09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3700 í B-deild Alþingistíðinda. (2811)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er ekki rétt hjá hv. 1. landsk. þm. að það sé nú fyrst verið að leiðrétta það sem gert var með samþykkt laganna um mánaðamótin ágúst-september um ráðstafanir Seðlabanka Íslands vegna breytts gengis á ísl. krónunni því að strax dagana á eftir kom í ljós að það gæti engan veginn gengið að taka samkv. b-lið þessarar gr. 400 millj. kr. af gengishagnaði til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Innan ríkisstj. tók ég það mál upp strax, og ríkisstj. féllst á þann skilning minn að þetta yrði fellt niður. Með tilliti til þess voru gefin út brbl. um ráðstafanir í sjávarútvegi í septembermánuði. Þau brbl. voru staðfest hér á hv. Alþ. í des. Þar er þessum 400 millj. kr. úthlutað sem gengishagnaði. Hins vegar er rétt að breytingin á lögunum frá því í ágústlok er ekki flutt fyrr en nú, en þetta eru fjármunir sem búið er að ráðstafa, en verður auðvitað að nema úr fyrri lögum. Yfirlýsing ríkisstj. var gefin eftir örskamman tíma frá því að genginu var breytt um mánaðamótin ágúst-september. — Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram til þess að ekki gætti þarna misskilnings.