 tonn, fá engar. Það varð að taka það á þennan hátt. Og ég held að þegar allt kom til alls og fyrir sérstakt starf og góða vinnu þeirra manna sem að þessu stóðu, sem báru hitann og þungann af þessum störfum, sem voru fyrst og fremst Einar Ingvarsson aðstoðarmaður minn og Þórarinn Arnórsson framkvæmdastjóri Aflatryggingasjóðs, þá hafi þetta eftir atvikum tekist vel til. Þeir reyndu að skýra fyrir mönnum og greiða fyrir og ég hef ekki breytt einni einustu ákvörðun þeirra í þessum efnum. Þegar þeir hafa komið til mín með sín vandamál þá hef ég sagt: Þið verðið að sjá um það og ráða fram úr því, það eruð þið sem hafið búið til þessar reglur. Ég hef treyst ykkur til að framkvæma þær og þið berið það undir þá sem þið þurfið að fá betri upplýsingar hjá, en ég vil ekki fara að blanda mér í slíka skiptingu sem þessa. — Þetta var vandasamt verk og ég skal ljóstra því upp við hv. stjórnarandstæðinga að á mörgum fundum með stjórnarsinnum að undirbúningi þessa margumtalaða frv. bað ég þá sérstaklega um eitt, það að fara ekki aftur út í það að skipta eftir úthaldstíma eða öðrum reglum því að við bara þyldum ekki að fá annað eins álag á okkur og það. Þess vegna er e. t. v. horfið frá því, enda tel ég að það eigi ekki að gera, því að það er talið að með gengisbreytingunni í febrúar hafi verið skapaður viðunandi rekstrargrundvöllur fyrir sjávarútveginn, en undanskildir frá þessum rekstrargrundvelli eru stærri togararnir sem eru langt frá því að hafa rekstrargrundvöll, og það vitum við allir.

Þrátt fyrir það að okkur greinir á, eins og tíðkast jafnan hjá stjórnmálamönnum um afstöðu til mála, þá heyrði ég það á báðum hv. ræðumönnum stjórnarandstöðunnar að þeir telja að frá sjónarmiði þeirra, sem nú fara með stjórn í landinu, verði að afgreiða þetta frv. En ég vænti þess og treysti að þrátt fyrir þessi mistök, sem ég harma, að sjútvn. störfuðu ekki saman, þá greiði þeir á sinn hátt fyrir því að þetta frv. fari sem fyrst í gegn, því að það er ör útflutningur nú frá landinu og það tapast tekjur í Olíusjóðinn. Ég vil fá þessar tekjur sem allra fyrst til þess að standa undir niðurgreiðslum á olíunni, hversu bölvað sem það fyrirkomulag er.