09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3662 í B-deild Alþingistíðinda. (2776)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er um stofnun sjóðs til aðstoðar við drykkjusjúka, og þar að alllangt er umliðið frá því að þetta frv. var tekið til 1. umr. vil ég — með leyfi forseta — aðeins hafa yfir megingreinar þessa frv., en þær hljóða svo:

„1. gr. Af hverri þriggja pela flösku af sterku víni sem Áfengisverslun ríkisins selur, skal í næstu 10 ár greiða gjald að upphæð kr. 100.00 og hlutfallslega af öðrum flöskustærðum. Gjald þetta skal renna í sérstakan sjóð til varnar gegn drykkjusýki. Sjóðurinn skal vera í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins.

2. gr. Fé því, sem rennur í sjóð til varnar gegn drykkjusýki samkv. 1. gr., skal varið til lána og styrkveitinga til félagasamtaka og annarra aðila, er vinna að því að hamla gegn skaðlegum áhrifum áfengis. Veita má lán og styrki til þess að koma á fót afvötnunar- og ráðleggingarstöðvum fyrir drykkjusjúka, dvalarheimilum, vinnu- og endurhæfingarstöðvum. Þá er heimilt að verja allt að 10% af árstekjum sjóðsins til styrktar þeim, er reka áróður gegn áfengisneyslu. Lán og styrkir úr sjóðnum til stofnana mega nema allt að 75%a af stofnkostnaði.

3. gr. Heilbrmrh. tekur ákvarðanir um lán og styrkveitingar úr sjóðnum að fengnum till. tryggingaráðs. Tryggingastofnun ríkisins setur reglugerð um lánakjör sjóðsins og hlutfall milli lána og styrkja. Einnig skal hún samþykkja starfsreglur þeirra aðila, er aðstoðar njóta,

4. gr. Áfengisverslun ríkisins er heimilt að hækka verð á sterkum drykkjum um sömu upphæð og nemur framlagi til sjóðsins. Hækkunin skal ekki hafa áhrif á k-vísitölu.“

Þetta er það frv. sem hér um ræðir. Hv. alþm. hafa öðrum fremur hug á því örugglega að vinna að bættum hag, að bættri afstöðu fólksins í landinu. Fyrr á öldum og fram á þessa öld voru okkar aðalbaráttumál í heilbrigðis- og félagsmálum að ráða við sýklasjúkdóma og aðra umferðarsjúkdóma sem hrjáðu þessa þjóð mjög og ollu aðalvandamálum heilbrigðisþjónustunnar. Nú er þessi tími liðinn og þótt mikil verkefni séu fyrir hendi eru þau allt annars eðlis en áður var, Nú eru kannske breytt lífskjör, ofát, ofdrykkja, ásamt með slysum alvarlegustu erfiðleikarnir sem heilbrigðis- og félagsmál eiga við að stríða.

Því miður verðum við að beygja okkur fyrir þeirri staðreynd að á undanförnum árum hefur áfengismagn á hvern mann, sem hann neytir árlega, vaxið mjög og náði hámarki á s. l. ári. Samfara þessu hefur drykkjuskapur unglinga farið vaxandi sem er mikið áhyggjuefni öllum sem þessum málum sinna. Mér segja fróðir menn að yfir 90% af öllum stærri glæpamálum, svo sem nauðgunum, manndrápum, árásum og fleiru slíku, sé hægt að setja í samband við ofneyslu áfengis. Sama er að segja um verulegan hluta þeirra sjúklinga sem á okkar heilbrigðisstofnunum dveljast, hvort sem það er vegna magasjúkdóma, lifrarsjúkdóma, hjartasjúkdóma eða æðasjúkdóma, taugasjúkdóma eða heilasjúkdóma, þá er það svo að verulegur hluti af þessum sjúkdómum á sinn uppruna og má rekja til notkunar áfengis.

Það er því ekki vafi á því að ef hægt væri að hamla gegn þeim hörmungum sem áfengisneyslan veldur mörgum þjóðfélagsþegnum, þá mundi ekki einungis lífið batna í landinu, ekki einungis lífshamingja fjölda fjölskyldna gjörbreytast til batnaðar, heldur mundi þetta einnig verða mikið fjárhagsmál og atvinnumál fyrir þjóðina. Okkar heilbrigðisþjónusta yrði léttari, hún næði betri árangri og ekki mundu verða þeir örðugleikar með sjúkrahúsvist sem nú eru. Hins vegar eru þeir örðugleikar á þessu að áfengissýkin er mjög erfið viðureignar og í þeim löndum, þar sem þessi mál eru lengst á veg komin, er það nokkuð viðurkennt að það er ekkert eitt algilt ráð eða læknislyf við þessari sýki. Þess vegna er það að þau lönd, sem sinna þessum málum best, hafa mörg járn í eldinum og þetta frv. er einmitt þannig sniðið að það gefi bæði félagasamtökum og einstaklingum, sem vilja vinna að varnarmálum gegn drykkju, möguleika til fjárhagslegs stuðnings í þessum tilgangi. Við erum hér nokkuð aftur úr. Þetta hefur orðið útundan í okkar heilbrigðisþjónustu um mörg undanfarin ár og þeir fjármunir, sem til þess hafa verið lagðir, hafa verið óhæfilega litlir.

Heilbr.- og trn. hefur rætt þessi mál allítarlega og hefur gengið frá svofelldu nál.:

N. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt. Einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt“