26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

46. mál, sjónvarpsskilyrði á fiskimiðum umhverfis landið

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Hinn 14. apríl 1973 var samþ. hér á Alþ. till. til þál. um könnun sjónvarpsskilyrða á fiskimiðum umhverfis landið og gerð kostnaðaráætlunar í því sambandi. Þessi þáltill. hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna ítarlega skilyrði til móttöku sjónvarpssendinga á fiskimiðunum umhverfis landið. Jafnframt verði gerð kostnaðaráætlun um úrbætur í þessum efnum ef þeirra reynist þörf. Umræddri könnun og kostnaðaráætlun skal lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Svo mörg voru þau orð. Samkvæmt þessari þáltill. átti könnun þessari og kostnaðaráætlun að vera lokið áður en þing kom saman haustið 1973. Þetta varð ekki. Á því þingi gerði ég einnig fsp. um þetta til þáv. hæstv. menntmrh. og hann upplýsti þá að sú könnun væri í gangi, en væri ekki lokið. Enn hefur ekkert bólað á þessu máli og ég hef því leyft mér að leggja fram á þskj. 49 svo hljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„1. Hvað líður framkvæmd þál. þeirrar sem samþ. var á Alþ. hinn 14. apríl 1973, um könnun á móttöku sjónvarpssendinga á fiskimiðum umhverfis landið, og gerð kostnaðaráætlunar um úrbætur ef þeirra reynist þörf?

2. Er þess að vænta að niðurstöður umræddrar könnunar og kostnaðaráætlun varðandi framkvæmdir verði lagðar fyrir yfirstandandi þing?“