09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3692 í B-deild Alþingistíðinda. (2796)

11. mál, launajöfnunarbætur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr, en ég vildi aðeins gera örstutta athugasemd vegna ummæla hv. 5. þm. Norðurl. v.

Það er alveg rétt að elli- og örorkulífeyrir að viðbættri tekjutryggingu hækkaði mjög mikið í tíð fyrrv. stjórnar og var vissulega mikil þörf á því að slík hækkun yrði. Ég vil hins vegar mótmæla því að þessi hópur hafi verið sérstaklega hart leikinn að undanförnu. Eins og hann gat réttilega er erfitt að bera það saman að þessi lífeyrir hækki til jafns við framleiðslukostnað. Það, sem e. t. v. segir mest í þessu sambandi, er kaupmáttur þessara bóta, en það verður þó að taka slíkar tölur með miklum fyrirvara. Eins og ég gat um í framsögu var meðaltal kaupmáttar á árinu 1971 59.7 miðað við 100 1. jan. 1972, 96.4 að meðaltali á árinu 1972, 93.5 að meðaltali 1973, og 96.7 að meðaltali á árinu 1974. Á fjórða ársfjórðungi 1974 er þessi kaupmáttur 94.6 og með þeim breyt. sem nú eru bornar hér fram verður kaupmáttur einstaklinga 95.8 og hjóna 93.1. Ég tel því að það sé ekki rétt að það hafi verið gengið sérstaklega á hlut þessa fólks. Það er kannske rétt að geta þess að það er í reynd afskaplega erfitt að gera sér fulla grein fyrir þessum málum vegna þess, eins og áður hefur verið getið um, að það liggur ekki fyrir nein könnun á framfærslukostnaði þessa fólks. Það eru allar líkur fyrir því að eftir því sem þessar bætur hækka, þeim mun betur komist þetta fólk af vegna þess að neyslumynstur þess er allt annað en annarra þjóðfélagsþegna. Og svar við þessu fáum við því aðeins að það verði gerð ítarleg könnun á framfærslukostnaði þessa fólks og er vonandi að það verði gert þegar á þessu ári.

Ég vil aðeins geta þess í sambandi við skattafsláttinn að það var reiknað með í drögum að efnahagsmálafrv. að þessi útborgun yrði 20 þús. til einstaklinga og 30 þús. til hjóna, en ekki 36 þús. Það er alveg ljóst að það er mun betra og kemur mun betur út, sérstaklega til hinna tekjulægri, að sameina allar þessar upphæðir. Það hefur verið gert allt of mikið af því á undanförnum árum að ívilna í tekjuskatti, og þá má nefna sem dæmi tekjuskatt aldraðs fólks. Sú ívilnun hefur eingöngu komið til þeirra sem hafa haft tekjur til þess að geta notað þá ívilnun. Með því að fara út á þá braut að hætta slíkum ívilnunum og greiða þær frekar út, sameina slíkar ívilnanir í tekjutryggingunni, þá verður skipting á því fjármagni sem er þannig til ráðstöfunar, mun réttlátari. Ég tel að það hafi alls ekki verið gerð nein tilraun til þess af hálfu meiri hl. til að láta svo líta út að þessar upphæðir væru ekki með í þessum tölum og það er sérstaklega gerð grein fyrir því, hvað þessi upphæð er mikil, á sérstöku fskj. Það er hins vegar alveg ljóst að þessar upphæðir eru 20 þús. til einstaklings og 30 þús. til hjóna. Það var gert ráð fyrir að þetta kostaði ríkissjóð við skattalagabreyt. um 210 millj. kr. Hins vegar er ekki alveg víst hvað þetta muni kosta í þessu formi, en þó er alveg ljóst að það verður ekki lægri tala. Það hefur verið upplýst af Þjóðhagsstofnun að það muni verða á bilinu 210–230 millj. kr. sem þessi framkvæmd kostar, en þá er gert ráð fyrir 210 millj. þegar rætt var um það að greiða þetta út í formi skattafsláttar.