09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3659 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hæstv, ráðh. að hann svaraði í raun fyrirspurn minni á þskj. 490 og þá er ég ekki að láta hana koma til umr. í Sþ., enda víst nóg af að taka á þeim vettvangi. En fyrst ég er kominn hér upp í ræðustólinn ætla ég að fara aðeins örfáum orðum í viðbót um frv.

Það er raunar athyglisvert sem komið hefur fram í viðbót hjá tveimur hv. þm., Steingrími Hermannssyni og Jóni Árnasyni, að þeir undirstrika það mjög réttilega að mínu mati að hér stefnir í öfuga átt og mér skilst að lengra verði ekki gengið í þessa átt, alls ekki, og þess vegna vil ég taka undir það að nú er nauðsyn á því og óhjákvæmilegt að sú nefnd, sem á að skipa ef hún hefur ekki þegar verið skipuð, starfi vel og dæmið allt verði stokkað upp og það lagt fyrir viðkomandi aðila og einnig Alþ., hvernig leysa megi úr þeim vanda sem flókið skiptakerfi og flókin millifærsla hefur leitt af sér, því að þessi þróun stefnir í vegg fyrr eða síðar. Og ég tek alveg heils hugar undir skoðun þeirra um það að hér er ekki hægt að halda lengi áfram, og einnig vil ég undirstrika skoðun Steingríms Hermannssonar að hér er um gífurlega eignatilfærslu að ræða, — hann sagði hreinlega eignaupptöku á fjórða milljarð í einu eða öðru formi. Ég tel heilbrigðara fyrir alla aðila, ef menn sjá fram á það að við eigum ekki tök á því að hafa stöðugt gengi nema í ákveðinn fjölda mánaða, að þá sé hugleitt um það að hafa svonefnt gengissig tíðar en verið hefur, — það hlýtur að skapa nauðsynlegt aðhald og hefta menn í óþarfa eyðslu, — heldur en að gefa mönnum kost á að eiga möguleika á því að gífurleg eignaupptaka eigi sér stað með aðstoð ríkisvaldsins og þeim eignum deilt út eftir mismunandi geðþótta ákveðinna manna sem rífast um það í margar vikur. Slík vinnubrögð eru engum til sóma þó að menn séu knúðir til að framfylgja því, þ. e. a. s. viðkomandi ríkisstj., til þess að halda atvinnulífinu gangandi.

Með þessu móti, að skipta þessu svo upp eins og frv. gerir ráð fyrir, erum við að breyta genginu gagnvart fiskinum. Það er raunverulega verið að skapa margfalt gengi og það hefur aldrei getað dugað nema takmarkaðan tíma. Það er viðurkennt að það er langheilbrigðast og eðlilegast að hafa hér eitt skráð gengi, menn vita að hverju þeir ganga í það og það skiptið þegar menn taka ákvarðanir og verða síðan að vera nokkuð ábyrgir í samræmi við það. Það verður happasælast þegar fram í sækir, ella er miklu einfaldara að um hreinan ríkisrekstur sé að ræða á þessum þætti þjóðarbúskaparins en að hafa þessi vinnubrögð æ ofan í æ í frammi. Það nær ekki nokkurri átt.

Hæstv. ráðh. kom inn á það hvort betra hefði verið að hafa 11% fiskverðahækkun og spurði, mér skildist akkur í stjórnarandstöðunni, um okkar sjónarmið í því efni og þá að fara fram hjá skiptunum. Það eru ekki okkar till. Ég tel að það hefði verið svigrúm fyrir þessa tölu og jafnvel meira og taka það til skipta á eðlilegan hátt, það hefði sennilega vantað eitthvað upp á hjá flotanum, en það er ekki svo stór tala að hún hefði verið óviðráðanleg ef margt væri betur gert innan þeirra eigin raða. Það er mitt mat á hlutunum.

Það þýðir ekkert að vera að deila um gömul skiptakjör. Sú þróun hefur átt sér stað, sem ég tel hæpna fyrir sjómenn sjálfa, að sífellt er samið um að þeir þurfi að snerta á minna og minna varðandi fiskveiðarnar sjálfar. Ég hef þá skoðun a. m. k. persónulega að samhent skipshöfn eigi að útbúa vel í hendur sér, starfa vel saman og skila sínum feng sem lengst í sinni eigin umsjá, en hins vegar telja margir forsvarsmenn aftur að það sé best að menn gangi um borð, allt tilbúið, og veiði og komi síðan ekki nálægt neinu meira. En með þessari þróun er kallað á fleiri og fleiri milliliði, alls konar hópa sem hafa lítilla eða engra hagsmuna að gæta aðra en þá að útvega sér sem lengstan vinnutíma við að þjóna þeim er á sjónum eru, og eðlilega um leið bera sjómenn þá mun minna úr býtum. Þrátt fyrir þetta, að ég telji að sjómenn eigi að halda sem best. að sínu innan sinna vébanda eins lengi og tök eru á, þá þarf ekki að koma til óeðlilega langs vinnutíma. Hér er aðeins um ákveðið fyrirkomulag að ræða sem ég tel eðlilegt að gaumur sé gefinn.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessar umr. að sinni. Það verður ekki sagt um okkur í stjórnarandstöðunni að við höfum hér talað til jafns við hina. Við erum æ ofan í æ kurteisir hér í hv. d. eftir beiðni hæstv. ríkisstj, um að tefja ekki mál og munum vera það að sinni, en ég þakka form. sjútvn. fyrir loforð hans að við fáum góðan tíma í nefndinni, og ég harma það, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að ekki skuli hafa verið hlustað á orð hans og óskir að báðar nefndirnar störfuðu saman. Þó að hann hafi drepið á það að viðkomandi flokkur eigi fulltrúa í sjútvn. Nd., þá nægir það ekki til því að þá ættum við bara að hætta að hafa nefndaskipun eftir því hvernig mál féllu í deild og önnur nefndin aðeins að starfa. En þá erum við líka um leið búnir að gjörbreyta þingsköpum og það er annað mál sem tekur sinn tíma að ræða um og breyta.