09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3707 í B-deild Alþingistíðinda. (2825)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég má til að þakka fyrir þann ágæta stuðning sem mér finnst hafa komið hér fram við þetta mál. Ég veit að okkur er öllum ljós þýðing þess. Ég veit að sumir hafa áhyggjur út af fjármálum, en í þessu efni hef ég þá skoðun að hér sé um stórkostlega sparnaðartill. að ræða. Og ég efast ekki um að á sama hátt og ýmsar aðgerðir gegn öðrum sjúkdómum eru til sparnaðar þegar til lengdar lætur, á sama hátt muni það koma fram að þetta verði, ef að lögum verður, til þess að auka vinnuhæfni, til þess að fjölga vinnudögum og til þess að spara heilbrigðisþjónustu okkar stórfé. Þetta er skyldutrygging gegn skaða á öðrum eða þriðja aðila, á sama hátt og skyldutryggingar okkar á bifreiðum. Um leið og við kaupum bifreið erum við skyldugir til að tryggja hana ef við skyldum keyra á einhvern eða valda öðrum skaða. Á sama hátt verður maður, þegar hann kaupir brennivín, skyldugur til að borga sínar 100 kr. En þessum 100 kr. er varið til þess að lækna þá sem þessi brennivínsflaska kynni að skaða og hann sjálfan einnig ef hann yrði fyrir tjóni. Það er svo með aksturinn eins og með brennivínsdrykkju, það skaðar suma, aðra ekki. En aðgerðir hljóta að verða nauðsynlegar til að ráða bót á þeim mikla bölvaldi sem hér er um að ræða.

Varðandi Gæsluvistarsjóðinn vildi ég segja það að við höfum haft þennan sjóð í 10 ár. Allir hafa verið sammála um að vilja stækka hann og gera hann hæfari til að gegna sínu hlutverki, en það hefur bara ekki tekist.