09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3705 í B-deild Alþingistíðinda. (2823)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég gerði á sínum tíma hér á hv. Alþ. ítrekaðar tilraunir til þess að efla Gæsluvistarsjóð og lagði fram frv. oftar en einu sinni um að fjármagn Gæsluvistarsjóðs yrði tiltekið hlutfall af sölutekjum Áfengisverslunar ríkisins. Á þetta var ekki hlustað þá og hefur ekki verið hlustað enn. Hins vegar er þörfin óbreytt og ef menn sjá frekar leið til þess að afla tekna til varnar drykkjusýki með því að fara þá leið sem þetta frv. bendir á, þá vil ég styðja þá viðleitni og mun greiða atkv. með frv.