09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3698 í B-deild Alþingistíðinda. (2806)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það er nú eiginlega trmrh. sem ætlaði að tala í þessu máli, en það skiptir nú ekki höfuðmáli. Ég vil þakka n. fyrir mjög fljóta afgreiðslu og góða á þessu máli, og ég get alveg tekið undir þá gagnrýni hv. 7. landsk. þm. að e. t. v. er lögð á það nokkuð mikil pressa að afgr. þetta frv. hér. En það er skoðun þeirra manna, sem stóðu að því að semja frv. og voru í þessari n., að það sé nauðsynlegt að hafa nokkuð langan tíma til undirbúnings og þess vegna lagði ég og legg áherslu á að frv. verði lögfest á þessu þingi.

Það er eins með þetta frv., ef það verður að lögum, eins og önnur að það má auðvitað gera á þeim breyt. hvenær sem er ef kemur í ljós að nauðsynlegt er að gera breytingar.

Í sambandi við ábendingu hv. 2. þm. Vestf., seinni ábendinguna um að það væri rétt að setja inn í þetta frv. ákvæði sem jafnvel kæmi í veg fyrir að mannvirki yrðu reist á hættulegum stöðum, þá kom þetta mál mjög til umr. á milli mín og nm., en ég hygg að ég megi segja það að það var shlj. álit þeirra að þessi ákvæði ættu heima í skipulagslögum. Er nú búið að semja frv. á vegum félmrh. til nýrra skipulagslaga sem ég tel öruggt að verði lagt fyrir Alþ. á komandi hausti.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en endurtek þakkir mínar til n. fyrir góða afgreiðslu á þessu máli.