26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

46. mál, sjónvarpsskilyrði á fiskimiðum umhverfis landið

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þessi könnun hefur farið fram og skýrsla liggur nú fyrir. Hún er nokkuð löng og í stað þess að lesa hana alla mun ég leitast við að svara fsp. í fáum orðum, en afhenda hv. fyrirspyrjanda skýrsluna nú þegar. En svo alveg á næstu dögum verður henni dreift til hv. alþm. Svar mitt við fsp. sjálfri er svona:

Í framhaldi af nefndri þál. frá 14. apríl 1973 ritaði menntmrn. Ríkisútvarpinu og bað um að könnun sú yrði framkvæmd sem ályktunin fjallar um. Hefur póst- og símamálastjórnin, sem fer með þessi mál fyrir útvarpið, skilað skýrslu um málið hinn 15. þ. m. Segir þar að þegar hafist hafi verið handa um undirbúning sjónvarpsdreifikerfisins fyrir landið á árinu 1964 hafi eingöngu verið miðað við að skapa skilyrði til viðtöku sjónvarps á byggðum svæðum landsins. Dreifing sjónvarps yfir miðin og önnur hafsvæði eigi sér því einungis stað þar sem sjónvarpsstöðvar hafi verið byggðar nálægt sjó og lega byggðarinnar, sem þær áttu að þjóna, verið slík að miklum hluta útgeislunarinnar hafi verið beint út á haf, Megi í því sambandi nefna stöðvarnar á Vatnsenda, í Stykkishólmi, á Hnjúkum í Hegranesi, á Vaðlaheiði, Húsavík, Heiðarfjalli, Gagnheiði, Háfelli, Vestmannaeyjum og Þorbirni. Þjónustusvæði þessara stöðva séu slitrótt og nái sjaldnast 25 sjómílur frá grunnlínu landhelginnar. En gerðar hafi verið ítarlegar athuganir á hugsanlegum úrbótum í þessum efnum. Hafi þær athuganir beinst að því að ná út að þeim mörkum sem Farmanna- og fiskimannasamband Íslands telur æskileg, en þau eru 20–30 sjómílur frá núverandi grunnlínupunktum, að undanskilinni Kolbeinsey.

Það kom fljótlega í ljós að staðsetning núverandi sjónvarpsstöðva er ekki slík að þær geti komið að verulegu gagni fyrir miðin og yrði því að leggja í mjög verulegar nýjar framkvæmdir til þess að unnt yrði að veita viðunandi þjónustu í þessum efnum fyrir fiskimið. Eins og kemur fram í skýrslunni er talið að stofnkostnaður í þessu sambandi yrði um 603 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður um 23.5 millj. kr. og þá er miðað við verðlag í byrjun okt. 1974. Ef í slíkar framkvæmdir yrði ráðist mætti hugsa sér að framkvæmdatíminn yrði u.þ.b. 4 ár, segja sérfræðingarnir.

Svar mitt við fsp. er ekki lengra, en eins og ég sagði áðan, ég afhendi hv. fyrirspyrjanda hér á eftir ljósriti af skýrslunni og mun á allra næstu dögum og væntanlega í þessari viku láta öllum hv. alþm. hana í té.