09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3702 í B-deild Alþingistíðinda. (2814)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég man ekki nákvæmlega hvaða dag það var en útvegsmenn á Suðurnesjum boðuðu þm. Reykn. til fundar við sig nokkru eftir gengisfellinguna. Það mun sennilega hafa verið fyrri hluta sept. Þá í fyrsta skipti heyrði ég að 1. þm. Reykn., núv. hæstv. fjmrh., lofaði því að vera því jákvæður, sem hann hefur staðið við, að umrædd tala, hvort hún væri rétt undir eða yfir 400 millj., skyldi ekki reiknuð inn eins og var gert ráð fyrir á sínum tíma í sambandi við gengisfellinguna og gefið var út í sambandi við brbl. sem voru sett 20. sept., nærri mánuði eftir að gengisfellingin átti sér stað. Þetta var í fyrsta skipti sem maður heyrði undanlát vegna gagnrýni stjórnarandstöðunnar, hvort sem við viljum kalla hana harða eða ekki. Ég hélt að það væri ekkert hlustað á það sem við erum að segja í stjórnarandstöðunni hér um eitt eða annað. Aðferðin var ákveðin fyrir því og það var ekkert hlustað á stjórnarandstöðuna. Það átti að borga á tvo vegu, í tvær áttir með sömu krónunum, og hefur engum manni tekist hingað til að framkvæma slíkt. Það er það sem við erum að minna á hér og er viðurkennt með þessu frv. Það var ekki hægt. Spurningin um nokkra daga til eða frá skiptir ekki meginmáli.

Auðvitað er það rétt hjá hæstv. ráðh. að það er í sjálfu sér langt síðan þetta var staðreynd, að peningarnir voru dregnir til baka, þó að frv. sé nú fyrst lagt fram sem endanlega innsiglar þessa gjörð. Það er rétt að ekki var unnt að framfylgja því nema breyta lögum um Verðjöfnunarsjóðinn, eins og ég drap á í nál., vegna þess að hann átti að vera gengistryggður og hafði verið — eins og fram kom við afgreiðslu annars frv. um lagabreyt. á Verðjöfnunarsjóðnum — reiknaður upp og niður eftir hreyfingu á gengi íslenskrar krónu gegnvart erlendri mynt.

Það fer ekkert á milli mála að sú hugsun, sem kom fram í frv., 9. máli hér á sumarþinginu, gat ekki staðist. Þess vegna er lagt til að b-liður 2. gr. sé felldur úr lögum. Hann átti enga stoð í lögum. Það var ekki hægt að framkvæma það það sáu menn við rólega athugun — nema breyta öðrum lögum samtímis. Um þetta þarf ekki að deila. En ég get alveg samþ., skoðun hæstv. ráðh. um, að það leið ekki langur tími áður en hæstv. ríkisstj. áttaði sig á því að hér voru mistök á ferðinni, en það varð vegna gagnrýni bæði hér á Alþ. og utan Alþ. Það er hægt að fletta upp nægum pappírum til að sjá það. Það er ekki ástæða til að biðja um fundarhlé til þess að geta vitnað í slíka pappíra, því að ég hef hér hluta af þeim í hendinni sem staðfesta það. En þetta er ekki það alvarlegt mál að við eigum að þurfa að karpa um það lengi: Staðreyndin er að þessu fé varð ekki úthlutað í tvær áttir samtímis.