09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3673 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

130. mál, fóstureyðingar

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Á þskj. 588 hef ég borið fram brtt. við frv. það sem hér er á dagskrá. Ég vil hér gera grein fyrir ástæðum mínum fyrir þessum tillögum.

Frv. þetta hefur verið mikið rætt á hv. Alþ. og meðal almennings, skoðanir um það hafa verið mjög skiptar og það valdið miklum deilum. Því miður var ég utan þings, erlendis í opinberum erindum, þegar frv. kom til 1. umr. í þessari hv. d. Ég átti því þess ekki kost að tjá mig almennt um mál þetta við 1. umr. Samt mun ég nú takmarka mál mitt við það efni sem varðar brtt. mína, en þær fela í sér atriði sem hafa grundvallarþýðingu fyrir skipan þeirra mála sem frv. það, sem hér er til umræðu, fjallar um.

Áður en ég sný mér að brtt. mínum vil ég aðeins taka fram þetta: Frv., sem er að stofni til það sama og fyrrv. heilbr.- og trmrh, lagði fram á síðasta reglulega Alþ., hefur í núv. mynd sinni tekið miklum breytingum til bóta. Svo er fyrir að þakka núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. sem hafði látið taka það til handargagns áður en hann lagði það fram á þessu þingi. Hins vegar hefur frv. ekki batnað að mínu áliti í meðförum hv. Nd. og mér eru það vonbrigði að hv. meiri hl. heilbr: og trn. þessarar hv. d. skuli ekki hafa lagt til í nál. sínu að við hér betrumbæti það sem þeir hafa gert þar neðra.

Skal ég nú víkja að því sem mér finnst mest um vert að lagfæra og felst í brtt. mínum á þskj. 888.

1. brtt. mín er við 9. gr. frv. 9. gr. kveður á um hvenær fóstureyðing skuli heimil. Þar eru tilgreindar þrjár ástæður: í fyrsta lagi félagslegar ástæður, í öðru lagi læknisfræðilegar ástæður, og í þriðja lagi sú ástæða að konu hafi verið nauðgað eða hún orðið þunguð sem afleiðing af öðru refsiverðu atferli. Mín till. er sú að fella niður að félagslegar ástæður geti heimilað fóstureyðingu.

Hér er um grundvallaratriði að ræða. Mín skoðun er sú að félagslegar ástæður eigi aldrei að réttlæta fóstureyðingu. Í fyrsta lagi ern félagslegar ástæður ákaflega rúmt og teygjanlegt hugtak. Í öðru lagi á að bæta úr félagslegum ástæðum með öðrum hætti en að tortíma mannlegu lífi. Það á að gera með félagslegum ráðstöfunum.

Frv. gerir ráð fyrir að félagslegar ástæður heimili fóstureyðingu þegar ætla má, eins og það er orðað, að þungun og tilkoma barns verði konunni og hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna, í frv. er svo að finna leiðbeiningar um það til hvers skuli tekið tillit við mat á því, hvað er „of erfitt“ í þessu sambandi og hvað er „óviðráðanlegar félagslegar ástæður.“ Þar er tiltekið sem ástæða fyrir fóstureyðingu að konan hafi alið mörg börn með stuttu millibili og skammt sé liðið frá síðasta barnsburði. Ég bið menn að taka eftir að samkvæmt þessari reglu getur fóstureyðing verið heimil þó að heimilisástæður séu góðar og heilsufar gott á heimilinu. Ef barnið er ekki velkomið í heiminn af einhverjum öðrum ástæðum, skal lífi þess tortímt ef óskað er. Þá er önnur leiðbeiningarreglan sú að fóstureyðing geti verið heimil „ef konan býr við bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.“ Og þriðja leiðbeiningarreglan er sú að fóstureyðing geti verið heimil „þegar konan getur ekki vegna æsku og þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.“

Þessar tvær síðustu leiðbeiningarreglur byggjast vissulega á félagslegum ástæðum. Það neitar því enginn að bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis á heimili eða þroskaleysi móður geti skapað félagslegt vandamál. En spurningin er hvernig á að bregðast við þeim vanda. Ekki með því að rýmka heimildir til fóstureyðingar. Það er mín skoðun.

Í þessu landi búum við við víðtæka, almenna tryggingalöggjöf og margs konar opinbera aðstoð í félagslegu tilliti. Við teljum okkur standa allframarlega í þessum efnum og erum stundum harla ánægð með hvað áunnist hefur á síðustu áratugum til lausnar hinum ýmsu félagslegu vandamálum. En satt er það að mörgu er enn ábótavant. Hygg ég að þar sé eitt það helsta að tryggingakerfið, samhjálpin og hin opinbera aðstoð af hinu takmarkaða fé sem úr er að spila, er um of dreift á alla jafnt, verðuga sem óverðuga, þurfandi sem þá er ekki þurfa aðstoðar við. Afleiðingin er sú að of lítið er gert fyrir þá sem eru mestrar hjálpar þurfi. Ég tel að við endurskoðun tryggingalöggjafarinnar og allrar samhjálpar í landi okkar þurfi að ráða bót á þessu umfram allt. Þá koma ekki síst til greina gagngerðar ráðstafanir til að bæta enn frekar en áður hefur verið gert úr þeim félagslegu vandamálum sem tiltekin eru í 9. gr. þessa frv. sem við nú fjöllum um. Það þarf að beita almannavaldinu og samhjálp þjóðarinnar til aðstoðar við þá konu sem býr við bágar heimilisástæður vegna ómegðar, eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu svo að barnið, sem hún gengur með, verði velkomið í þennan heim og góður aðbúnaður þess sé tryggður. Ekkert annað er til lausnar þeim félagslega vanda sem hér er fjallað um. Fóstureyðing leysir ekki þennan vanda og það samrýmist ekki menningu og arfleifð þjóðarinnar að ætla að leysa félagsleg vandamál manna með því að tortíma mannlegu lífi. Af þessum ástæðum legg ég til með 1. brtt. minni á þskj. 588 að felldar verði úr frv. félagslegar ástæður fyrir fóstureyðingu.

2. og 3. brtt. mín leiðir af 1. brtt. 2. brtt. er við 11. gr. frv. og felur í sér að fellt er niður ákvæðið um að félagsráðgjafi skuli, ef eingöngu er um félagslegar ástæður að ræða, eiga hlut að hinni skriflegu, rökstuddu greinargerð sem verður að liggja fyrir áður en fóstureyðing má fara fram. Leiðir þetta af því að félagslegar ástæður heimili ekki fóstureyðingu. Að vísu felst í þessari till. minni sú breyting að 1. málsl. 11. gr., er færður í sama horf og var í frv. eins og það var lagt fram í hv. Nd., en þar var tekið fram að hin skriflega, rökstudda greinargerð skyldi vera „um nauðsyn aðgerðarinnar“. Hv. Nd. felldi niður úr þessari grein orðin „um nauðsyn aðgerðarinnar“ og legg ég til að þessi orð séu aftur tekin inn í frv.

3. brtt. mín er við 2. málsgr. 28. gr. frv. og er um það, að læknir í stað félagsráðgjafa skuli skipa sæti í nefnd þeirri sem skipuð skal í þeim tilgangi að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, þannig að nefndina skipi tveir læknar og einn lögfræðingur. Þessa breytingu leiðir af því að félagslegar ástæður heimili ekki fóstureyðingu.

Ég sagði áðan að brtt. mínar við þetta frv. vörðuðu afstöðu tilfóstureyðingar í grundvallaratriðum. Ég tel að félagslegar ástæður geti aldrei réttlætt fóstureyðingu. Þetta leiðir af því að það er um mannslíf að tefla þegar rætt er um eyðingu fósturs. Það er grundvallaratriði að þetta mannlega líf hefur rétt til þess að vera borið í þennan heim. Í okkar lýðræðisþjóðfélagi, sem byggir á kristilegri mannúðararfleifð og virðingu fyrir manngildinu, verður rétturinn til lífsins að vera viðurkenndur. Þess vegna verður það að vera fyrsta siðferðislega skyldan að varðveita líf, jafnvel líf ófædds barns. Þetta verður að vera sú forsenda sem allar umræður um fóstureyðingar byggjast á.

En fóstureyðingar eru ekki einungis brot A rétti hins veika og varnarlausa mannlega lífs í móðurkviði. Þær fela í sér hættuna á þjóðfélagslegri upplausn. Ef þjóðfélagið viðurkennir að fólk geti notið hamingju, ánægju og unaðar, en það þurfi ekki að bera afleiðingarnar ef það vill það ekki, þá er það sama þjóðfélag að kippa stoðunum undan sjálfu sér og stefnir til hruns, Fóstureyðing á því ekki að koma til greina nema lif móður sé í fyrirsjáanlegri hættu eða telja má auðsætt að barnið verði vangefið svo að ekki verði hjá því komist að grípa til örþrifaráða.

Herra forseti. Það væri fróðlegt að ræða hér um reynslu annarra þjóða af fóstureyðingum. Þeim mun fremur væri ástæða til þess, að oft er látið liggja að því í umræðum um þessi mál að við gætum ýmislegt lært af þeim sem frjálsastar hafa fóstureyðingar. En ég held að sá lærdómur örvi ekki til að auka frelsi til fóstureyðinga hér á landi, þvert á móti, sporin hræða. Og þar sem ég þekki til virðist margt benda til þess að þróunin hnigi frekar í öfuga átt, þ. e. a. a. að þrengja heimildir til fóstureyðingar. Það yrði of langt mál að fara að ræða þessi mál almennt í þessum umræðum í annríki síðustu daga þings, en ég get ekki stillt mig um að víkja rétt aðeins að tvennu í þessu sambandi.

Haustið 1972 var lögð fram á þingi Evrópuráðsins tillaga, vandlega undirbúin og ítarleg, um fóstureyðingar í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Um þessa tillögu urðu miklar og eftirminnilegar umræður. Í tillögu þessari fólst m. a. annars áskorun á aðildarríki Evrópuráðsins um að rýmka heimildir til fóstureyðingar þannig að í undantekningartilfellum, eins og það var orðað, yrðu fóstureyðingar heimilaðar af félagslegum ástæðum. Reglurnar um fóstureyðingar eru mjög mismunandi í aðildarríkjum Evrópuráðsins, svo sem kunnugt er. Það urðu líka miklar deilur um mál þetta á þingi Evrópuráðsins og aðallega um heimild til fóstureyðinga af félagslegum ástæðum. Tillaga þessi hlaut þau örlög að vera felld svo að ekki hefur Ísland sem aðildarríki Evrópuráðsins fengið uppörvun úr þessari átt til að lögfesta heimild til fóstureyðinga af félagslegum ástæðum svo sem lagt er til í frv. því sem við nú fjöllum um.

Ég skal víkja að öðru atriði erlendis frá um fóstureyðingar. Það er frá Vestur-Þýskalandi. Í júnímánuði s. l. samþykkti ríkisþingið í Bonn lög um fóstureyðingar sem rýmkuðu helmildir til fóstureyðinga. Þessi lög vorn samþ. eftir mikinn ágreining og sterka andstöðu í vesturþýska þinginu. Andstæðingar þessarar lagasetningar áfrýjuðu lögum þessum til stjórnlagadómstóls ríkisins á þeirri forsendu að sú rýmkun heimildar til fóstureyðingar, sem lögin fólu í sér, bryti í bága við stjórnarskrá Vestur-Þýskalands. Stjórnlagadómstóllinn kvað upp úrskurð sinn 25. febrúar s. l. á þá leið að fóstureyðingalögin voru dæmd ógild, þar sem þau samrýmdust ekki stjórnarskrá ríkisins. Í forsendum úrskurðarins vitnaði dómstóllinn til 1. málsgr. 1. gr. stjórnarskrár ríkisins, þar sem segir, að mannhelgi megi ekki raska og það skuli vera skylda ríkisvaldsins að virða hana og vernda. Dómstóllinn vitnaði og til 2. málsgr. 2. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að sérhver maður skuli hafa rétt til lífs og friðhelgi. Með þessum úrskurði hafnaði stjórnlagadómstóllinn að nokkur stjórnskipulegur mismunur væri á mannlegu lífi, hvort heldur það væri fætt eða ekki fætt. Þá var tekið fram í forsendum þessa úrskurðar að hin bitra reynsla af þýska nasismanum hvetti til þess að ófætt mannlíf væri verndað.

Þessi tvö dæmi, sem ég hef nú drepið á erlendis frá, sýna harðnandi andstöðu gegn fóstureyðingum og vissa tilhneigingu til að þrengja heimildir til að eyða fóstri. Þetta er ekki að ófyrirsynju. Þetta er vegna hinnar hörmulegu reynslu sem fengist hefur víða um lönd af frjálsum fóstureyðingum eða rúmum heimildum til fóstureyðinga. Það er því fullkomin öfugþróun ef nú væri samþykkt að heimila fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eins og frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir.

Það er mikið talað um frelsi í þessu sambandi. Það hljómar vel að tala um frelsi. Hv. 7. landsk. þm. talaði í þeim anda. Mér verður í því sambandi hugsað til lands frelsisins, Bandaríkja Norður-Ameríku. Og ég veit að þegar minnst er á frelsi verður hv. 7. landsk. þm. líka hugsað til þessa lands frelsisins. Fyrir einni öld og nær 17 árum betur fóru fram kappræður milli tveggja manna á mörgum fundum á sléttum Illinois-ríkis. Þar deildu menn hart um frelsið. Annar kappræðumannanna var einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna á þeirri tíð, glæsilegur ræðumaður, öldungadeildarþingmaður frá Washington, Stephen Douglas. Hann hélt því fram í nafni frelsisins að það ætti að vera á valdi hinna einstöku ríkja Bandaríkjanna að ákveða hvort þar skyldi vera lögleitt þrælahald eða ekki. Hinn kappræðumaðurinn var lítt þekktur málafærslumaður frá afskekktum stað sem þá var lítið sveitaþorp, Springfield í Illinois. Þessi maður var Abraham Lincoln. Hann hélt því fram að svo mjög sem bæri að virða frelsið ættu hin einstöku ríki Bandaríkjanna ekki að hafa frelsi til að kveða á um hvort þar skyldi vera lögleitt þrælahald eða ekki. Lincoln byggði þessa skoðun sína á því að þrælahald væri rangt í sjálfu sér og samræmdist ekki þeim manngildis- og mannhelgisjónarmiðum sem hinir vísu landsfeður hefðu lagt til grundvallar þeirri stjórnarskrá sem Bandaríkjunum var í upphafi sett að loknu frelsisstríðinu gegn breska heimsveldinu. Lincoln hélt því fram að allir menn hefðu sama rétt til að ráða lífi sínu og það skipti þar engu hvort hörundslitur manna væri svartur eða hvítur. Þessar frægu kappræður þeirra Stephens Donglas og Abrahams Lincolns vöktu storma og stríð svo sem alkunnugt er og leiddu til atburðarásar sem að lokum færði þrælum í Bandaríkjunum frelsi. Enginn frýr nú Abraham Lincoln fjandskapar við frelsið þótt hann samþykkti ekki frelsi til að hneppa menn í fjötra.

Við skulum jafnan gjalda varhug við því þegar frelsishugsjóninni er hampað í þeim tilgangi að heimta frelsi til handa þeim sem vilja beita aðra órétti. Það er þetta sem við skulum hafa hugfast þegar rætt er um fóstureyðingar. Frelsi ber ekki að veita til fóstureyðinga, vegna þess að það brýtur þann grundvallarrétt sem hvert mannlíf í móðurkviði hefur, réttinn til þess að fæðast í þennan heim.