09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3691 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

11. mál, launajöfnunarbætur

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð einvörðungu í sambandi við ákv. til brb. Ég vil leggja áherslu á þýðingu þess að gerð sé könnun í þessum efnum af hálfu hins opinbera, eins og þar kemur fram. Erlendis hefur þetta verið unnið af því opinbera, en hér hafa þessar kannanir t. d. á málefnum barna einstæðra foreldra farið fram á vegum þeirra samtaka og einnig hafa kannanir á málefnum aldraðra farið fram t. d. á vegum Samtaka sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi, en aðeins hvað tölfræðilegar upplýsingar snertir. Þær kannanir sem gerðar hafa verið í okkar næstu nágrannalöndum og þar sem má segja að séu þó líkastir hættir og hér, hafa leitt margt fróðlegt í ljós.

Það mikilvægasta, sem hafa ber í huga í þessu sambandi, er að það er máske aðeins eitt sem aldraðir eiga sameiginlegt og það er hár aldur. Þarfir og viðhorf einstaklinganna eru mjög einstaklingsbundin og miðast við þeirra aðstæður í þjóðfélaginu og á þetta ekki síður við aldrað fólk en á yngri aldri. Með tilkomu ellilífeyris, sem miðaður er við 67 ára aldur og allir eiga rétt á, er hið opinbera að setja alla 67 ára og eldri í sama bás án tillits til þarfa og aðstæðna hvers einstaklings. Ellilífeyrisupphæðin hlýtur því að vera mjög mikilvægur þáttur í afkomumöguleikum margra aldraðra og því vandmetið hversu há sú upphæð skuli vera er hið opinbera greiðir. Ég nefni tvö viðmiðunaratriði: 1. Einstaklingar, sem búa einir og verða að greiða alla þætti lífsviðurværis síns með ellilífeyri, hljóta að vera þeir sem eru verst settir. 2. Þar sem um hjón er að ræða sem þurfa að lifa eingöngu af ellilífeyri sínum verður að hafa eftirfarandi í huga: a) Öldruð hjón halda heimili sem er í flestum tilfellum dýrt, hvað húsnæði og upphitun varðar hérlendis. b) Kannanir erlendis benda til þess að minni líkur séu til þess að hjón búi hjá sínum nánustu en þar sem um einstakling er að ræða, þ. e. a. s. ef um einstakling er að ræða sem á sína ættingja á lífi, skyldmenni, börn, systkini o. fl., þá eru meiri líkur fyrir því að hann búi hjá þeim heldur en þegar um hjón er að ræða. Hér hef ég minnst á þau atriði sem telja má að séu dýrust fjárhagslega bæði fyrir einstaklinga, sem búa einir, og hjón, sem verða að lifa af ellilífeyri. Þegar rætt er um þá upphæð, sem ellilífeyrir til einstaklinga eða hjóna skuli nema, verður ekki hjá því komist að miða við einhvers konar meðaltalsreglu. En þá er á engan hátt hægt að treysta því að þörfum hvers og eins einstaklings sé fullnægt sem skyldi.

Í þessu sambandi er vert að undirstrika mikilvægi þess að þjónustufyrirkomulagið til handa öldruðum í heimahéruðum sé þannig úr garði gert að það mæti þörfum einstaklingsins í hverju tilviki á sem bestan hátt og komist verði þannig fram hjá öllu sem heitir meðaltalsregla. Auka verður sérlega þessa þjónustu í heimahéruðum. Nú er þetta mjög misjafnt hérlendis og fer að vissu leyti mjög eftir í fyrsta lagi áhuga viðkomandi sveitarstjórnaryfirvalda og í öðru lagi einnig eftir fjárhagslegri getu viðkomandi sveitarfélaga. Einnig þarf að bæta og auka í heimahéruðunum heimilishjálp handa öldruðum, heimahjúkrun. Aðstaða þarf að skapast til þess að hægt sé að senda heim máltíðir handa þeim sem ekki geta staðið í matargerð einir o. a. frv. Koma þarf upp vinnuaðstöðu þar sem aldraðir geta haft aðgang að vinnu við sitt hæfi, og þannig mætti lengi telja. Byggja þarf smáíbúðir við hæfi aldraðs fólks sem eru seldar eða leigðar við vægu verði.

Það er vissulega athyglisvert að þær kannanir, sem gerðar hafa verið hér, benda til þess að 10% af 67 ára og eldri íslendingum búi á stofnunum, miðað við það að í næsta nágrenni við okkur er þessi prósenta 5–6%. En það er það dýrasta sem um er að ræða að aldrað fólk þurfi að búa á stofnunum þó að vissulega verði í fjölmörgum tilvikum ekki fram hjá þessu komist.

Ég vildi aðeins, herra forseti, þó að frsm. hafi ítarlega drepið á þetta ásamt öðru varðandi aðrar greinar í sinni framsöguræðu, leggja ríka áherslu á það gildi, sem slíkar kannanir eins og hér er lagt til að gerðar verði geta haft. Landsmenn geta dregið lærdóm af þeim niðurstöðum, og það er hin mesta fjarstæða að halda að slíkar kannanir séu fjárhagslega ofviða. Þær margfalt borga sig í framkvæmd.