09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3699 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Sjútvn. afgr. þetta mál á svipaðan máta og 264. mál og ég lýsti hér áðan. Nm. eru sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. óbreytts, en tveir nm., Jón Árm. Héðinsson og Stefán Jónsson, gerðu sérstaka grein fyrir afstöðu sinni. Jón G. Sólnes var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Eins og fram kemur í fyrirsögn frv. og aths. er hér um að ræða breyt. á lögum nr. 78/1974, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi ísl. krónu, þ. e. gengisfellingin frá 29. ágúst 1974. Í þeim lögum var gert ráð fyrir því að ráðstafa nokkrum hluta af gengishagnaðinum til þess að gengisbæta Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Á því var þá vakin athygli að þetta orkaði tvímælis og hygg ég að þetta hafi ekki verið í samræmi við lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins frá 1969 sem ég gerði grein fyrir í sambandi við 264. mál. Er í þeim lögum sú kvöð sett á Seðlabanka Íslands að gengistryggja þann sjóð. Hér er því nánast um leiðréttingu á þessum lögum nr. 78 frá 1974 að ræða. Er þar felldur niður b-liður, eins og fram kemur í aths. og er hér verið að staðfesta það sem varð í raun.