09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3664 í B-deild Alþingistíðinda. (2778)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. með málþófi, enda hér um það gott mál að ræða að allir hljóta að vera sammála um nauðsyn þess. En flm. minntist á baráttu gegn sýklum og sjúkdómum hér á landi sem þjóðin hefði sigrast á í fortíðinni. Ég vil taka undir orð hans og ég reikna með að hann eigi þá m. a. við þá baráttu sem háð var hér gegn berklaveiki o.fl.

En ég vil aðeins benda á að ég var fjarverandi, sem kemur fram í nál., þegar málið var afgr. í n., og ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður geta þess að mér finnst við dreifa hér svolítið kröftunum. Af reynslu minni sem borgarfulltrúi get ég ekki séð að það sé besta ráðstöfunin á fé til baráttu gegn drykkjusýki að veita lán og styrki til þeirra sem að þessum málum starfa, heldur vil ég leggja á það áherslu af reynslu að hér verði komið upp, ekki bara í borginni, heldur víða á landinu, einhvers konar áfengisvarnastöðvum þar sem vinir og ættingjar gætu komið þeim drykkjusjúka fyrir og þar sem hann fengi fyrstu aðstoð meðan á vandanum stendur því að oft er það svo að bjarga má heimilum frá miklum vanda ef viðkomandi sjúklingur er tekinn á áfengisvarnastöð og hann hefur aðstöðu til að dveljast þar í nokkra daga. Eins og er, þá er hægt að koma honum undir læknishendur í Heilsuverndarstöðinni t. d. hér í Reykjavík þar sem hann getur fengið skjóta aðstoð, en síðan er hann látinn fara heim og lendir þá oft í sama vanda og hann fór úr áður en hann kom til áfengisvarnastöðvarinnar.

Ég held að það þurfi að beina öllum þeim tekjum, sem hægt er að safna saman til átaka í áfengisvarnamálum, til að skapa hér hressingarhæli til einhvers konar endurhæfingar og síðan þarf að bæta við þá aðstöðu sem þegar er komin hér í Reykjavík og er vísir að því starfi sem þarf að gera um landið allt. Það þarf að koma hér upp miðstöð til vinnumiðlunar. Get ég tekið sem dæmi þá stofnun sem nú er rekin á vegum Reykjavíkurborgar að Þingholtsstræti í Reykjavík, í gamla farsóttahúsinu, þar sem drykkjumenn hafa aðstöðu til þess að sofa næturlangt og þeir, sem þangað hafa komið reglulega, hafa fengið aðstoð til þess að fara út á land og í fyrirtæki hér í borginni. Margir af þessum mönnum hafa orðið ágætir og nýtir borgarar einmitt við það að komast í snertingu við vinnu á ný.

Ég vil því benda á, án þess að koma með brtt. hér, að ég tel að þetta frv. ætti að beinast meira að því að skapa hér dvalarheimili og vinnu- og endurhæfingarstöðvar eins og kemur fram í 2. gr. Það ætti fyrst og fremst að vera verkefni frv. En síðan væri hægt að lána út úr þessum sjóði þeim sem starfa að áfengisvarnamálum. En í 2. gr. frv. virðist mér þetta hugsað öfugt. Lán og styrkir úr sjóðnum til stofnana mega nema allt að því 75% af stofnkostnaði og það fyndist mér að ætti að renna í beinar framkvæmdir við hressingarhæli, áfengisvarnastöðvar o. s. frv.

Að öðru leyti hef ég ekki nema allt gott um þetta frv. að segja og flm. á þakkir skilið fyrir að draga athygli Alþ. að þessu vandamáli. Ég mun því styðja þetta frv. eins og það er ef flm. sjálfur sér sér ekki fært að breyta frv. Geri ég það til þess að tefja ekki málið frekar en nauðsyn krefur.